Umdeild auglýsing ÁTVR kostar 13 milljónir króna: „Bruðl á almannafé“

„Það er auðvitað ósköp einfalt að um er að ræða bruðl á almannafé og að við eigum ekki að vera greiða fyrir svona ímyndarbaráttu ríkisstofnana, sem að auki er með einokun á sinni vöru. Að segja að auglýsing sé fyrir starfsmenn er í besta falli hlægilegt, því auðvitað snýst þetta um það að sannfæra fólk um að ÁTVR sé eina búðin sem sinnt getur þessu hlutverki.“

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún mætti í Ísland í Bítið þar sem hún ræddi um nýja og umdeilda auglýsingu ÁTVR sem heitir Röðin. Í frétt Vísis frá því í gær segir að auglýsingin sé í formi einskonar raunveruleikaþáttar þar sem þátttakendur koma fyrir sérhæfða dómnefnd sem eigi að aldursgreina viðkomandi. Auglýsingin kostar 13 milljónir. Á heimasíðu ÁTVR segir:

„Markmið herferðarinnar er að vekja athygli á því að áfengiskaupaaldur er 20 ár og í herferðinni eru viðskiptavinir minntir á að starfsfólk okkar getur ekki giskað á aldur og því mikilvægt að koma með skilríki.“

Áslaug Arna fjallar um þetta útspil ÁTVR og bendir á að samkvæmt ársskýrslu ÁTVR séu fólk í aldurshópnum 20-25 ára spurð um skilríki í 80-85 tilvika.

„Það er sérkennilegt að stofnunin hafi eftirlit með sjálfu sér og athyglisvert hvaða áhrif það hefur ef starfsmaður selur áfengi til einstaklings undir aldri. Á einkamarkaði myndi fyrirtækið missa leyfið hið snarasta.“

Áslaug segir ekki um forgangsmál að ræða en eðlilegt sé að gagnrýna slæma meðferð almannafjár.

„Hlutverk ríkisins að mínu mati er hvorki að halda uppi vínbúðum og selja mér og öðrum brennivínssopann, né að minna fólk á skilríki, sem er ekki raunverulegt vandamál,“ segir Áslaug og bætir við að lokum:

„Eins og ISAVIA á ekki að eyða milljónum í að minna fólk að koma með vegabréfin í flug. Ef þú kemur ekki með skilríki, færðu ekki afgreiðslu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.