Vísa 106 ára konu úr landi

106 ára
Bibihal Uzbeki 106 ára

Hin 106 ára gamla Bibihal Uzbeki var kölluð „heimsins elsti flóttamaður“ þegar blaðamenn töluðu við hana árið 2015 í flóttamannabúðum í Króatíu. Þá var hún ein af 163.000 manns sem sótti um hæli í Svíþjóð.

Uzbeki er upprunalega frá borginni Kunduz í norðurhluta Afghanistan og kom til Evrópu í gegnum Íran og Tyrkland. Um tíma var hún á Balkanskaga en endaði loksins í Skaraborg-héraði í vesturhluta Svíþjóðar árið 2016. Ferðalagið var Uzbeki mjög erfitt og sonur hennar og barnabörn báru hana á bakinu mest alla leiðina. Hún segir: „Við lentum í vandræðum margoft og ég kvaldist.“

Þegar fjölskyldan komst til Þýskalands fékk Uzbeki hjólastól. Þá hafði hún þegar slasast nokkrum sinnum á höfði eftir fall og fengið skurði. Leiðin sem fjölskyldan fór var mjög erfið, jafnvel fyrir yngra fólk. Fara þurfti í gegnum eyðimerkur og skóglendi og yfir fjöll.

Í júní síðastliðnum hafnaði innflytjendastofnun Svíþjóðar umsókn hennar og henni sagt að fara aftur til Afghanistan eða einhvers annars lands sem væri viljugt að taka við henni. Þessari ákvörðun hefur verið áfrýjað til dómstóls innflytjendamála.

Ástandið í Afghanistan er hættulegt á alla mælikvarða en þó mishættulegt eftir svæðum. Ljóst er þó að annað langt ferðalag verður Uzbeki erfitt, jafnvel þó það verði í flugvél.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.