Sonur Óla fór á kaf í Árbæjarlauginni: „Ekki gott prómó að hafa merki sitt á drukknandi barni“

Óli Valur Þrastarson segir að kútar sem fyrirtækið Orka lífsins gaf sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu séu slysagildra. Tæplega þriggja ára sonur hans var hætt kominn á dögunum eftir að hafa notað kútinn. Í samtali við DV segir Óli Valur að kútarnir séu það lélegir að þeir snúist upp í algjöra andstæðu sína sem öryggistæki.

„Tæplega þriggja ára sonur minn marraði skyndilega hálfur í kafi eftir að annar kúturinn slitnaði af honum. Hann var ekki að hoppa, renna eða ærslast, heldur flaut hann, rétt um 12 kílóa kroppur, og hjólaði með fótunum í átt að dóti sem hann vildi leika með.

Að skaffa frí öryggistæki og merkja það fyrirtæki er sjálfsagt, og góð auglýsing sem gekk fullkomlega upp í tilfelli Símans, en Orka náttúrunnar, það er ekki gott prómó að hafa merki sitt á drukknandi barni,“ segir Óli Valur á Facebook.

Hann segir í samtali við DV að þegar hann fór í Árbæjarlaugina á dögunum hafi hann séð fjölda skemmda kúta. „Fór um daginn í Árbæjarlaug, og þar var svo mikið af skemmdum kútum að sundlaugarstarfsfólkið setti bara fram poka fullan af nýjum kútum við kútagrindina, fyrsti kúturinn sem ég tók upp úr pokanum með glænýjum kútum var með gati á,“ segir Óli.

Hann segir að heppni hafi ráðið því að ekki fór verr í tilfelli sonar síns. „Við vorum bara ný komnir út í sundlaugina sjálfa og hann hjólar svona með fótunum til að koma sér áfram, hægt en örugglega. Ég er við hliðin á honum og hann spjallar mikið þannig að við tölum mikið saman. Svo allt í einu þá fer hann á kaf, aðeins til hliðar, og já höfuðið fór á kaf.

„Ég var við hliðin á honum þannig að ég greip hann en hann hefði aldrei nokkurn tímann getað komið sér út úr þessu sjálfur. Það var eiginlega held ég verra fyrir hann að hafa bara einn kút af því að þá nær hann ekki niður í botn heldur til að spyrna sér upp. Það var samt engin hætta akkúrat þarna en þetta var kornið sem fyllti mælinn,“ segir Óli.

Vísir greindi frá því í morgun að forsvarsmenn Orku náttúrunnar hafa ákveðið að taka alla sundkúta sína úr umferð. Fyrirtækið fullyrti að það hafi rætt við starfsmenn sundlauga og hafi sú könnun leitt í ljós að almenn ánægja ríkti með kútana og að skemmdir á þeim væri hægt að rekja til slæmrar meðferðar á þeim.

„Þegar ábending barst snemma á sunnudag (16. júlí) um að kútur hefði rifnað í notkun var hins vegar tekin ákvörðun um að taka kútana þegar í stað úr umferð og strax haft samband við alla sundstaði sem fengið höfðu kúta,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.