Karl Ágúst og Jón Steinar rífast heiftarlega: „Þú munt fá fullt af „lækum“ og spekifullum kommentum“

„Var að biðja um heiðarlegt svar“ - „Finnst þér ljótt að leika golf?“

Karl Ágúst Úlfsson, leikari, og Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, eiga nú í ritdeilu sem hófst á Facebook en fer nú fram í Kvennablaðinu. Bitbein þeirra er mál Roberts Downey sem dæmdur var fyrir kynferðisafbrot gegn ungum stúlkum en fékk nýlega uppreisn æru og lögmannsréttindi sín á ný. Jón Steinar var verjandi hans í málinu og hefur valdið fjaðrafoki í þjóðfélaginu eftir viðtal sem birtist á Eyjunni, þar sem hann segir mikilvægt að fólk fyrirgefi Downey.

Vildi innileg svör, ekki akademísk

Karl Ágúst Úlfsson segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með málflutning Jóns Steinars hingað til. Hann hafi verið akademískur en ekki innilegur. Hann segirí dag:

„Ég var að biðja þig um heiðarlegt svar eftir að þú hefðir sett þig i spor þeirra sem þjást vegna glæpa skjólstæðings þíns, Róberts Árna Hreiðarssonar Downey barnaníðings. Það hefði kostað þig svolitla sjálfsskoðun. Ég var að reyna að höfða til þín sem manneskju og foreldris. Þú hefðir þurft að líta í eigin barm, rýna svolítið inn á við og setja þig í samband við þínar eigin tilfinningar. Þetta er kallað að setja sig í spor annarra, sýna meðlíðan.“

Karl Ágúst ræðir einnig fyrirgefninguna sem Jóni Steinari hefur orðið tíðrætt um og hvort hann gæti fyrirgefið brotamanni sem bryti á einhverjum honum nákomnum.

Ég myndi ekki reyna að skila skömminni aftur til fórnarlambanna, leggja þeim lífsreglur og segja þeim hvernig þau ættu að ná bata.

„Ef einhver mér nákominn, sem mér þætti vænt um, gerðist sekur um kynferðisofbeldi gagnvart börnum, þá myndi ég ekki vilja sjá hann veslast upp í einsemd og volæði án samskipta við annað fólk. Þvert á móti myndi ég reyna allt sem í mínu valdi stæði til að svo yrði ekki. Ég myndi hvetja hann til að gangast við glæpum sínum (því ég gef mér þær akademísku forsendur að hann hafi ekki gert það, þó að hann hafi afplánað dóm sinn). Ég myndi ráðleggja honum að sýna iðrun, og biðjast fyrirgefningar. Ég myndi eindregið ráða honum að leita sér aðstoðar svo hann héldi ekki áfram ofbeldisverkum sínum. Ég myndi biðja hann að reyna að bæta fyrir brot sín eftir öllum þeim leiðum sem honum væru færar. Ég myndi biðja bæði hann og lögmann hans að sýna fórnarlömbum hans auðmýkt og viðurkenningu á að þau hefðu orðið fyrir óbætanlegu tjóni af hans völdum. Í öllu þessu myndi ég styðja hann dyggilega til þess að hann mætti komast á réttan kjöl í lífinu.“

En jafnframt myndi hann ekki reyna að skila skömminni aftur til fórnarlambanna og segja þeim hvernig þeim eigi að líða. Hann segir Robert Downey ekki hafa viðurkennt brot sín. Orðrétt segir Karl Ágúst:

„Og ég veit líka hvað ég myndi ekki gera: Ég myndi ekki reyna að skila skömminni aftur til fórnarlambanna, leggja þeim lífsreglur og segja þeim hvernig þau ættu að ná bata. Þær ráðleggingar kæmu úr hörðustu átt og ég gæti ekki búist við að þeim yrði vel tekið.“

Endar Karl pistil sinn á þessum orðum:

„Allt tal þitt um fyrirgefningu er mjög fallegt, Jón Steinar. Og þegar öllu er á botninn hvolft, þá standa leikar svona samkvæmt því sem þú segir:

Róbert Árni Hreiðarsson Downey barnaníðingur er búinn að sitja af sér dóm sinn þó að hann hafi aldrei viðurkennt brot sín. Nú er boltinn hjá fórnarlömbunum. Ef þeim líður ennþá illa er það þeim sjálfum að kenna. Þeim batnar ekki fyrr en þau hafa fyrirgefið blessuðum manninum. Þangað til ætla ég að fá að spila golf í friði.“

Segist ekki geta talað af eigin reynslu

Þú munt fá fullt af „lækum“ og spekifullum kommentum.

Jón Steinar svarar þessu um hæl og segir Karl Ágúst forðast kjarna málsins.

„Erindi blaðsins [Stundarinnar] var reyndar aðeins, eftir því sem ég best heyrði, að spyrja mig um símanúmer Róberts, sem ég hafði enga heimild til að gefa upp. Við þessar aðstæður lauk ég samtalinu. Þú leyfir þér að tala ítrekað um að ég taki golf fram yfir alvarleg afbrotamál! Þetta er á íslensku kallað „lágkúra“. Að minnsta kosti kann ég ekki annað orð betra.Af hverju heldur þú áfram að tönnlast á því að ég kjósi frekar að spila golf en ræða alvarleg mál? Telur þú þig koma einhverju höggi á mig með því? Finnst þér ljótt að leika golf?“ Jón Steinar var að spila golf þegar blaðamaður Stundarinnar náði tali af honum og spurði hann út í málið.

Hann segist ekki geta talað af eigin reynslu og verði því að svara „akademískt”. Hann segir: „Og þú mátt vera alveg viss um að í þeirri hugleiðingu freistaði ég þess af fremsta megni að setja mig í spor þolenda svona afbrota. Hvað annað? Af hverju ertu að reyna að halda því fram að ég sé bara kaldur akademíker og umgangist lögin án tilfinninga? Þjónar þetta einhverri þrætubók hjá þér? “

Jón segist geta tekið undir svar Karls Ágústs um fyrirgefninguna en hafnar því jafnframt að hann sé að „skila skömminni“ til fórnarlambanna. Hann kallar það „vitleysu“ og að hann hafi einungis haft hagsmuni fórnarlambanna að leiðarljósi.

Hann telur jafnframt að Karl Ágúst muni vegna vel í netheimum með síðasta svari sínu.

„Ég efast ekki um að fjölmargir muni hrósa þér fyrir þetta síðasta innlegg þitt. Þú munt fá fullt af „lækum“ og spekifullum kommentum. Vonandi verður þú sáttur við sjálfan þig á eftir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.