Fréttir

Stuðningsmaður ISIS myrti eldri hjón, ekki talið hryðjuverk

Þekkti hjónin vel – Taldi þau styðja hægriflokk

Kristinn H. Guðnason skrifar
Laugardaginn 15. júlí 2017 15:30

Maður frá Túnis hefur verið handtekinn í austurrísku borginni Linz, grunaður um morð á hjónum á níræðisaldri. Málið er meðhöndlað sem tvöfalt morð en ekki sem hryðjuverk.

Morðin áttu sér stað þann 30. júní síðastliðinn þar sem maðurinn skar konuna á háls og stakk síðan mann hennar með hníf. Maðurinn þekkti fólkið vel og hafði oft fært þeim grænmeti úr verslun sem eiginkona hans rekur. Hann taldi hjónin styðja Frelsisflokkinn, íhaldssamann þjóðernisflokk. Málið hefur vakið mikinn óhug í Austurríki og víðar.

Varð róttækur á síðasta ári

Samkvæmt David Furtner, talsmanns austurrískra lögregluyfirvalda, er maðurinn stuðningsmaður Íslamska ríkisins en ekki er talið að hann hafi verið í neinum tengslum við liðsmenn þess og ekki fengið neinar skipanir. ISIS hafa ekki lýst yfir ábyrgð á morðunum.

Talið er að maðurinn, sem búið hefur í Austurríki í 30 ár, hafi byrjað að sýna róttækni á síðasta ári þar sem hann lýsti stuðningi við Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga Íslamska ríkisins.

Furtner segir: „Honum fannst komið illa fram við hann vegna þess að hann er múslimi og hann kennir Frelsisflokknum um að ýta undir neikvæðni í garð útlendinga.“

Fá hryðjuverk eða glæpir tengdir íslamskri róttækni hafa átt sér stað í Austurríki miðað við nágrannalöndin í vestri. Hins vegar hafa um 300 Austurríkismenn farið eða reynt að fara til Sýrlands og Íraks til að taka þátt í bardögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af