Verstu þurrkar í marga áratugi á Spáni og Ítalíu

Uppskerubrestur yfirvofandi

Miklir þurrkar eru nú á Spáni og Ítalíu og koma þeir að vonum illa við landbúnaðinn í báðum löndum. Þurrkarnir eru þeir verstu í marga áratugi að sögn bænda í löndunum en þeir reikna með allt að 60 prósent minni uppskeru en í meðalári.

Ítalska landbúnaðarsambandið, Coldiretti, reiknar með að þurrkarnir muni kosta ítalska bændur rúmlega einn milljarð evra. Í umfjöllun Metroxpress um málið er haft eftir Attilio Tocchi, ítölskum bónda, að hann hafi séð aðvörunarmerki um þetta strax síðasta vetur. Lítið hafi rignt og þegar lítið sem ekkert hafi verið búið að rigna í byrjun vors hafi verið ljóst að mikið tjón hafi orðið.

Miklir hitar hafa verið víða í sunnanverðri Evrópu undanfarið og miklir þurrkar samfara þeim. Tocchi sagðist vera búinn að setja upp viftur í fjósi sínu til að létta dýrunum lífið.

Talið er að kornuppskeran á Ítalíu og á sumum svæðum á Spáni verði sú minnsta undanfarin 20 ár. Einnig er reiknað með mun minni ólífu- og möndluuppskeru en í meðalári.

Mesta kornræktin á Spáni er í Castile og Leon en þau hafa orðið verst úti í þurrkunum. Á milli 60 og 70 prósent af ræktuninni hafa nú þegar eyðilagst þar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.