Lík fannst í Hvítá

Mynd: Mynd Sigtryggur Ari Jóhannsson

Lík af karlmanni fannst í Hvítá í dag og eru taldar sterkar líkur á því að líkið sé af hælisleitandanum Nika Begadze sem féll í Gullfoss þann 19. júlí. Það þykir þó ekki fullsannað. Lögreglan á Suðurlandi birti eftirfarandi fréttatilkynningu um málið á Facebook-síðu sinni rétt í þessu:

Í leitarflugi Landhelgisgæslu með björgunarsveitarmönnum Eyvindar á Flúðum í dag fannst lík af karlmanni á austurbakka Hvítár, neðan Brúarhlaða. Líkið hefur verið flutt til rannsóknar á Rannsóknarstofu Háskólans í réttarmeinafræði þar sem fram fer krufning á því ásamt því að Kennslanefnd ríkislögreglustjóra mun vinna með réttarmeinafræðingi að því að bera kennsl á það. Sterkar líkur eru á því að líkið sé af Nika Begadze sem féll í Hvítá við Gullfoss fyrr í sumar.“

Facebooksíða Lögreglunnar á Suðurlandi

Nika Begadze er frá Georgíu. Hann féll í Gullfoss miðvikudaginn 19. júlí. Fólk tilkynnti lögreglu að það hefði séð mann í Hvítá við Gullfoss. Fjölmennt lið björgunarsveitamanna leitaði hans þá án árangurs og þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang.

Nika Begadze bjó í Reykjanesbæ og var með stöðu hælisleitanda. Skipulögð leit stóð yfir í þrjá daga og var henni þá slitið. Þó hefur verið leitað að Nika af og til og í dag virðist leitin hafa borið árangur - þó að ekki sé endanlega staðfest að líkið sé af honum.

Ólíklegt er talið að Nika hefði fengið hæli hér á landi þar sem Georgía er talin vera öruggt land.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.