Fréttir

Útvarpsmaðurinn Ívar segir upphefð samkynhneigðar hafa farið úr böndunum

Hjálmar Friðriksson
Þriðjudaginn 15. ágúst 2017 11:01

Útvarpsmaðurinn Ívar Halldórsson er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum en í nýjum pistli sem birtist í Fréttablaðinu talar hann gegn samkynhneigð. Hann hefur áður fordæmt fóstureyðingar og íslenska veitingastaði. Ívar byrjar pistil sinn á því að það sé mikilvægt að fleiri en ein skoðun fái að vera leyfileg í umræðunni, að því gefnu að persónulegar skoðanir séu tjáðar friðsamlega.

„Talandi um skoðanir finnst mér sjálfum ákveðin upphefð samkynhneigðar hafa farið smátt og smátt úr böndunum; regnboga-yfirlýsingar á almenningsvögnum, djarfir erótískir búningar og misvísandi skilaboð og tilvísanir í frjálst og ögrandi kynlíf í gleðigöngum finnast mér ekki eiga heima fyrir framan alla aldurshópa. Þetta er bara eitthvað sem stríðir gegn minni siðferðiskennd, þótt ég viti að mörgum finnist mín afstaða kannski úr takti við tíðarandann. En þó eru margir sem virðast skilja hvað ég á við,“ skrifar Ívar.

Finnst samkynhneigð ekki eðlileg

Hann segist ekki geta gert kröfu um að allir séu sammála og sjálfsagt að fagna því að samkynhneigðir njóti virðingar og sama réttar og aðrir þegar kemur að því að kjósa sér lífsstíl. Honum hefur þó aldrei fundist samkynhneigð eðlileg. „Mér hefur sjálfum aldrei fundist beint eðlilegt að tvær manneskjur af sama kyni njóti ásta og gangi í það heilaga. Fyrir mér er þetta eins og að reyna að hlaða I-Phone með Samsung hleðslusnúru. Þetta hefur bara einhvern veginn aldrei gengið upp í kollinum á mér. Frá læknisfræðilegu og líffræðilegu sjónarhorni er, eins og flestum er kunnugt, t.d. líkamlegt samband tveggja karlmanna ekki alls kostar upplagt af náttúrufræðilegum og „hönnunartengdum“ ástæðum,“ skrifar Ívar.

Hann segir að auk þessa fylgi samkynhneigð ákveðin hætta. „Ef ég skil rétt það sem heilbrigðisfulltrúar hafa skrifað, er samkynhneigt samband talsvert áhættusamara en samband tveggja aðila af sitt hvoru kyni, þar sem allt virðist „smella“ mun betur saman „verkfræðilega“. Þetta er auðvitað að vissu leyti áhyggjuefni, en eitthvað sem maður sjálfur og flestir aðrir hafa velt fyrir sér og því kannski engar brautryðjandi vangaveltur hér á ferð,“ skrifar Ívar.

Bíblían varar við

Ívar er kristinn en telur þó að biblían banni ekki beint samkynhneigð. „Það hefur alltaf verið minn persónulegi skilningur að Biblían leggi ekki blessun sína yfir hjónabönd samkynhneigðra þótt að ýmsar kirkjudeildir hafi veitt sína opinberu blessun. Ég sjálfur er á þeirri skoðun að afstaða ritninganna til samkynhneigðar hafi ekki verið til þess fallin að niðurlægja, móðga eða fordæma einn né neinn, og þá síst samkynhneigða. Tilgangurinn frekar sá að vara fólk við þá alls óþekktum smitsjúkdómum, sem hafa því miður kostað allt of margar góðar manneskjur lífið,“ skrifar Ívar.

Hann ítrekar mikilvægi þess að fólk fái að hafa mismunandi skoðanir, á samkynhneigð líkt og öðru. „Að þessu sögðu gefa mínar persónulegu skoðanir og vangaveltur mér engan rétt til þess að fyrirlíta, niðurlægja eða fordæma samkynhneigða einstaklinga eða vanvirða frelsi þeirra til að ábyrgjast eigið líf og gjörðir. Ég hef ekki rétt á að setja mig á háan hest og dæma aðra fyrir ólík lífsviðhorf – bara af því að þau eru ekki mín eigin. Það þýðir lítið fyrir mig að móðgast og fara í fýlu yfir því að fólk neiti að hugsa eins og ég. Fólk þarf ekkert leyfi frá mér til að taka ákvarðanir fyrir sitt eigið líf,“ skrifar Ívar.

Á samkynhneigða vini

Hann segir að þó eitthvað sé löglegt þurfa ekki allir að vera sammála um ágæti þess. „Réttar skoðanir eða ekki þá get ég aldrei gert kröfur um að fólk breyti sínum skoðunum eftir minni hentisemi og hef sjálfur ekki rétt á að þröngva mínum skoðunum upp á aðra. Þetta verður auðvitað að virka á báða vegu ef sanngirni á að vera í fyrirrúmi. Við þurfum nefnilega ekki öll að vera sammála um allt – bara vegna þess að eitthvað er löglegt eða samþykkt af einhverjum meirihluta. Það ríkir skoðanafrelsi í okkar landi. Við eigum að mega hafa og viðra alls kyns ólíkar skoðanir; svo lengi sem við látum ekki skoðanir okkar bera okkur út fyrir ramma laganna eða siðferðismörk,“ skrifar Ívar.

Hann tekur þó fram að hann eigi samkynhneigða vini: „Samkynhneigðar persónur eru frábærar og það er mér einnig sönn ánægja að segja að samkynhneigðir einstaklingar hafa blessað líf mitt með vináttu sinni. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim og er þakklátur fyrir að mega njóta vináttu þeirra. Samkvæmt minni trú ber mér að elska náungann eins og sjálfan mig og gildir þá einu hvaða lífsskoðun fólk hefur. Þar af leiðandi freista ég þess að leggja alla fordóma til hliðar og legg mig heldur fram um að líta undir yfirborðið hjá þeim sem á vegi mínum verða í lífinu. Þannig kynnist ég betur þeirri raunverulegu persónu sem það hefur að geyma – enda er það nákvæmlega það sem ég óska að annað fólk reyni að gera þegar það mætir mér á lífsins vegi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þekktur videobloggari segir Bandaríkjamenn geta lært helling af byssueign Íslendinga

Þekktur videobloggari segir Bandaríkjamenn geta lært helling af byssueign Íslendinga
Fyrir 2 dögum

Spurning vikunnar: Hvernig fer leikurinn gegn Argentínu?

Spurning vikunnar: Hvernig fer leikurinn gegn Argentínu?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þetta er verðið á sjónvarpsauglýsingu í kringum leiki Íslands á HM

Þetta er verðið á sjónvarpsauglýsingu í kringum leiki Íslands á HM
Fyrir 3 dögum

Rósa var týnd á Bláfjöllum í þrjár vikur: „Hundar geta lifað alveg ótrúlega lengi ef þeir hafa nóg vatn“

Rósa var týnd á Bláfjöllum í þrjár vikur: „Hundar geta lifað alveg ótrúlega lengi ef þeir hafa nóg vatn“