Farþegar Primera Air hafa verið fastir í meira en þrjátíu klukkutíma: „Þetta er helvíti“

Farþegar sem hugðust fljúga með Primera Air frá Stokkhólmi til Alicante í gærmorgun eru enn fastir á Arlanda flugvellinum þar í borg. Þetta kemur fram í frétt sem birtist á vef Expressen fyrir stundu.

Fram kemur að vél Primera Air hafi átt að fara í loftið klukkan tíu mínútur í átta á sunnudagsmorgun, en rúmlega 30 klukkutímum síðar séu farþegar ennþá að bíða. Hefur þeim verið tjáð að orsök biðarinnar sé tæknibilun.

Farþegar eru sagðir vera afar ósáttir við skort á upplýsingagjöf frá flugfélaginu en þeim var útveguð hótelgisting og inneign fyrir mat.

Meðfylgjandi ljósmynd tók farþegi Primera Air á Arlanda flugvellinum. Mynd/af vef Expressen.
Meðfylgjandi ljósmynd tók farþegi Primera Air á Arlanda flugvellinum. Mynd/af vef Expressen.

Einnig kemur fram í frétt Expressen að tímaritið Vagbond hafi útnefnt Primera Air sem næst versta flugfélag Svíþjóðar árið 2016. Mun það vera vegna tregðu fyrirtækisins til að koma á móts við viðskiptavini vegna síðra seinkana og niðurfellinga á flugi.

„Þetta er engan veginn í lagi. Það eru börn sofandi á gólfinu, Þetta er allt saman einn stór sirkus,“ segir einn farþegi og annar tekur undir: „Ég er í fríi og mig langar að eyða því í eitthvað annað en að horfa á málverk.“

„Þetta er helvíti. Við erum með lítil börn með okkur. Þetta er ekki í lagi,“ segir annar farþegi, karlmaður sem hugðist fljúga til Alicante með eiginkonu, tveimur börnum og tveimur öðrum fullorðnum. Hugðist hann leigja bíl í Alicante og sér nú fram á að þurfa að bóka leigu á bílnum aftur. Kveðst hann að lokum hafa leyst málið með því bóka flug til Alicante með Ryan Air, og taka það flug frá öðrum flugvelli.

Expressen greinir einnig frá því í gær að hafi orðið 21 tíma töf á flugi Primera Air frá Arlanda til Faro í Portúgal. Þá hafi tvö önnur áætlunarflug á vegum flugfélagsins verið aflýst á aðeins einum sólarhring: annað til Barcelóna og hitt til Malaga. Þá sitji farþegar Primera Air fastir í Alicante og Barcelona og bíði þess að komast til Svíþjóðar.

Fram kemur að ekki hafi náðist í fulltrúa Primera Air við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.