Japan mun ekki líða ögranir frá Norður-Kóreu

Japönsk stjórnvöld vöruðu stjórnvöld í Norður-Kóreu við í dag og sögðu að þar á bæ muni ögranir af hálfu Norður-Kóreu ekki verða liðnar. Japanska ríkisstjórnin tilkynnti þetta í dag. Ástæðan er að talsmenn hers Norður-Kóreu hafa sagt að unnið sé að gerð áætlunar um árás á eyjuna Guam í Kyrrahafi en hún er bandarískt yfirráðasvæði. Samkvæmt áætluninni á að skjóta fjórum eldflaugum á Guam og eiga þær að fara yfir Japan.

Talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar sagði að aðgerðir Norður-Kóreu væru skýrar ögranir sem beinast að þessum heimshluta og gegn öryggi Japan og heimsins. Þetta verði ekki liðið.

Kim Rak Gyom, sem stýrir eldflaugadeild hers Norður-Kóreu, segir að fyrirhugað sé að skjóta eldflaugum sem lenda í sjónum í um 30 til 40 km fjarlægð frá Guam. Síðan verði beðið eftir fyrirmælum yfirmanns kjarnorkuvopnabúrs landsins um næstu skref. Þetta kom fram í umfjöllun KCNA sem er ríkisfréttastofa Norður-Kóreu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.