Vilja banna áfengisneyslu í flugvélum og á flugvöllum

„Svalarar“ mikið vandamál – Vélum snúið við

Mikið vandamál á spænsku eyjunum
Ofdrykkja Mikið vandamál á spænsku eyjunum
Mynd: EPA

Yfirvöld Mallorca, Minorca og Ibiza hafa biðlað til ríkisstjórnar Spánar og Evrópusambandins að banna sölu og neyslu áfengis á flugvöllum og í flugvélum. Pilar Carbonell, sem hefur yfirumsjón með ferðamannamálum á eyjunum segir þetta gert til „að hamla andfélagslegum túrisma.“

Það er ekki tekið fram í beiðninni hvort aðeins sé átt við flug til eyjanna vinsælu eða alls flugs innan sambandsins. Hún segir drukkna flugfarþega mikið vandamál á eyjunum og þeir ógni öryggi annarra farþega.

Fólk stekkur af svölum ofan í sundlaugar

Eyjarnar eru ódýr ferðamannastaður miðað við marga aðra staði í Evrópu og ýmis hótel og skemmtistaðir þar gera út á óhóflega áfengisneyslu. Þá er einnig töluvert um eiturlyfjaneyslu meðal dvalargesta.

Sérstakt vandamál á eyjunum eru „svalanir“, það er þegar drukknir gestir stökkva af svölum hótelherbergja ofan í sundlaugar. Margir hitta ekki í laugina og slasast alvarlega eða jafnvel deyja. Í slysa-rannsókn sem var gerð á Son Espases sjúkrahúsinu í Palma á Mallorca kom í ljós að flestir „svalarar“ séu Bretar. En þar á eftir koma Þjóðverjar.

Í maí síðastliðnum þurfti lögreglan að fara inn í flugvél til að ná út þremur drukknum mönnum sem höfðu slegist í vélinni alla leiðina frá Manchester í Bretlandi. Aðrir farþegar fögnuðu þegar þeir voru dregnir út. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að vélum hafi verið snúið við vegna flugdólga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.