Íslenskri þjóðernishyggju aldrei verið ýtt út á jaðarinn

Er bæði almenn og útbreidd en ekki herská – Litlar líkur á óeirðum og ofbeldi

Hundruð nýnasista gengu fylktu liði eftir götum Charlottesville, undir nasískum merkjum, öskrandi hatursáróður. Þeim laust saman við hópa gagnmótmælenda sem endaði með götubardögum og því að einn nýnasistinn keyrði inn í hóp mótmælenda. Ein kona lést og nítján slösuðust í hryðjuverkinu.
Nýnasistar fylktu liði Hundruð nýnasista gengu fylktu liði eftir götum Charlottesville, undir nasískum merkjum, öskrandi hatursáróður. Þeim laust saman við hópa gagnmótmælenda sem endaði með götubardögum og því að einn nýnasistinn keyrði inn í hóp mótmælenda. Ein kona lést og nítján slösuðust í hryðjuverkinu.
Mynd: Wikipedia

Litlar líkur má telja á að hér á landi komi til óeirða af svipuðum toga og orðið hafa í Charlottesville í Bandaríkjunum. „Hörð kynþáttahyggja nýtur ekki mikils stuðnings hér á landi. Það eru auðvitað hópar sem daðra við slíkt og fólk sem hefur slíkar sérkennilegar hugmyndir. Það er hins vegar langur vegur frá því og að fara með óeirðum út á götur. Hér á landi er engin hefð fyrir ofbeldisverkum í stjórnmálum, ólíkt því sem þekkist í ýmsum löndum í kringum okkur. Það er einfaldlega hluti af stjórnmálaarfleifð margra landa, ofbeldi, byltingartilraunir og óeirðir. Ísland er ekki þannig land,“ segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor en hann er sérfróður um þjóðernishyggju og uppgang slíkra afla.

Nýnasisti framdi hryðjuverk

Upphaf óeirðanna í Charlottesville má rekja til ákvörðunar um að taka niður styttu af Robert E. Lee, hershöfðingja Suðurríkjanna í þrælastríðinu. Sökum þessa söfnuðust nýnasistar til bæjarins og gengu þar fylktu liði undir kyndlum, suðurríkja- og nasistafánum, hrópandi slagorð gegn innflytjendum, gyðingum, hinsegin fólki, konum og minnihlutahópum. Slagsmál og óeirðir brutust út milli nýnasistanna og hópa sem mótmæltu þeim. Þá framdi tvítugur nýnasisti, James Alex Fields, hryðjuverk þegar hann keyrði inn í hóp mótmælenda og myrti með því 32 ára gamla konu, Heather Hayer, og slasaði tugi.

Nýnasistar gengu undir hakakrossfána á Austurvelli í mótmælum í október 2010. Það mun hafa verið í fyrsta skipti frá því á fjórða áratugnum sem slíkum fána var flaggað opinberlega. Mótmælendur hrifsuðu fánann af nýnasistunum og brenndu hann.
Undir hakakrossfána á Austurvelli Nýnasistar gengu undir hakakrossfána á Austurvelli í mótmælum í október 2010. Það mun hafa verið í fyrsta skipti frá því á fjórða áratugnum sem slíkum fána var flaggað opinberlega. Mótmælendur hrifsuðu fánann af nýnasistunum og brenndu hann.

Hundruð nýnasista gengu undir hakakrossfánum og öðrum nasískum merkjum, æpandi „hvít líf skipta máli“ og nasísk slagorð eins og „blóð og föðurland“. Hér á landi hefur það einu sinni gerst á síðari árum að nýnasistar hafi vogað sér að flagga nasískum fánum opinberlega. Það var í mótmælum á Austurvelli í október 2010 þar sem fána með hakakrossinum var flaggað. Aðrir mótmælendur rifu fánann úr höndum nýnasistanna og brenndu hann.

Herská samtök nýnasista á Íslandi

Á síðustu árum hafa starfað á Íslandi fámennir hópar nýnasista, sem hafa verið í tengslum við hinar alþjóðlegu nýnasistahreyfingar Blood & Honor og Combat 18. Þá hefur Norðurvígi, samnorrænn félagsskapur nýnasista, reynt að hasla sér völl hér. Óljóst er hvernig þeim hefur gengið að fá til sín liðsmenn. Eiríkur segist telja ólíklegt að uppgangur nýnasista og þjóðernisöfgahreyfinga hér á landi verði með slíkum hætti að atburðir á borð við þá sem átt hafa sér stað í Charlottesville gætu orðið hér.

„Þjóðernissinnar á Íslandi þurfa ekki að berjast fyrir skoðunum sínum til að öðlast viðurkenningu“

„Ég myndi halda að það væri frekar ólíklegt. Í Bandaríkjunum er kynþáttahyggja mjög rótgróið fyrirbæri og á rætur í mestu menningarátökum landsins fyrr og síðar, þrælastríðinu. Foringjar Suðurríkjamanna eru enn í hetjuljóma hjá stórum hópum eins og þessar óeirðir í Charlottesville bera með sér, þar sem því var mótmælt að slík táknmynd yrði fjarlægð. Ekkert slíkt er til staðar á Íslandi. Þó er íslensk þjóðernishyggja almenn og útbreidd. Hún er tiltölulega viðurkennd af meginstraumsöflum í íslenskum stjórnmálum. Hún er hins vegar ekki árásargjörn og ofbeldisfull og ekki úti á jaðri stjórnmálanna, eins og svo víða annars staðar. Þjóðernissinnar á Íslandi þurfa ekki að berjast fyrir skoðunum sínum til að öðlast viðurkenningu, það er að segja þessi mjúka útgáfa. Þess vegna er þessi harka ekki til staðar, íslenskum þjóðernissinnum hefur aldrei verið þrýst út á jaðarinn.“

Lögreglan í Charlottesville handtekur einn úr hópi nýnasistanna sem stóðu fyrir óeirðum og ofbeldi í bandarísku borginni um síðustu helgi.
Handtaka nasista Lögreglan í Charlottesville handtekur einn úr hópi nýnasistanna sem stóðu fyrir óeirðum og ofbeldi í bandarísku borginni um síðustu helgi.

