fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Dóra Björt: „Þessi spítali er ónýtur og það mun taka langan tíma að tjasla honum saman“

Myglueinkenni systurinnar tóku sig upp á ný þegar hún heimsótti Landspítalann – „Síðustu daga lífs hans er hún verkjuð og aum sem og dagana á eftir“ – Vill sjá nýjan Landspítala austar í borginni

Auður Ösp
Miðvikudaginn 26. júlí 2017 16:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þessi spítali er ónýtur og það mun taka langan tíma að tjasla honum saman og sennilega verður það aldrei nógu gott að endingu,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður Ungra pírata og vísar í umræðuna um staðsetningu nýs Landspítala. Telur hún réttast að við byggjum nýtt sjúkrahús austanmegin í borginni í stað þess að „tjasla saman myglaða bútasaumsteppinu við Hringbraut“ líkt og hún orðar það. Dóra þekkir það af eigin raun hversu bágir innviðir spítalans eru líkt og hún greinir frá í persónulegri færslu á facebook.

„Systir mín þurfti nýlega að flytja úr húsinu sínu vegna þess að það var gegnumsýrt af svartmyglu. Hún hefur, án þess að vita orsökina, verið veik í dágóðan tíma og nánast óvinnufær á tímabilum. Loks kom svarið við veikindum hennar og sem betur fer er hún á batavegi.

En þegar tengdafaðir hennar er lagður inn á Landspítalann nýlega með krabbamein á háu stigi getur hún varla setið við rúmstokkinn hans vegna þess að veikindaeinkennin fara að koma fram aftur, doðinn, liðaverkirnir og þreytan. Síðustu daga lífs hans er hún verkjuð og aum sem og dagana á eftir. Vegna þess að þetta sjúkrahús er myglað í gegn,“ ritar Dóra í færslunni.

Mynd: Facebook

Hún bætir við að afi hennar liggi nú inni á Borgarspítala og muni sennilega ekki eiga afturkvæmt þaðan. Þar er ástandið síst skárra.

„Við sitjum við rúmgaflinn hans tímana langa, öll hans nánustu, nema systir mín þó hana langi til þess. Vegna þess að fyrsta langsetan kom einkennunum af stað. Þessi spítali er heldur ekki alveg laus við myglu.“

Dóra bendir jafnframt á að framkvæmdir við nýja meðferðarkjarnann við Hringbraut muni ekki hefjast fyrr en eftir ár. Um er að ræða stærstu framkvæmdina þar.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það er ekki í plönunum að byggja nýja Kvennadeild, þó sú deild sé ónýt vegna myglu og óhagkvæmni. Hvað gerist þegar systir mín þarf að leggjast þar inn til að bera fram barn? Á hún virkilega að þurfa að þola kvalarfulla fæðingu eingöngu vegna þeirrar viðkvæmni gagnvart sársauka sem hún upplifir þegar myglueinkennin koma fram? Nei. Ég tek það eiginlega ekki í mál.“

Dóra segir spítalann einfaldlega vera ónýtan.

„Auk þess er ekki hægt að byggja á hæðina vegna flugvallarins, og hann er því óhagkvæmur og kostar meira en þyrfti ef það væri hægt. Svo veldur hann því að gatnakerfið springur á hverjum morgni í kringum þetta svæði og sjúkrabílar eiga oft erfitt með að komast að, og ferðin er að jafnaði lengri þar sem að borgin hefur stækkað svo mikið austan við spítalann. Það verður heldur aldrei hægt að leggja af notkun Borgarspítalans eins og „hagkvæmni“ Hringbrautar átti að fela í sér. Skýrslan sem studdi valið á Hringbraut er ófullnægjandi og ófagleg og á ekki við í samfélagi dagsins enda gerð fyrir nokkru síðan.“

Kveðst hún vilja byggja nýtt sjúkrahús austanmegin í borginni, nær nútímamiðju borgarinnar.

„Hættum að draga lappirnar. Tökum afstöðu eða þorum hið minnsta að skoða aðra möguleika með því að gera nýja staðarvalsgreiningu. Það á ekki að þurfa að taka lengri tíma að byggja nýtt en að tjasla saman myglaða bútasaumsteppinu við Hringbraut. Plís. Fyrri ákvarðanir þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala