Jónína vill að Gunnar hætti að berjast: „Jesú hefði ekki horft á þetta Gunnar!!!“

Jónína Benediktsdóttir íþróttafræðingur vill að Gunnar Nelson hætti að iðka MMA bardagaíþróttina. Biður hún Gunnar að fordæma slagsmálaíþróttir fyrir komandi kynslóðir. Líkt og alþjóð veit tapaði Gunnar Nelson í 1. lotu fyrir Santiago í bardaga í Glasgow í Skotlandi í gærkvöldi.

Jónína er mikil íþróttamanneskja, en hún sá um morgunleikfimi við miklar vinsældir fyrir mörgum árum á Ríkisútvarpinu. Þá var hún eigandi Stúdíó Jónínu og Ágústu og kveðst hafa stofnað World Class ásamt Birni Leifssyni. Kenndi Jónína líkamsrækt marga klukkutíma á dag. Síðustu ár hefur hún boðið upp á Detox heilsumeðferðir. Á þessu sést að Jónína hefur komið víða við í heilsurækt og veit eitt og annað um líkamlegt heilbrigði.

Jónína skrifaði Gunnar Nelson opið bréf á Facebook-síðu sinni þar sem hún biður hann um að hugsa sinn gang. Jónína segir:

„Mig langar að segja þér fyrst að í það skipti sem ég hitti þig og náði að spjalla við þig þá fann ég að þarna fór vel gefinn og heill maður. Góður íþróttamaður!

Það er ógeðslegt að lemja annað fólk sama þótt frægð og peningar séu eftirsóknarvert í okkar samfélagi.

Mig langar að biðja þig um að hætta í þessari íþrótt sem þú ert í og fordæma slagsmálaíþróttir fyrir komandi kynslóðir.

Allir eiga einhverja ófreskju innra með sér sem þarf að komast út en þá er gott að standa úti á túni og öskra upp í vindinn, ekki láta einhvern djöful troða fingrunum upp í augað á sér og lemja sig í andlitið.“

Jónína bætir við að þetta sé sagt í vinsemd og hún viti að ekki séu allir sammála.

„En það er allt í lagi, ég bið þig um að vera fyrirmynd fyrir unga fólkið okkar og gera ekki það ógeðslega að íþrótt. Það er ógeðslegt að lemja annað fólk sama þótt frægð og peningar séu eftirsóknarvert í okkar samfélagi. Ég þekki engan lækni t.d. sem viðurkennir þessi slagsmál sem íþrótt,“ segir Jónína og bætir við að Gunnar Nelson sé drengur góður en hann verði meiri maður fyrir vikið ef hann viðurkenni að MMA sé skaðleg íþrótt.

Veit bara eitt Jesú hefði ekki horft á þetta Gunnar!!!

Eiginmaður Jónínu, Gunnar Þorsteinsson oft kenndur við Krossinn virðist ekki á sömu skoðun. Gunnar Þorsteinsson birti mynd af sér með Gunnari Nelson á Facebook-síðu sinni og sagði:

„Nú er komið að því.“

Jónína var ekki hrifin og skrifaði undir myndina:

„Magnað þegar þið "eðal kristna fólkið " elskið svona blóðbað. Það tekur mig nokkra daga að ná í barnatrúna mína eftir að sjá skrif ykkar um þessa ofbeldisíþrótt. Veit bara eitt Jesú hefði ekki horft á þetta Gunnar!!! En ykkur er ekki við bjargandi hvort eða er : )“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.