Sonur Jacks Hrafnkels svipti sig lífi á geðdeild: „Þeir hafa ekki lært nokkurn skapaðan hlut“

Jack Hrafnkell Daníelsson segir að Íslendingar verði að líta í eigin barm.

„Það er auðvitað rosalega sárt á heyra af þessu og það rífur upp öll sár, sem voru aðeins farin að myndast hrúður á. Þeir segja að tíminn lækni öll sár en það er brandari, sá sem samdi það hefur annað hvort verið algjörlega tilfinningalaus gúrka eða aldrei misst neinn nákominn,“ segir Jack Hrafnkell Daníelsson í samtali við DV.

Sonur hans, Sveinn Ingi, svipti sig lífi á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri fyrir fimm árum. RÚV greindi frá því í gær að ungur maður hafi, líkt og Sveinn Ingi, svipt sig lífi á geðdeild Landspítalans. Hann hafði verið fluttur þangað þar sem hann hafði verið í sjálfsvígshættu.

Draga ekki lærdóm

Jack Hrafnkell segir það ljóst að enginn innan heilbrigðiskerfisins né stjórnmálamenn hafi dregið lærdóm af andláti sonar hans. „Ég segi það fullum fetum að frá því að sonur minn tók sitt eigið líf þá hefur ástandið ekkert skánað. Það hefur versnað ef eitthvað er. Það er margoft búið að biðla til stjórnmálamanna, sérstaklega ríkisstjórnarflokkanna, að gera eitthvað í þessum málum. Það er alveg ótrúlegt að maður skuli horfa upp á það að það séu hátt í fimm hundruð manns sem gera tilraun til að taka sitt eigið líf á hverju ári. Og að hálft hundrað skuli takast það,“ segir Jack Hrafnkell.

Móðir Sveins Inga, Sigríður Sveinsdóttir, opnaði sig um sjálfsvíg sonar síns í viðtali við Akureyri vikublað í fyrra. Hún sagði líkt og Jack Hrafnkell að kerfið hefði brugðist þar sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir sjálfsvígið með því að veita honum hjálp.

„Sjálfsvíg mega ekki vera tabú. Þetta er raunveruleikinn; fólk er að svipta sig lífi af því að það fær ekki lausn sinna mála. Við sem samfélag þurfum að fara að vakna [...] Ég sakna hans á hverjum degi. Það mun aldrei breytast,“ sagði Sigríður.

Gjaldfrjáls sálfræðiþjónusta

Jack Hrafnkell spyr sig hvers vegna almenningur leggi ekki meiri áherslu á að stjórnmálamenn bregðist við. „Það er fussað og sveiað í einn eða tvo daga ef eitthvað gerist en svo er ekkert meir. Fólk nennir ekki að hreyfa á sér rassgatið til að gera nokkurn skapaðan hlut. Fólk vill ekki taka neina ábyrgð en málið er að þetta fólk ber alla ábyrgðina sjálf, því það gerir ekki neitt. Það röflar og rífur kjaft en gerir ekki neitt. Nú erum við að horfa upp á ungan mann sem svipti sig lífi inni á geðdeild, fimm árum eftir að sonur minn gerir það, af því að starfsfólk geðheilbrigðissviðs og þeir sem sjá um þennan málaflokk hafa ekki lært nokkurn skapaðan hlut og geta ekki einu sinni axlað ábyrgð,“ segir Jack Hrafnkell.

Jack Hrafnkell segir að tillaga Pírata um að niðurgreiða sálfræðiaðstoð væri skref í rétta átt. „Það veitir ekkert af, því álagið sem börn og unglingar verða fyrir í dag er ekkert smáræði. Það þarf að gera þetta gjaldfrjálst því það er ótrúlegur fjöldi af fólki sem á við gífurlega erfiðleika að stríða,“ segir Jack Hrafnkell.

Hann segir að raunar þurfi allir Íslendingar að líta í eigin barm. „Almenningur þarf að staldra aðeins við og skoða sjálft sig. Hvort það geti lifað með sjálft sig við þessar aðstæður. Þetta er það sem manni virðist vera það sem Íslendingar vilja sjálfir. Hafandi stjórnvöld sem moka öllu í eigin rann en skilja almenning eftir slyppan og snauðan. Það er sorglegt að horfa upp á þetta,“ segir hann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.