„Óttumst að verið sé að lauma trójuhesti inn í borgina"

Íbúar í miðborginni mótmæla nýju íbúðarhóteli á gatnamótum Njálsgötu og Barónsstígs

Segir að endurskoða þurfi aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Þegar það var samþykkt þá sáu menn ekki fyrir þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem nú sækir borgina heim.
Benóný Ægisson Segir að endurskoða þurfi aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Þegar það var samþykkt þá sáu menn ekki fyrir þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem nú sækir borgina heim.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Við erum tortryggin út í hið svokallaða aðalgötufyrirkomulag, þar sem rekstraraðilar fá meira frelsi til athafna en annars staðar. Við óttumst að með því sé verið að lauma trójuhesti inn í miðborgina og að slík starfsemi skríði inn í hverfin sem aldrei fyrr,“ segir Benóný Ægisson, formaður Íbúasamtaka miðbæjarins. Benóný hefur, ásamt fjölmörgum íbúum miðbæjarins, mótmælt harðlega nýju íbúðarhóteli á Njálsgötureit sem er laumað, að þeirra mati, bakdyrameginn inn í deiliskipulagið.

„Fólk þarf að geta treyst því að ákvarðanir stjórnvalds standi“

Þann 23. mars síðastliðinn lagði umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar fram breytingu á skilmálum Njálsgötureits nr. 1.190.3. Breytingin fólst í því að heimilað var að hafa gististarfsemi í húsinu enda er gengið inn í það af Barónsstíg. Það er mikilvægt í ljósi þess að helstu rökin eru þau að Barónsstígur er skilgreind aðalgata sem þýðir að meira rými er fyrir rekstur af slíku tagi á götunni. Tillagan var auglýst frá 10. apríl til 22. maí 2016 og bárust yfir tuttugu skrifleg mótmæli frá einstaklingum, foreldrafélagi leikskóla og íbúasamtökunum sem Benóný er í forsvari fyrir. Í mótmælum íbúa kemur fram að byggingin hafi upphaflega verið kynnt sem fjölbýlishús og þeir séu afar ósáttir við meintan blekkingarleik borgaryfirvalda.

„Fólk þarf að geta treyst því að ákvarðanir stjórnvalds standi, sérstaklega ef það varðar búsetu þess en íbúðakaup eru stærsta fjárfestingin í lífi flestra,“ skrifaði Benóný til borgaryfirvalda til að mótmæla framkvæmdunum. Fór hann yfir sögu byggingaframkvæmda á reitnum sem að hans mati er umhugsunarverð.

„Þar stóð áður friðað hús, byggt 1905. Sóst var eftir því að fá að rífa það eða flytja burt og mótmæltu Íbúasamtökin þeim fyrirætlunum árið 2013. Ekkert gerðist um tveggja ára skeið nema það að húsið varð að dópgreni eða afdrepi fyrir útigangsfólk en árið 2015 var gefið leyfi til að byggja fjölbýlishús, fjórar hæðir og kjallara með átta íbúðum og er það sú bygging sem nú er risin. Friðaða húsið var fjarlægt,“ ritar Benóný.

Að hans sögn var síðan sótt um leyfi árið 2016 til að breyta húsinu í gististað í flokki II, með tíu gistieiningum en því var synjað. „Nú rís þessi krafa enn á ný og ekki er gott að sjá hvers vegna ljáð er máls á henni núna en samkvæmt myndum á Facebook er vinna í fullum gangi við að innrétta íbúðahótel í byggingunni. Nágrannar og aðrir íbúar í miðborginni gera þá kröfu til skipulagsyfirvalda í Reykjavík að þau framfylgi stefnu borgarinnar um að ekki rísi fleiri hótel í miðborginni, að umsókn um gististarfsemi í húsinu verði aftur synjað og að yfirlýstur tilgangur þessarar byggingar um að hún verði fjölbýlishús standi,“ skrifaði Benóný.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.