Fréttir

Moska í Manchester í ljósum logum: Talið að um íkveikju hafi verið að ræða

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 17. júlí 2017 15:10

Lögreglan í Manchester rannsakar eldsvoða í Nasfat Islamic Centre moskunni við Droylsedon Road í Manchester sem mögulega íkveikju, en slökkvilið var kallað að moskunni laust fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið. Rétt fyrir eldsvoðann var hringt í forsvarsmenn moskunnar og þeim tilkynnt að árás á staðinn væri yfirvofandi.

Húsið er stórskemmt eftir eldsvoðann en um 350 manns eru í trúfélaginu. Fjallað er um málið meðal annars á metro.co.uk og Manchester Evening News. Í viðtali við síðarnefnda miðilinn sagði ritari moskunnar, Monsurat Adebanjo-Aremu: „Við höfum lagt hart að okkur við að aðlagast samfélaginu, við höldum fundi reglulega og erum friðelskandi fólk.“ Hún segir jafnframt að moskan hafi orðið fyrir árásum nokkrum sinnum undanfarna mánuði og þrjár íkveikjur hafi átt sér stað undanfarið ár.

Þann 22. maí framdi Salman Abedi, sem var úr líbískri fjölskyldu en fæddur og uppalinn í Englandi, sjálfsmorðsárás við Manchester Arena eftir tónleika bandarísku söngkonunnar Ariana Grande. Tuttugu og tveir létust í árásinni og 64 særðust. Yngsta fórnarlambið var 8 ára en margir unglingar létust í árásinni.

Salman Abedi sótti samkomur í Didsbury moskunni í Manchester en eftir atburðinn mátti félagið þar þola ásakanir um að fluttur hefði verið hatursáróður gegn Vesturlöndum í moskunni í bland við sómasamlegri starfsemi og hún hafi tengsl við hryðjuverkasamtök. Forsvarsmenn moskunnar fordæmdu hins vegar árásina við Manchester Arena.

Óttast er að hatur á múslímum og árásir á moskur færist í vöxt á Englandi, meðal annars vegna hryðjuverka undanfarin misseri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af