fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Prinsarnir þrír sem hurfu sporlaust

Þrír prinsar frá Sádi-Arabíu hafa horfið sporlaust á síðustu tveimur árum

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 16. ágúst 2017 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á síðustu tveimur árum hafa þrír sádiarabískir prinsar, sem allir áttu það sameiginlegt að hafa átt heima í Evrópu, horfið. Þeir áttu það einnig sameiginlegt að hafa gagnrýnt stjórnvöld í Sádi-Arabíu. Vísbendingar eru um að þeim hafi verið rænt og þeir fluttir heim þar sem ekkert hefur spurst til þeirra.

Breska ríkisútvarpið, BBC, fór í saumana á þessu óvenjulega máli á vef sínum.

Handtekinn í Marokkó

Einn þessara prinsa er Turki bin Bandar sem eitt sinn var einn æðsti embættismaður í löggæslu konungsfjölskyldunnar. Deilur um arf gerðu það að verkum að Bandar endaði í fangelsi en eftir að honum var sleppt árið 2012 flutti hann til Parísar. Þar tók hann upp og birti myndbönd á YouTube þar sem hann kallaði eftir umbótum í heimalandi sínu.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu biðluðu til Bandars að koma aftur til Sádi-Arabíu til að leysa úr þeim ágreiningsmálum sem til staðar voru. Í eitt skipti hringdi Ahmed al-Salem, aðstoðarinnanríkisráðherra Sáda, í hann og sannfærði hann um að koma aftur heim. Í stað þess að verða við þeirri bón tók Bandar samtalið upp og birti á netinu.

Bandar hélt áfram að birta myndbönd, þar sem hann gagnrýndi yfirvöld, allt þar til í júlí 2015 að dauðaþögn skall á. Síðar það sama ár hvarf Bandar og hefur lítið til hans spurst síðan. Wael al-Khalaf, vinur Bandars, segir í samtali við BBC að Bandar hafi vanið sig á að hringja í hann á 1-2 mánaða fresti. Síðan hafi hann hætt að hafa samband og síðar frétt af vini sínum í Sádi-Arabíu.

Blaðamaður BBC gróf upp þær upplýsingar að Bandar hefði verið handtekinn í Marokkó eftir stutta heimsókn frá Frakklandi. Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafi óskað eftir að fá hann framseldan og dómstólar í Marokkó orðið við þeirri beiðni. Ekki er vitað nánar um afdrif Bandars, hvar hann er í dag eða hvort hann sé lífs eða liðinn.

Er talinn hafa verið plataður af útsendurum stjórnvalda í Sádi-Arabíu sem þóttust vera í forsvari fyrir rússneskt-ítalskt fyrirtæki.
Saud bin Saif Er talinn hafa verið plataður af útsendurum stjórnvalda í Sádi-Arabíu sem þóttust vera í forsvari fyrir rússneskt-ítalskt fyrirtæki.

Örlögin innsigluð

Um svipað leyti og Bandar hvarf hvarf annar prins, Saud bin Saif al-Nasr. Hann var búsettur í Evrópu þar sem hann átti það til að skrifa harðorðar Twitter-færslur sem beindust gegn stjórnvöldum í Sádi-Arabíu. Færslurnar hóf hann að skrifa árið 2014 og beindust þær meðal annars að þeim embættismönnum í Sádi-Arabíu sem höfðu stutt andspyrnumenn í Egyptalandi sem vildu steypa Hosni Mubarak forseta af stóli.

„Við vorum fjögur úr fjölskyldunni í Evrópu. Við gagnrýndum fjölskylduna og stjórnarhætti hennar í Sádi-Arabíu. Þremur okkar hefur verið rænt. Ég er einn eftir.“

Árið 2015 gekk hann enn lengra þegar ónafngreindur prins kallaði eftir valdaráni í Sádi-Arabíu. Saud studdi ávarpið og það virðist hafa innsiglað örlög hans. Nokkrum dögum síðar hættu Twitter-færslur hans að birtast. Enginn veit hvar hann er niðurkominn en nokkrum kenningum hefur verið varpað fram.

Khaled bin Farhan, sem flúði Sádi Arabíu og fluttist til Þýskalands árið 2013, segist hafa upplýsingar þess efnis að Saud hafi verið plataður til að flúga frá Mílanó til Rómar til að ræða hugsanlegan viðskiptasamning við rússneskt-ítalskt fyrirtæki sem hugðist opna bækistöðvar í Sádi-Arabíu. Einkaþota hafi verið send eftir Saud en í stað þess að fljúga til Rómar hafi vélinni verið flogið til Riyadh í Sádi-Arabíu. Þar hafi stjórnvöld verið að verki.

Plataður um borð í einkaþotu

Þriðji prinsinn sem nefndur er í umfjöllun BBC er Sultan bin Turki bin Abdulaziz. Sultan þessi hvarf fyrst árið 2003 þegar hann var búsettur í Genf í Sviss en líkt og Turki og Bandar hafði Sultan verið gagnrýninn á stjórnvöld í Sádi-Arabíu, meðal annars vegna stöðu mannréttindamála og umfangs spillingar í landinu. Honum var rænt og hann fluttur til Sádi-Arabíu þar sem hann var dæmdur í fangelsi.

Það var svo árið 2010 að Sultan var leyft að ferðast til Bandaríkjanna vegna versnandi heilsu. Þar sagði hann alla sólarsöguna um það sem hafði gerst árið 2003 og hélt gagnrýni sinni á yfirvöld áfram. Hann ákvað að snúa ekki aftur heim til Sádi-Arabíu en þrátt fyrir það virðast stjórnvöld hafa haft hendur í hári hans. Í janúar 2016 hvarf Sultan sporlaust meðan hann var staddur í París. Svo virðist vera sem hann hafi verið lokkaður um borð í flugvél. Sultan hugðist heimsækja föður sinn í Kaíró í Egyptalandi þegar yfirvöld í Sádi-Arabíu buðu honum og fylgdarliði hans afnot af einkaþotu. Þrátt fyrir allt sem á undan var gengið samþykkti Sultan boðið en það hefði hann betur látið ógert. Heimildarmaður BBC segir að vélinni hafi verið flogið til Sádi-Arabíu. Síðan þá hefur ekkert spurst til Sultans.

Áhyggjufullur

Khaled, prinsinn sem flúði til Þýskalands, árið 2013, hefur sjálfur áhyggjur af því að hann verði fluttur nauðugur til Sádi-Arabíu. „Við vorum fjögur úr fjölskyldunni í Evrópu. Við gagnrýndum fjölskylduna og stjórnarhætti hennar í Sádi-Arabíu. Þremur okkar hefur verið rænt. Ég er einn eftir.“ Þegar hann er spurður hvort hann óttist að hann verði næstur, segir hann: „Ég er sannfærður. Ég hef verið sannfærður í langan tíma. Ef þau hefðu getað það, væru þau búin að því. Ég fer mjög varlega, en ég geri það á kostnað frelsisins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“
Fréttir
Í gær

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað

Manndráp í Kiðjabergi – Mennirnir voru að byggja sumarbústað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum