Fréttir

Sævar segir heilbrigðiskerfið fjársvelt og getulaust í málefnum fíkla með geðræn vandamál

Lendir á fjölskyldunum – Fólk hefur tekið eigið líf

Kristinn H. Guðnason skrifar
Laugardaginn 15. júlí 2017 13:30

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, segist ítrekað hafa rekið sig á veggi heilbrigðiskerfisins í störfum sínum í gegnum tíðina, í pistli sem hann birtir á Vísi. Einkum þegar hann starfar sem lögráðamaður einstaklinga sem eiga við andleg veikindi að stríða og eru oft á tíðum djúpt sokknir í neyslu fíkniefna. Hann segir geðræna kvilla vera fylgifiska neyslunnar og einstaklingarnir hafi oft brennt allar brýr að baki sér.

Vistunarúrræði henta ekki

„Þá eru þessir sömu einstaklingar komnir á götuna og engin úrræði fyrir þá hvað t.d. húsnæðismál varðar.“

Skammtíma vistunarúrræði eru í boði sem séu þó ekki nægilega hnitmiðuð af þörfum þessa hóps. Meðferðar og vistunarúrræði þurfa að haldast í hendur þegar um ræðir einstaklinga sem eiga við alvarleg andleg veikindi að stríða og langa sögu fíkniefnaneyslu að baki.

Sævar segir ástæðuna fyrir þessu getuleysi heilbrigðiskerfisins fyrst og fremst vera fjársvelti. „Svo virðist sem kerfið gangi út á það að fjölskylda eða góðgerðasamtök taki að sér bæði að vista þessa einstaklinga og að finna þeim einhver úrræði.”

Svipta sig lífi eftir nokkra daga

Hann þekkir dæmi af eigin raun þar sem einstaklingar hafa verið vistaðir á geðdeildum eftir sjálfsvígstilraunir en síðan sleppt út án nokkurrar eftirfylgni. Þetta lendir fyrst og fremst á aðstandendunum sem sumir hverjir eru ekki í stakk búnir til að takast á við þetta. Það hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingar svipta sig lífi fáum dögum eftir að vera sleppt út af geðdeildum.

„Það kann að vera að þessi málaflokkur er sé ekki tískumálaflokkur hjá stjórnmálamönnum”

„Það kann að vera að þessi málaflokkur er sé ekki tískumálaflokkur hjá stjórnmálamönnum en það er orðið mikilvægt að koma umræðunni af stað og fara að taka á þessum málum með öðrum hætti en að skera niður í kerfinu. Þá þarf félagslega kerfið einnig að vinna í að finna nýjar lausnir innan geðheilbrigðiskerfisins.”

Hann segir ennfremur að fleiri aðilar þurfi að taka sig á í þessum málum, svo sem Reykjavíkurborg, og að réttarvörslukerfið þarfnist endurskoðunar. „Það er víða pottur brotin þegar kemur að þessum málaflokki en þetta hangir jú allt saman og einstaklingar með fjölþættan vanda þurfa fjölþætt úrræði. ”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af