fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Íbúar í mörgum Evrópuríkjum eru komnir með nóg af túristum

Íbúar kvarta undan hækkandi fasteignaverði – Ótrúlegur vöxtur í fjölda ferðamanna

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 17. ágúst 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svo virðist vera sem íbúar í nokkrum borgum Evrópu séu búnir að fá sig fullsadda af ferðamönnum og öllu því sem þeim fylgir. Þetta á til dæmis við um íbúa í Barcelona á Spáni en talið er að 32 milljónir manna heimsæki borgina á ári hverju.

AFP-fréttastofan fjallar um þetta. Tekið er dæmi af hverfinu Barceloneta í Barcelona en þar hafa íbúar svo árum skiptir kvartað undan drukknum ferðamönnum sem stunda kynlíf á opinberum stöðum. Þá hafa íbúar á leigumarkaði kvartað undan hækkandi leiguverði sem rekja má til ferðamanna.

Samstöðufundir gegn ferðamönnum

„Við viljum ekki ferðamenn í okkar húsum,“ stóð á einu spjaldi sem íbúi í Barcelona hélt á um helgina. Efnt var til samstöðufundar á ströndinni í Barcelona til að vekja athygli á málinu. Sambærilegir samstöðufundir hafa verið haldnir annars staðar á Spáni, til dæmis í borginni Palma á Mallorca í sumar.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, steig fram fyrir skemmstu þar sem hann reyndi að róa órólega íbúa. Spænska hagkerfið treystir að nokkru leyti á ferðamannaiðnaðinn og skapar landinu töluverðar tekjur.

„Þegar maður reynir að komast í gamla bæinn þarf maður stundum að bíða í röð í klukkutíma í 40 stiga hita“

Hraður vöxtur

Ferðamannaiðnaðurinn á heimsvísu hefur vaxið mikið á undanförnum áratugum og þannig er nefnt í umfjöllun AFP að árið 1995 er áætlað að 525 milljónir manna hafi ferðast á milli landa. Árið 2016 var sá fjöldi kominn upp í 1,2 milljarða þökk sé ódýrari samgöngum og auknum fjölda ferðamanna frá Kína og Indlandi.

Það er því víðar en á Spáni sem ferðamenn valda íbúum hugarangri. Sumir áfangastaðir eiga bágt með að ráða við þann fjölda sem kemur. Í umfjöllun AFP er Dubrovnik í Króatíu nefnt sem dæmi en þangað koma fjölmörg skemmtiferðaskip á ári hverju. Íbúar þar eru langþreyttir á stríðum straumi ferðamanna.

„Þegar maður reynir að komast í gamla bæinn þarf maður stundum að bíða í röð í klukkutíma í 40 stiga hita,“ segir Ana Belosevic sem starfar á hóteli í Dubrovnik. Gamli bærinn í Dubrovnik er margrómaður fyrir glæsilegar byggingar sem byggðar voru á 18. og 19. öld. Borgarstjórinn Mato Frankovic segir við AFP að borgaryfirvöld muni setja upp myndavélar til að skrásetja betur þann fjölda ferðamanna sem fer um borgina og þá standi til að takmarka fjölda þeirra skemmtiferðaskipa sem koma til hafnar.

Ýmsum aðferðum beitt

Talið er að um 24 milljónir manna heimsæki Feneyjar á hverju ári, en íbúar þar eru 265 þúsund talsins. Yfirvöld þar ákváðu fyrir skemmstu að prufukeyra nýtt kerfi sem takmarkar fjölda þeirra ferðamanna sem getur heimsótt Saint Mark‘s-torg. Nú þurfa ferðamenn að bóka heimsóknir á torgið til að koma í veg fyrir troðning. Þá geta þeir sem stinga sér til sunds í þeim fjölmörgum skurðum sem liggja um Feneyjar átt von á 500 evra sekt.

Í Lissabon í Portúgal hafa íbúar í hverfinu Alfama, því elsta í borginni, fengið sig fullsadda af ferðamönnum. Fasteignaverð í hverfinu hefur hækkað mikið vegna aukinnar ásóknar ferðamanna í gistingu þar. Tækifærissinnaðir fjárfestar hafa séð sér leik á borði og keypt fasteignir til að leigja þær svo ferðamönnum sem aftur leiðir til hærra verðs fyrir aðra íbúa. „Það er erfitt að finna íbúð í Alfama sem kostar minna en þúsund evrur á mánuði,“ segir Maria de Lurdes Pinheiro, íbúi í hverfinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu