Ævintýraleg atburðarás á Akureyri: Mæðgur fóru með eldri konu í Arion banka og náðu í 30 milljónir í reiðufé - „Gamla konan á nóg“

Gengu út með 30 milljónir í reiðufé - Undarlegt símtal - Sökuð um að halda aldraðri konu nauðugri

Lögreglan á Norðausturlandi rannsakar nú mál sem snýr að fjársvikum og hugsanlegri frelsissviptingu á eldri konu á Akureyri. Talið er að um sé að ræða móður og dóttur hennar og að þær séu frænkur brotaþola.

Gengu út úr bankanum með 30 milljónir í reiðufé

Dóttirin, sem er fertug að aldri, bað brotaþola, aldraða konu, um að lána sér peninga fyrir íbúð og sagðist ætla að borga til baka. Í kjölfarið fór dóttirin með konunni í útibú Arion banka þann 23. mars síðastliðinn og tók út 30 milljónir króna í reiðufé af reikningi hennar. Konan aldraða fékk hins vegar ekkert í hendurnar, ekki einu sinni kvittun.

Þegar leið á sumarið og konan hafði ekkert fengið til baka af „láninu“ leitaði hún hjálpar aðstandanda sem réð lögfræðing fyrir hana. Þegar farið var að skoða málið og upp komst að konan hafi látið frænku sína hafa 30 milljónir án nokkurra pappíra var haft samband við mæðgurnar og þess farið á leit að þær greiddu peninginn til baka. Þá sagði móðirin þetta engu skipta: „Gamla konan eigi nóg af peningum“.

Þá var leitað til lögreglunnar sem hóf rannsókn á málinu og mæðgurnar voru yfirheyrðar í kjölfarið. Þá sögðu þær féð ekki hafa verið lán heldur fyrirfram greiddan arf. Hvorug þeirra er þó lögerfingi konunnar og samkvæmt lögum þarf að tilkynna og greiða skatt af fyrirfram greiddum arfi.

Við rannsókn málsins kom í ljós að það var búið að eyða töluverðum hluta af fénu í ýmsa muni. Meðal annars var búið að kaupa bifreið sem greidd var með reiðufé, en bifreiðin var ekki skráð á nafn dótturinnar. Lögreglan lagði hald á þessa muni og það reiðufé sem ekki var búið að eyða. Þá var tillaga um ákæru fyrir fjársvik lögð fram af hálfu brotaþola.

Ætluðu að halda henni yfir nótt

Eftir yfirheyrslu á dótturinni, fimmtudaginn 3. ágúst, sóttu mæðgurnar konuna og fóru með hana upp á lögreglustöð. Þar var þess krafist að kæran yrði dregin til baka en lögreglumenn á vakt sinntu því ekki þar sem klukkan var orðin margt. Þeim var sagt að mæta aftur á stöðina morguninn eftir.

Þá fóru mæðgurnar með konuna á heimili móðurinnar þar sem til stóð að halda henni yfir nóttina en konan vildi fara heim og hafði samband við aðstandendur sína. Tveir menn mættu á staðinn til að sækja hana en annar þeirra er sonur og bróðir gerendanna. Lögreglan var látin vita af ástandinu og lögregluþjónar voru í reiðubúnir að skerast í leikinn ef eitthvað kæmi upp á.

Mennirnir tveir náðu hins vegar að koma konunni af heimili móðurinnar og síðan þá hafa mæðgurnar ekki haft neitt samband við hana. Rannsókn á málinu stendur enn yfir og ekki hefur verið gefin út opinber ákæra á hendur mæðgunum, hvorki fyrir fjársvik né frelsissviptingu.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.