Alvarleg veikindi herja á skáta á Úlfljótsvatni – 170 fluttir í fjöldahjálparstöð í Hveragerði

Úlfljótsvatn.
Úlfljótsvatn.
Mynd: Facebook/Úlfljótsvatn

Undanfarna daga hefur magakveisa herjað á erlenda skáta sem hafa dvalið í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Á sjötta tug tilfella hefur komið upp en ekki er vitað um orsakirnar. Í gærkvöldi var leitað eftir aðstoð heilbrigðisstarfsmanna á Suðurlandi vegna málsins. í framhaldi voru 170 skátar fluttir frá Úlfljótsvatni í fjöldahjálparstöð í Hveragerði. Þar er heilbrigðisstarfsfólk til staðar og hlúir að þeim veiku.

Í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta segir að álíka veikindi hafi komið upp á alþjóðlega skátamótinu sem lauk í síðustu viku á Úlfljótsvatni en þar hafi verið um einangruð tilfelli að ræða sem hafi gengið hratt yfir.

Allt tiltækt starfslið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands var kallað út vegna málsins. læknar og sjúkraflutningamenn voru sendir til Úlfljótsvatns til að meta ástand fólks og í framhaldi var hafist handa við að flytja skátana til Hveragerðis en þar var fjöldahjálparstöð sett upp í samstarfi við Rauða krossinn og fleiri viðbragðsaðila.

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, segir að engar skýringar hafi enn fundist á veikindunum og því óvíst hvort þau stafi frá matvælum eða hvort um venjulega magapest sé að ræða.

Vísir segist hafa heimildir fyrir að grunur leiki á að um nóróveirusýkingu sé að ræða og að ríflega 55 börn hefðu greinst með magakveisu. Sýni hafa verið tekin og send til rannsóknar.

Nóróveira er bráðsmitandi og berst auðveldlega á milli fólks. Oft hafa komið upp mál þar sem fjöldi fólks hefur smitast á afmörkuðum svæðum, til dæmis um borð í skemmtiferðaskipum og hótelum. Yfirleitt gengur sýkingin yfir á einum til þremur sólarhringum.

Uppfært klukkan 06:40

Þrír skátar voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í nótt til að fá frekari aðhlynningu, næringu í æð. Þeir eru nú komnir í fjöldahjálparstöðina í Hveragerði. Staðfest hefur verið að 62 hafa sýkst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.