Þjóðernishyggju að finna í flestum íslenskum flokkum

Birtingarmyndir þjóðernishyggju á Íslandi hefur mátt greina í flestum íslenskum stjórnmálaflokkum, bæði til vinstri og hægri, sem og á miðju stjórnmálanna segir Eiríkur. „Það er mjög mismikið innan flokkanna en þjóðernishyggja hefur lifað nokkuð góðu lífi á báðum vængjum stjórnmálanna. Íslenskir nasistar gengu margir hverjir til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, það gerir Sjálfstæðisflokkinn sannarlega ekki að nasistaflokki, en sýnir að þessir gangvegir hafa verið tiltölulega opnir. Vinstrisinnuðustu flokkarnir á Íslandi voru líka lengi vel verulega þjóðernissinnaðir.“

Flokkarnir samþykkja ekki nýnasista

Uppgangur þjóðernispopúlisma hefur verið verulegur í Evrópu síðustu misseri og ár. Niðurstöður rannsókna Eiríks hafa sýnt að meðal annars innan Framsóknarflokksins á Íslandi hafi á tímabili verið öfl sem hafi sýnt ýmis einkenni slíks og hið sama má segja um fleiri flokka. Hins vegar telur Eiríkur ekki að hörðustu þjóðernissinnarnir, nýnasistar til að mynda, finni sér farveg í meginstraumsflokkunum.

„Það hefur ekki verið svo. Meginstraumsflokkar á Íslandi samþykkja auðvitað ekki nýnasisma og hafa ýtt öllu slíku frá sér. Svoleiðis hreyfingar hafa hins vegar verið til á Íslandi líka en hafa hingað til ekki náð máli í stjórnmálum. Eftir seinni heimsstyrjöld var það þó ekki fyrr en um áttunda áratuginn sem slíkir hópar fóru að koma fram á nýjan leik,“ segir Eiríkur og vísar þar til félagsskapar sem kallaðist Norrænt mannkyn og átti uppruna sinn á Suðurlandi. Sá félagsskapur hafði það á stefnuskrá sinni að takmarka verulega komu fólks af erlendu bergi brotið til landsins. Síðar komu fram fleiri félög af svipuðum toga, til að mynda Félag íslenskra þjóðernissinna sem einnig átti rætur sínar á Suðurlandi. Þá hafi starfað hér á landi á síðustu árum herská samtök þjóðernissinna, svo sem fyrr er nefnt.

Daðra við þjóðernispopúlisma

Eiríkur segir dæmi um að meginstraumsflokkar hafi fært sig lítillega inn í þetta mengi. „Það eru til að mynda Frjálslyndi flokkurinn árið 2006 og Framsóknarflokkurinn fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Þeir urðu alls ekki neitt í námunda við nýnasistaflokka en sumir innan þeirra döðruðu á tímabili við þjóðernispopúlisma. Þá má að hluta til sjá popúlísk áhrif í málflutningi talsmanns Flokks fólksins þótt sá flokkur sé nú samt miklu fremur róttækur félagshyggjuflokkur. Síðan eru tveir aðrir hreinræktaðir þjóðernispopúlískir flokkar sem eru þessa dagana að máta sig við stjórnmálaþátttöku. Það eru Íslenska þjóðfylkingin, þótt ekki sé vitað hvort það fyrirbæri sé lífs eða liðið, og síðan klofningur út úr þeim samtökum, þessi nýi Frelsisflokkur. Þannig að þessi flóra er til staðar hér. En að þeim myndi takast að fá fólk út á göturnar, til að taka þátt í óeirðum og ofbeldi til höfuðs stjórnvöldum, það tel ég afar ólíklegt. Ef þú ert íslenskur þjóðernissinni þá hefur þú enga þörf á því að skora stjórnmálakerfið á hólm utan frá. Það er hægt að finna mýkri hliðum íslenskrar þjóðernishyggju farveg innan stjórnmálaflórunnar á Íslandi. Það léttir því í raun og veru pressunni af.“

„Þjóðernishyggja hefur lifað nokkuð góðu lífi á báðum vængjum stjórnmálanna“

Gætu hrært í drullupolli

Eiríkur segir að ef hér yrði veruleg niðursveifla í efnahagslífi gæti það breytt landslaginu. „Það gæti gert það ef saman við myndi blandast ótti við erlenda ógn, sem einhverjir óprúttnir aðilar myndu ala á. Ef hægt er að ásaka innlenda aðila um að svíkja þjóðina í hendurnar á erlendri ógn við efnahagslega erfiðar aðstæður geta þjóðernispopúlistar hrært í þeim drullupolli með þeim árangri að einhverjir óstöðugir aðilar myndu freistast til aðgerða. Það er hins vegar langt í slíkt hér á landi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.