fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Hlunnindi kirkjujarða 230 milljóna króna virði

Fylgja 29 jörðum kirkjunnar – Hafa runnið til presta en breytinga er að vænta

Ritstjórn DV
Föstudaginn 18. ágúst 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fasteignamat hlunninda sem fylgja jörðum í eigu Þjóðkirkjunnar nemur 230 milljónum króna. Jarðir í eigu kirkjunnar, sem Kirkjumálasjóður fer með, eru 41 talsins og fylgja hlunnindi 29 þeirra. Um er að ræða veiðirétt, jarðhita, reka, æðarvarp og önnur óskilgreind hlunnindi. Langmest vegur hlutur jarðarinnar Hofs í Vopnafirði en veiðihlunnindi jarðarinnar eru metin á 83,5 milljónir króna í fasteignamati. Um er að ræða veiðihlunnindi í Hofsá, einni helstu laxveiðiá landsins, og Sunnudalsá. Arður af veiðirétti í Hofsá nemur um níu milljónum króna á ári.

Þeir prestar sem sitja jarðir í eigu kirkjunnar, prestsetursjarðir, hafa frá fornu fari fengið jarðirnar til ábúðar og nytja, með þeim hlunnindum sem þeim fylgja. Það þýðir í raun að prestar hafa getað stundað búskap samhliða prestsstörfum en jafnframt sinnt dúntekju, nýtt reka, stundað selveiðar, leigt út veiðirétt eða nýtt hver þau hlunnindi sem hverri jörð fylgja. Í upphafi tuttugustu aldar hóf hið opinbera að greiða prestum laun fyrir störf sín en hlunnindi fylgdu engu að síður prestsetrum áfram.

Mynd: © Eyþór Árnason

Kirkjan vill undanskilja hlunnindi

Árið 2015 skilaði ráðgjafahópur biskupi Íslands greinargerð um hlunnindi presta þar sem meðal annars kemur fram að arður sem prestar fái af hlunnindum, án þess að þurfa að inna af hendi sérstakt vinnuframlag, skekki stöðu stéttarinnar innbyrðis og sé úrelt fyrirkomulag sem ætti að afnema. Ekki væri þó rétt að svipta sitjandi presta umræddum hlunnindum þar eð ekki væri hafið yfir vafa að slíkur gjörningur stæðist lög. Því var lagt til að hlunnindi af umræddum toga yrðu undanskilin þegar brauð yrðu auglýst og veitt nýjum prestum í framtíðinni.

Sú hefur orðið raunin í tveimur tilfellum síðan þá, fyrst í fyrra þegar Reynivellir í Kjós voru auglýstir lausir. Reynivellir eiga veiðirétt í Laxá í Kjós sem metinn er á tæpar 25 milljónir króna í fasteignamati. Þau hlunnindi voru undanskilin og rennur arður af veiðiréttinum nú í Kirkjumálasjóð. Nú fyrir skemmstu var jörðin Hof í Vopnafirði, sem nefnd er hér að framan, auglýst laus og þá tók Kirkjuráð einnig ákvörðun um að umræddur veiðiréttur yrði undanskilinn.

Hafa staðið í dómsmálum

Sem fyrr segir á Þjóðkirkjan eða Kirkjumálasjóður 41 jarðeign í 29 sveitarfélögum. Hlunnindi fylgja 29 þessara jarða en um er að ræða nýtingu jarðhita, reka, selveiði, æðarvarp, veiðihlunnindi og önnur hlunnindi, óskilgreind. Alls er verðmæti umræddra hlunninda metið á 230 milljónir króna í fasteignamati jarðanna 29. Þó er rétt að geta þess að í yfirliti yfir fasteignamat prestsetursins Staðastaðar á Snæfellsnesi eru hlunnindi í æðarvarpi metin upp á rúmar fjórar milljónir króna. Hins vegar staðfesti Hæstiréttur september í fyrra dóm héraðsdóms þess efnis að umrædd hlunnindi tilheyrðu nágrannajörðinni Haga. Þá féll í mars á þessu ári dómur í Hæstarétti þess efnis að veiðiréttur Staðastaðar í Staðará væri sameiginlegur með jörðinni Tröðum en ekki kom fram í dómnum hvernig skipta bæri þeim veiðirétti. Hlunnindi af veiðiréttinum voru í fasteignamati Staðastaðar talin 1,5 milljónir króna.

Kirkjumálasjóður tapaði dómsmáli um veiðirétt prestsetursins Staðastaðar í Staðará í fyrravor. Niðurstaðan varð að veiðirétturinn væri sameiginlegur með jörðinni Tröðum. Áður hafði sjóðurinn tapað dómsmáli vegna æðarvarps sem gert var tilkall til.
Staðará Kirkjumálasjóður tapaði dómsmáli um veiðirétt prestsetursins Staðastaðar í Staðará í fyrravor. Niðurstaðan varð að veiðirétturinn væri sameiginlegur með jörðinni Tröðum. Áður hafði sjóðurinn tapað dómsmáli vegna æðarvarps sem gert var tilkall til.

Hofi fylgja verðmestu hlunnindin

Sem fyrr segir eru hlunnindi sem fylgja jörðinni Hofi í Vopnafirði metin langhæst allra jarða kirkjunnar, 83,5 milljónir króna. Næst kemur jörðin Reynivellir sem fyrr er nefnd en hlunnindi af veiðirétti í Laxá í Kjós eru metin á tæpar 25 milljónir króna. Í flestum tilfellum hafa jarðirnar hlunnindi af veiðirétti, alls 21 jörð, og er heildarfasteignamat þeirra hlunninda metið ríflega 170 milljónir króna. Þar á eftir koma hlunnindi af æðarvarpi en tíu jarðir teljast njóta slíkra hlunninda og er heildar fasteignamatið tæpar 48 milljónir. Æðarvarp sem fylgir jörðinni Kolfreyjustöðum í Fáskrúðsfirði er hæst metið, upp á 13,7 milljónir króna.

