fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Sveitarfélög stunda viðskipti við kennitöluflakkara

Hafnarfjörður og Reykjanesbær skipta við verktakafyrirtæki á þriðju kennitölunni

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 7. júlí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvö sveitarfélög, Hafnarfjörður og Reykjanesbær, eiga í viðskiptum við verktakafyrirtæki sem nú er starfrækt á þriðju kennitölunni. Viðskiptin fara fram í gegnum fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna, Vatnsveitu Hafnarfjarðar og HS Veitur hf. Þá hefur fyrirtækið einnig séð um snjómokstur fyrir Hafnarfjarðarbæ. Innkaupareglur Reykjanesbæjar kveða á um að vísa beri bjóðanda frá ef í ljós kemur að fyrirtæki eða eigandi þess hafi farið í gjaldþrot, nauðasamninga eða greiðslustöðvun á síðastliðnum fimm árum. Þetta ákvæði er ekki að finna í innkaupareglum Hafnarfjarðarbæjar sem ganga mun skemur en hjá öðrum nágrannasveitarfélögum. „Þetta er skítt fyrir þá aðila sem eru að standa skil á öllu sínu en sjá síðan aðila með mörg gjaldþrot á bakinu hirða verkin,“ segir ósáttur samkeppnisaðili.

Gjaldþrota í annað sinn

Kennitöluflakk hefur verið mikið í umræðunni undanfarið í kjölfar þess að Sam­tök at­vinnu­lífs­ins og Alþýðusam­band Íslands kynntu á dögunum til­lög­ur sem ætlað er að sporna gegn athæfinu. Í til­lög­un­um felst meðal ann­ars að þeim sem yrðu upp­vís­ir að kenni­töluflakki yrði bannað að reka og eiga hluta­fé­lög og einka­hluta­fé­lög í allt að þrjú ár.

Í febrúar 2017 greindi DV frá því að verktakafyrirtækið Fjarðargrjót ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta í annað sinn. Fyrirtækið, sem er í eigu hjónanna Þorsteins Arnar Einarssonar og Hildar Magnúsdóttur, varð fyrst gjaldþrota árið 2010. Rekja má gjaldþrotið til fjármögnunarsamninga fyrir vinnuvélar sem voru í erlendri mynt og stökkbreyttust í hruninu.

Árið 2010 hóf fyrirtækið rekstur undir sama nafni en á annarri kennitölu. Sú kennitala var áður á bak við rekstur Víkurlyftna til ársins 2005 en síðan var kennitalan í eigu Deloitte um nokkurt skeið, eða allt þar til rekstur hófst á nafni Fjarðargrjóts árið 2010. Segja má að syndir fortíðarinnar hafi kafsiglt fyrirtækið öðru sinni. Hinn nýi rekstur yfirtók fjármögnunarsamninga þrotabúsins en lenti síðar í vanskilum vegna þeirra sem leiddu til seinna gjaldþrotsins.
Árið 2008 stofnuðu eigendur Fjarðargrjóts fyrirtækið B1 ehf. Tilgangur félagsins var fyrst og fremst sá að halda utan um eignarhlut hjónanna á 350 fermetra iðnaðarbili að Brekkutröð 1 í Hafnarfirði. Árið 2014 færðist síðan rekstur Fjarðargrjóts yfir á félagið og er það nú rekið undir nafninu B1-Fjarðargrjót ehf.

Alltaf greitt þeirri kennitölu sem samningur var gerður við.

Undanfarna níu mánuði hefur B1-Fjarðargrjót ehf. fengið greitt um 6,7 milljónir króna fyrir ýmis viðvik fyrir Vatnsveitu Hafnarfjarðar. Þá eru ótaldar greiðslur fyrir snjómokstur fyrir sveitarfélagið. Aðspurð segir samskiptastjóri bæjarins, Árdís Ármannsdóttir, að sveitarfélagið telji sig ekki vera að brjóta innkaupareglur þar sem bærinn hafi alltaf greitt þeirri kennitölu sem samningur var gerður við.

Þá fékk DV staðfest að B1-Fjarðargrjót hefur átt í viðskiptum við HS Veitur hf. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar og því á það að lúta innkaupareglum bæjarins sem taka hart á kennitöluflökkurum. Reglurnar virðast virtar að vettugi og eftirliti ekki sinnt sem skyldi.

Hafnarfjarðarbæ horfir framhjá kennitöluflakki

Innkaupareglur flestra bæjarfélaga eru byggðar á fyrirmynd frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2007. Taka skal fram að þær ná yfir rekstur bæjarfélaganna sjálfra auk fyrirtækja sem eru rekin af bæjarfélaginu. Í drögunum hjá SÍS er lögð áhersla á að heimilt sé að kanna viðskiptasögu eigenda og ef að gjaldþrot, nauðasamningar eða greiðslustöðvun hafi átt sér stað innan síðustu fimm ára þá geti viðskiptin ekki gengið í gegn. Ákvæðið er augljóslega sett inn til þess að stemma stigu við kennitöluflakki. Reykjanesbær hefur tekið upp þessa reglu, eins og önnur helstu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis Reykjavíkurborg, Kópavogur, Mosfellsbær og Seltjarnarnes.

Hafnarfjörður sker sig hins vegar úr þessum hópi því í innkaupareglum bæjarins, sem samþykktar voru þann 13.3. 2013, er ekkert sagt til um að kanna beri viðskiptasögu eigenda fyrirtækja sem bærinn eigi í viðskiptum við. DV hefur ekki fengið svör við hverju það sætir en rétt er að geta þess að opinberar innkaupareglur eru til lítils ef þeim er ekki framfylgt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

„Erum við sátt við að algóritminn sjái um uppeldið“

„Erum við sátt við að algóritminn sjái um uppeldið“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer
Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga
Fréttir
Í gær

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður

COLLAB HYDRO – Einstakur drykkur fyrir íslenskar aðstæður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum

Siggi hakkari fluttur til Danmerkur og veitti Ekstrabladet viðtal – Mikið gert úr njósnum en lítið úr kynferðisbrotunum