Robert Spencer kærir lækni á bráðamóttöku Landspítalans

Rannsókn lögreglu á eitrun Spencer er lokið og málið komið á borð ákærusviðs

Robert Spencer, ritstjóri Jihad Watch og fyrirlesari, hefur kært Hjalta Má Björnsson, bráðalækni við bráðadeild Landspítalans, til Siðanefndar Læknafélagsins og Landlæknis. Spencer hélt hér á landi nokkuð umdeildan fyrirlestur um íslam í maí en honum var jafnframt byrlað ólyfjan á skemmtistaðnum BarAnanas í Reykjavík.

Rannsókn þess máls er lokið og er komið til ákærusviðs lögreglunnar. Það þýðir að lögregla telji málið upplýst en nú sé verið að taka afstöðu til þess hvort ákæra verið gefin út.

DV hefur undir höndum kæru Spencers til siðanefndar en þar kemur fram að hann telji að Hjalti Már hafi ekki gefið sér réttar upplýsingar þegar hann leitaði á bráðamóttökuna. Spencer telur jafnframt að pólitískar hvatir kunni að skýra háttalag hans.

Sjá einnig: Spencer var byrluð e-tafla: Sjáðu læknaskýrsluna

Taldi Hjalta sér óvinsamlegan

Forsaga málsins er að stuttu eftir að Spencer var byrlað ólyfjan þá fann hann fyrir örum hjartslætti, doða og kastaði upp. Hann leitaði því á bráðamóttöku Landspítalans þar sem að hann var rúmliggjandi þá nótt. Í kæru Spencer kemur fram að honum hafi þótt Hjalti óvinsamlegur í sinn garð.

„Hann sagði mér aðeins að rítalín hefði greinst í blóði mínu, og virtist fullur efasemda þegar ég tjáði honum að ég hafi aldrei tekið inn rítalín. Hjalti Már sagðist vera þeirrar skoðunar að lyfjaprófið (medical lab tests) sem var gert á mér hafi sýnt ranga niðurstöðu – án þess að útskýra hver sú niðurstaða hafi verið – og ég hafi einfaldlega fengið kvíðakast,“ segir í kæru Spencer til siðanefndar.

Spencer segir að honum hafi ekki þótt sú greining sannfærandi þar sem að hann hafi ekki fengið kvíðakast þegar íslamskir vígamenn gerðu árás árið 2015 á Curtis Culwell Center í Texas þar sem hann hélt erindi. „Jíhadistarnir voru vopnaðir Kalashnikov AK-47 hríðskotabyssum, og sprengjusérfræðingar lögreglunnar leituðu að tímasprengjum í nágrenninu. Ég var helsta skotmark hryðjuverkamannanna. Af hverju fékk ég ekki kvíðakast á meðan á þessu gekk?,“ spyr Spencer í kærunni.

Segist ekki hafa verið upplýstur um MDMA

Spencer telur að greining Hjalta hafi verið byggð á stjórnmálaskoðun en ekki læknisvísindum. „Hjalti Már talaði einnig sífellt um streitu sem hann sagði hrjá mig, hvatti mig til að hætta því sem ég gerði, án þess að hafa neinar vísbendingar um að mér hafi nokkurn tímann fundist starf mitt neitt sérstaklega streituvaldandi. Eftir á að hyggja – þegar ég uppgötvaði að hann hafði ekki upplýst mig til hlítar um hvað lyfjaprófunin leiddi í ljós – virðist ásetningur hans hafa verið að telja mér trú um að ekki hafi verið eitrað fyrir mér, og hið meinta kvíðakast mitt tímanna tákn um að ég ætti að hætta að fjalla um hryðjuverk jíhadista,“ segir í kærunni.

Hann segir að Hjalti hafi ekki upplýst sig um að MDMA hafi fundist í þvagprufu. „Ég uppgötvaði það ekki fyrr en ég hafði yfirgefið Landspítalann, var kominn aftur á hótelherbergi mitt og skoðaði læknaskýrsluna. Ég vissi ekki hvað MDMA var, notaði því Google til að komast að því, og þegar mér varð ljóst að um ,,alsælu“ var að ræða, fór ég fyrst að skilja hvað hafði gerst. Kvíðakast er í raun og veru eitt af einkennum af of stórum skammti af MDMA. Vitandi það dró verulega úr undrun minni á þessu snögga áfalli sem ég varð fyrir,“ segir í kærunni og spyr Spencer hvers vegna Hjalti hafi talað um meint álag þegar hann hafi vitað niðurstöðu eiturefnagreiningarinnar.

Sjá einnig: Rekstrarstjóri Priksins: „Ég eitraði ekki fyrir honum“

Telur læknaskýrslu villandi

DV hefur áður birt afrit af læknaskýrslu sem Hjalti Már undirritaði en Spencer gagnrýnir jafnframt þá skýrslu. „Mér hefur verið bent á, bæði af íslenskum lækni og bandarískum lækni, að læknaskýrslan sem Hjalti Már Björnsson undirritar sé villandi miðað við greiningu rannsóknarstofunnar á sýnunum sem ég veitti. Hjalti Már virðist leggja lítið upp úr því sem gerðist. Hann notar ,,hyponatremíu“ sem aðalgreiningu, þegar hún ætti í reynd að vera hliðargreining. Hann telur orsök hennar vera að ég hafi drukkið mikið magn vatns, sem ég gerði á hótelinu til að hreinsa út eiturefnin áður en ég fór á bráðadeild Landspítalans. Hann upplýsir mig ekki um þá staðreynd að hyponatremía er annað einkenni af of stórum skammti af MDMA,“ segir í kæru Spencer.

Hann fullyrðir jafnframt að báðir þessir læknar telji að það sé óviðeigandi að segja á skýrslu sem þessari að engin merki séu um alvarlega eitrun. „Ekki alvarleg fyrir hvern? Hversu mikið eitur þarf að gefa manneskju svo að eitrunin teljist ,,alvarleg“? Ég var með öll einkenni af of stórum skammti af MDMA. Það þykir mér nógu alvarlegt. Verra er að mér er ekki einu sinni sagt frá staðreyndum málsins af lækninum sem annaðist mig meðan ég dvaldi á bráðadeild Landspítalans,“ segir í kærunni sem er dagsett þann 8. ágúst síðastliðinn.

DV hefur jafnframt undir höndum tölvupóstsamskipti Spencer við Kjartan Ólafsson, saksóknara hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Grím Grímsson yfirlögregluþjónn. Þar kemur fram að nokkrir aðilar hafi verið yfirheyrðir, þar á meðal mögulegir sökudólgar. Lögregla hafi jafnframt lagt hald sönnunargögn svo sem myndbandsupptökur. Líkt og fyrr segir verður ákvörðun um hvort ákæra verður gefin út í málinu tekin fljótlega.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.