Rekinn ekki verðmikill

Jarðhiti fylgir þremur jörðum og er metinn á tæpar tíu milljónir króna. Réttur til að stunda selveiðar fylgir einni jörð, Vatnsfirði við Djúp, og er hann metinn á tæpar 300 þúsund krónur. Rekaítök hafa fjórar jarðir en verða fæstir líklega feitir með nýtingu þeirra. Heildar fasteignamatið nemur 144 þúsund krónum. Á jörðinni Skinnastöðum í Öxarfirði stendur reki undir tvö þúsund króna fasteignamati, hvorki meira né minna. Þá er ótalið að Kirkjumálasjóður á jörðina Hrútey í Hrútafirði, sem lengst af fylgdi raunar prestsetrinu Melstað í Miðfirði. Í Hrútey er æðarvarp metið til hlunninda en einnig óskilgreind hlunnindi upp á 116 þúsund krónur í fasteignamati. DV er ekki kunnugt um hvaða hlunnindi þar um ræðir.

Skiptingin ærið misjöfn

Af jörðunum 29 sem hlunnindi fylgja eru 20 svokallaðar prestsetursjarðir, það er setnar prestum. Þó er raunar prestlaust sem stendur á Hofi og einnig á Staðastað en deilur standa milli fyrrverandi sóknarprests þar, séra Páls Ágústs Ólafssonar, og kirkjunnar um afhendingu prestsbústaðarins og jarðarinnar. Sem fyrr segir renna hlunnindatekjur jarðanna Hofs og Reynivalla nú til Kirkjumálasjóðs en hlunnindi annarra jarða renna til prestanna sem þær sitja, utan Staðastaðar þar sem mál eru í óvissu. Af hinum jörðunum má ætla að presturinn á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Kristinn Jens Sigþórsson, hafi drýgstar tekjur af hlunnindum. Í fasteignamati jarðarinnar er veiðiréttur metin á tæpar 20 milljónir króna. Í fasteignamati jarðarinnar Heydala í Breiðdal, þar sem Gunnlaugur Stefánsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins, situr sem prestur, er tiltekið að veiðiréttur og dúntekja séu virði rúmra 16 milljóna króna.

Mynd: Austurfrétt/Gunnar

Það er hins vegar ærið misjafnt hversu mikil hlunnindi fylgja jörðunum. Áður var minnst á Skinnastaði þar sem reki er talin tvö þúsund króna virði í fasteignamati. Á Skeggjastöðum við Bakkafjörð er æðarvarp metið í heilar eitt þúsund krónur og reki á 34 þúsund krónur. Ekki er víst að séra Brynhildur Óladóttir sem þar situr fylli vasa sína með greiðslum af þeim hlunnindum.

Sumir geta setið lengi enn

Hér fyrr í fréttinni var nefnt að ekki væri hafið yfir vafa að það stæðist lög að svipta sitjandi presta hlunnindum þeirra jarða sem þeir sitja. Því yrði slíkt ekki gert fyrr en þeir segðu sig frá brauðinu eða hættu fyrir aldurs sakir. Mjög misjafnt er hversu langt er eftir af skipunartíma prestanna, það er þangað til þeir verða sjötugir en þá þurfa þeir að láta af prestsstörfum. Þannig á Elínborg Sturludóttir, prestur að Stafholti í Stafholtstungum, ríflega 21 ár í sjötugt en hlunnindi jarðarinnar samkvæmt fasteignamati nema rúmum 16 milljónum króna fyrir veiðirétt. Séra Gunnlaugur Stefánsson, sem nefndur er hér að framan, prestur í Heydölum, á hins vegar aðeins rúm þrjú ár í sjötugt. Má fastlega gera ráð fyrir því að þegar Heydalur verði auglýstur laus verði hlunnindi undanskilin, í það minnsta veiðiréttur.

Kirkjan lengi helsti jarðeigandinn

Framseldi jarðir til ríkis gegn launagreiðslum presta
Kirkjan lengi helsti jarðeigandinn

Kirkjan var árhundruðum saman helsti jarðeigandi á Íslandi. Um siðaskiptin á miðri 16. öld átti kaþólska kirkjan um helming alls jarðnæðis á landinu. Eftir siðaskipti jókst ásókn dönsku krúnunnar í jarðeignir hér á landi en engu að síður var kirkjan eftir sem áður stór jarðeigandi. Árið 1907 tók íslenska ríkið til sín jarðir kirkjunnar, aðrar en prestsetursjarðir, gegn því að greiða úr ríkissjóði laun presta. Nýta átti arð af sölu eða leigu umræddra jarða í því skyni. Þeir fjármunir entust þó ekki lengi og árið 1919 voru prestar felldir undir lög um laun embættismanna og fengu upp frá því föst laun greidd úr ríkissjóði.

Þjóðkirkjan gerði hins vegar athugasemdir við með hvaða hætti samkomulaginu frá 1907 var framfylgt og lagði fram það álit sitt að eignarréttur umræddra jarða lægi enn hjá kirkjunni. Sú afstaða var staðfest með kirkjujarðasamkomulaginu árið 1997 þar sem samið var um að ríkið fengi til eignar um það bil 600 jarðir gegn því að greiða laun sem samsvara 138 prestsembættum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu