Kærður í tíunda sinn og var alveg sama

Klukkan fimm í morgun stöðvaði lögreglan bíl við Háaleitisbraut. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og fyrir að keyra bíl sviptur ökuréttindum. Fram kemur í dagbók lögreglunnar að þetta er líklega í tíunda sinn sem maðurinn er kærður fyrir ölvun við akstur og var honum nokkuð sama þegar lögreglumenn kynntu honum stöðuna.

Mjög mörg atvik áttu sér stað í gærkvöld og nótt þar sem lögregla stöðvaði ökumenn vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Um eittleytið í nótt var ölvaður maður handtekinn í Breiðholti grunaður um heimilisofbeldi. Var hann vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.

Klukkan þrjú í nótt var ölvaður maður handtekinn í Þingholtsstræti en lögregla hafði ítrekað verið kölluð til vegna mannsins þar sem hann var til vandræða. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu þar til ástand hans batnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.