Gunnar Hrafn biðst afsökunar: Óttinn rökhugsun yfirsterkari - „Ég á það til að vera fífl og fáviti“

„Ég sé að fjölmiðlar hafa eðlilegar gert fyrirsögn úr fáránlega óviðeigandi ummælum mínum af Facebook. Ég eyddi þeim fljótt eftir að þau voru skrifuð en hefði auðvitað aldrei átt að skrifa þau. Ég á það til að vera fífl og fáviti.“

Þetta segir Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður Pírata um frétt DV þar sem greint var frá því að Gunnar hefði látið eftirfarandi ummæli falla:

„Já, sammála, þetta er soldið spes en ég myndi ekki hika við að pynta og drepa mann sem myndi brjóta gegn mínu barni. Kannski þýðir það að ég sé hræsnari.“

Sjá einnig: „Myndi ekki hika við að pynta og drepa mann sem myndi brjóta gegn mínu barni“

Gunnar Hrafn sér mikið eftir orðum sínum og hefur beðist afsökunar. Gunnar lét þessi ummæli falla á Facebook-síðu Evu Hauksdóttur. Í frétt DV kom fram að Eva hefði varpað fram níu spurningum til vina sinna á samskiptamiðlinum um mál tengd lögmanninum Robert Downey sem hlaut uppreist æru og lögmannsréttindi sín á ný. Robert var dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart fjórum unglingsstúlkum. Fjölmargir tóku þátt í umræðunum og lét Gunnar Hrafn mikið á sér kveða. Hann hafði áður skrifað:

„Barnaníðingar eru í mjög sjaldgæfu mengi sem ég á heimspekilega mjög erfitt með. Tæknilega ættu þeir að eiga alla möguleika á meðferð og lækningu en ég get ekki neitað því að ef einhver þeirra myndi leita á mitt barn þætti mér 16 ára fangelsi vel þess virði til að taka hann úr genamenginu.“

Fljótlega bætti hann síðan við ummælum um að hann myndi ekki hika við að pynta og drepa þann sem myndi brjóta á hans barni. Þeim ummælum eyddi Gunnar Hrafn síðan út. DV birti ummælin í frétt og í fyrirsögn. Vakti fréttin athygli sem von er, enda ekki oft sem þingmenn tala tæpitungulaust með þessum hætti. Viðbrögðin voru blendin. Þingmaðurinn var gagnrýndur en einnig mikið hrósað fyrir að „vera mannlegur“ en það voru orð sem voru mikið notuð af fólki á samskiptamiðlum þegar Gunnari var klappað á bakið fyrir að tala hispurslaust. Sjálfur sér Gunnar Hrafn eftir orðum sínum og hefur beðist afsökunar.

„Þetta eru mikil tilfinningamál, sem ég hef sára persónulega reynslu af eins og allt of margir Íslendingar, en í réttarríki eru það yfirvöld en ekki einstaklingar sem eiga að framfylgja lögum og rétti og úthluta refsingu.

Óttinn við að eitthvað komi fyrir barnið manns verður stundum rökhugsun yfirsterkari þegar maður er að ræða þessi mál á Facebook og þar gerði ég mikil mistök sem ég biðst velvirðingar á.

Annað hef ég ekki að segja, nema að mig langar að biðja fjölskylduna mína afsökunar, svona upphlaup hafa áhrif á hana, ekki bara mig!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.