Héldu að þau væru að greiða fyrir leigu á sumarhúsi á Spáni

Voru svikin um mörg hundruð þúsund krónur

Sumarfríin standa sem hæst og margir eru á faraldsfæti. Margir vilja gjarnan fara til útlanda og er sérstaklega vinsælt að fara til sunnanverðrar Evrópu enda miklar líkur á að þar sé sól og hlýtt á þessum árstíma. En það er betra að fara varlega þegar kemur að því að kaupa gistingu því margir óprúttnir aðilar eru á sveimi og vilja gjarnan koma höndum yfir peninga fólks. Þessu fengu tvær fjölskyldur að kynnast nýlega þegar rúmlega 300.000 krónur voru sviknar út úr þeim en þær töldu sig vera að greiða fyrir leigu á sumarhúsi á Spáni. Þriðja fjölskyldan greiddi 800.000 krónur í góðri trú fyrir sumarfrí á Ítalíu en fékk ekkert fyrir peningana og situr heima nú í fríinu.

Tvær fjölskyldur í Árósum í Danmörku höfðu í hyggju að njóta sumars og sólar á Spáni í fríinu og ætluðu að leigja sér sumarhús á Mallorca. Fjölskyldufaðirinn í annarri fjölskyldunni tók að sér að sjá um að finna hús en að eigin sögn eru hann og eiginkonan „þrælvön á netinu og meðvituð“ en þau hafa árum saman leigt sumarleyfisíbúðir sem þau hafa sjálf fundið á netinu og einnig hafa þau verslað mikið á netinu og aldrei verið svikin, fyrr en nú.

Þau fundu vefsíðuna Dollyhouses.com og á henni fundu þau hús á Mallorca sem þeim leist vel á hefur viðskiptavefur Jótlandspóstsins eftir þeim. Þau sögðu að heimasíðan hafi litið vel út, húsið hafi verið fínt og verðið gott, nafnið á heimasíðunni hafi þó verið sérstakt. Þau settu sig í samband við Francisco, sem sá um rekstur heimasíðunnar, og eftir nokkur samskipti sendi hann þeim leigusamning. Samningurinn leit vel út, var með merki fyrirtækisins og hefðbundinn í alla staði. Fjölskyldan millifærði síðan 21.000 danskar krónur, sem svarar til um 340.000 íslenskra króna, inn á reikning í banka á Benidorm.

Allt leit þetta mjög vel út þar til þau uppgötvuðu nýlega að heimasíðan, Dollyhouses.com, var ekki lengur til og það sama átti við um netfangið sem þau höfðu sent tölvupósta til. Í bankanum fékk fjölskyldan þær upplýsingar að ekkert væri hægt að gera til að ná peningunum aftur því millifærsla eins og sú sem hafði átt sér stað væri nánast eins og að hitta ókunnugan mann úti á götu og afhenda honum peninga.

Þriðja fjölskyldan greiddi 50.000 danskar krónur, sem svarar til um 800.000 íslenskra króna, fyrir íbúð á Ítalíu. Íbúðina hafði fjölskyldan fundið á vefsíðu sem líktist stórum og þekktum bókunarsíðum eins og Hotels.com og Trivago.com. fljótlega eftir að fjölskyldan hafði millifært peningana uppgötvaði hún að um svik var að ræða.

Fjölskyldurnar frá Árósum leigðu annað sumarhús og fóru í frí en þriðja fjölskyldan er heima nú í sumarfríinu enda fjárhagslegur skellur hennar stór vegna málsins.

Ef fjölskyldurnar frá Árósum hefðu leitað upplýsinga á vefsíðum eins og Tripadvisor eða Trustpilot um heimasíðuna Dollyhouses.com hefðu þær séð viðvaranir um að um svikasíðu væri að ræða. Það sama á við ef fjölskyldurnar hefðu notað leitarvélar á netinu, þar hefðu viðvörunarbjöllur glumið.

Það er því gott ráð að fara varlega í málum sem þessum og kanna málin vel áður en háar fjárhæðir eru millifærðar á bankareikninga í útlöndum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.