Svanur býr á tjaldsvæðinu í Laugardal: „Enginn gerir neitt“

Svanur Elí Elíasson býr á tjaldsvæðinu í Laugardal - Sér ekki fram á að fá húsnæði á viðráðanlegu verði -Getur ekki hugsað sér að vera án Kleó

Svanur sér ekki fram á að staða hans batni á næstunni.
Heimilislaus Svanur sér ekki fram á að staða hans batni á næstunni.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég fæ enga hjálp,” segir Svanur Elí Elíasson, sem býr ásamt hundinum sínum, Kleó, í bíl á tjaldsvæðinu í Laugardal. Svanur, sem leigði herbergi á höfuðborgarsvæðinu síðasta vetur, var sagt upp leigunni í vor. Hann segir ástæðu uppsagnarinnar meðal annars þá að hann á hund. Svanur þarf að greiða leigu út ágústmánuð. Það eru 80 þúsund krónur á mánuði. Hann getur þó ekki hugsað sér að losa sig við hundinn, sem er ekki velkominn í húsið, eftir að nágrannar hans kvörtuðu undan dýrinu.

Heppinn að fá símatíma

Svanur kýs því heldur að sofa í bílnum þar sem hann má ekki lengur vera með Kleó í herberginu. „Ég er mjög háður hundinum mínum. Mér þykir óendanlega vænt um Kleó og hún treystir alfarið á mig,” segir Svanur og bætir við að hann hafi þungar áhyggjur af því hvað verði um sig. Hingað til hefur Svani enn ekki tekist að finna nýtt herbergi á viðráðanlegu verði.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Svanur er á götunni en hann hefur í gegnum tíðina átt erfitt með að fóta sig í samfélaginu. Svanur er öryrki og á við geðræn vandamál að stríða. Hann gagnrýnir harðlega hvað honum standa fá úrræði til boða í félagslega kerfinu.

„Ég hringdi í hverfastöðina mína. Þar er maður heppinn ef maður fær símatíma. Hvað þá viðtalstíma. Ráðgjafinn minn segir einfaldlega að það sé ekkert hægt að gera fyrir mig. Þau geta ekki einu sinni aðstoðað mig við að greiða af tjaldsvæðinu, sem kostar 3.000 krónur nóttin. Ég á varla fyrir mat. Mér líður eins og flóttamanni í mínu eigin landi.“ Það sem Svani þykir hvað erfiðast er að vita ekki hvað gerist næst. Hann á mjög lítið eftir þegar hann er búinn að borga leigu og aðra reikninga um hver mánaðamót. Þá þarf hann að borga tjaldsvæðinu í Laugardal 3.000 krónur á dag.

Nánar er rætt við Svan í helgarblaði DV

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.