Margrét féll af hestbaki og hryggbrotnaði: „Þakka mínum sæla fyrir að vera á lífi“

„Ég þakka mínum sæla að vera á lífi og líka fyrir að hafa ekki lamast,“ segir Margrét Friðriksdóttir en hún féll af hestbaki í dag í útreiðartúr með vinafólki á Þingvöllum. Hestur hennar fældist er hópur mætti þeim skyndilega og fór á sprett. „Ég losnaði úr ístaðinu og fann að það var illskást fyrir mig að stökkva af baki. Ég lenti á afturendanum og fékk rosalegan hnykk – ég fann strax að þetta var brot.“

Höggið lenti á stað sem var viðkvæmur fyrir en árið 1997 lenti Margrét í bílslysi og hryggbrotnaði á nákvæmlega sama stað. Hesturinn sem Margrét reið á er í eigu vinar hennar og er vanalega hin spakasta skepna en hann virðist hafa fælst er Margrét og vinahópur hennar mættu öðrum hópi, en hestar geta orðið styggir ef komið er snöggt að þeim.

Eins og sjúkrahús í þriðja heims landi

Margrét var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Hún segir að sér hafi brugðið nokkuð við að upplifa aðbúnaðinn þar. „Ég verð að segja að þetta minnti mig dálítið á sjúkrahús í þriðja heims landi. Fólkið sem er að vinna þarna er vissulega yndislegt og leggur sig allt fram en það er bara svo mikil fjárskortur. Ég þurfti fyrir það fyrsta að bíða í einn og hálfan tíma eftir viðtali við lækni en það var þó ekki neitt miðað við að þarna var önnur kona sem þurfti að bíða í fjóra tíma. Síðan var mér tjáð að væri ég brotin þá yrði ekkert hægt að gera því það væri svo dýrt! Það er hægt að framkvæma minniháttar aðgerð við hryggbroti en hún er ekki í boði lengur.“

Margrétar bíður nú það verkefni að þrauka á verkjalyfjum þar til hún jafnar sig á meiðslunum en það getur tekið um átta vikur. „Ég var sárkvalin. Fékk fjóra skammta af morfíni en þeir virkuðu ekki. Svo fékk ég annað lyf sem virkaði heldur ekki en loks fékk ég lyf í vöðva og það virkaði.“ Fékk Margrét 30 töflur heim með sér en veit ekki hve lengi sá skammtur mun virka né hvenær hún fær annan skammt.

Margrét er grafískur hönnuður og frumkvöðlafræðingur. Hún er hins vegar þekktust fyrir skoðanir sínar á þjóðmálum en hún stýrir stórum umræðuhópum á Facebook og mætir reglulega í viðtöl í útvarpsþættinum Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu. Margrét heldur á lofti kristilegum gildum auk þess sem hún er mikill ættjarðarsinni. „Ég er stolt af því að vera Íslendingur en ég hef heldur ekkert á móti útlendingum og nýt þess að ferðast til annarra landa,“ segir Margrét.

Margrét hefur lengi unnið sjálfsætt en svo óheppilega vill til að hún er nýbúin að ráða sig í fast starf: „Ég réð mig sem markaðsstjóra hjá fyrirtæki. Það er lán í óláni að ég á ekki að byrja fyrr en í september, á að sinna einhverjum verkefnum heima áður. Þannig að ég hef einhvern tíma til að jafna mig áður. Annars er ég bara bjartsýn og það þýðir ekkert annað en að gera það besta úr stöðunni. Svo er ég hérna með eina yndislega 11 ára sem er að brjóta saman þvott fyrir mig á meðan ég ligg hérna og tala við þig,“ segir Margrét en dóttir hennar var að hjálpa til á meðan Margrétt ræddi við blaðamann í síma. Hún á líka aðra dóttur sem er 14 ára.

Blaðamaður DV sendir Margréti Friðriksdóttur hlýjar og innilegar batakveðjur.

Margrét birti þessa stöðufærslu á Facebooksíðu sinni í kvöld
Margrét birti þessa stöðufærslu á Facebooksíðu sinni í kvöld

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.