Merkel segir að netvæðingin sé lengra komin á Íslandi en í Þýskalandi

Mynd: ARD skjáskot

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, viðurkenndi í sjónvarpsviðtali um helgina að Þýskaland stæði ýmsum ríkjum að baki hvað netvæðingu snertir. Hins vegar væru stjórnvöld að gera stórátak í uppbyggingu innviða, lagningu breiðbands og öðrum fjárfestingum hins opinbera hvað snertir netvæðingu.

Kom þetta fram í svokölluðu sumarviðtali sjónvarpsstöðvarinnar ARD við kanslarann. Mörgum þykir netvæðing í Þýskalandi vera of skammt á veg komin, nettengingar í hinum dreifðari byggðum landsins séu of hægar og of lítið af opinberri þjónustu fari fram í gegnum internetið.

„Við eigum mikið ógert og þegar maður ferðast til Íslands, sem er lítið land og þetta er því allt auðveldara í framkvæmd en hjá okkur, þá sér maður að þar þykir ýmislegt vera orðið eðlilegt sem við eigum ennþá eftir að öðlast,“ sagði Merkel. Hún sagði jafnframt að þessi mál stæðu öll til bóta með aukinni fjárfestingu ríkisins á þessu sviði, nýjum verkefnum hins opinbera og nýjum lögum um netvæðingu.

Í viðtalinu var farið vítt og breitt yfir sviðið í þýskum stjórnmálum og heimsmálunum. Rætt var lengi um G20 leiðtogafundinn sem haldinn var í Hamborg fyrir stuttu. Fordæmdi Merkel skemmdarverk sem mótmælendur ollu í Hamborg á meðan fundinum stóð og sagði að þar hefðu átt sér stað atburðir sem væru óásættanlegir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.