Diljá stígur fram og segir frá ofbeldi Björns: „Lýsti hvernig hann ætlaði að borða mig með hníf og gaffli“

Björn Daníel Sigurðsson var dæmdur í fjögurra ára fangelsi brot sín gegn Diljá

„Síðan segir hann mér að setjast inn í stofu og ef ég héldi áfram að ljúga, þá myndi ég fá gler úr myndaramma í gegnum hausinn á mér eða pönnuna sem var á eldavélinni. Síðan segir hann að hann sé skrímsli með þrjá persónuleika og þegar hann væri í þessum persónuleika þá sæi hann bara rautt. hann ætlaði að byrja á því að hræða úr mér líftóruna og lýsti því svo fyrir mér hvernig hann ætlaði að borða mig með hníf og gaffli.“

Ég reyni að hlaupa út, en hann nær mér inn í forstofu og rífur í hárið á mér og kýlir mig í andlitið.

Svo lýsir Diljá Tara Helgadóttir í samtali við DV hluta af hrottalegu ofbeldi sem hún varð fyrir af höndum fyrrverandi sambýlismanns síns, Björns Daníels Sigurðssonar. Hann var í febrúar dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir brot sín gegn Diljá. Hann var dæmdur fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn Diljá.

Gangurinn allur í blóði

Diljá segir að ofbeldið hafi verið nátengt djammi Björns. Diljá segir að hann hafi fyrst beitt sig ofbeldi í október árið 2015 en hann var ekki ákærður fyrir það brot.

„Ég vissi að hann væri aðeins að djamma en aldrei eins og raunin var. Hann sagðist þurfa meðferð og lofaði alltaf endalaust að fara í meðferð, því þá yrði allt enn þá betra. Síðan var það orðið þannig að hann var farinn að stinga af á djammið og kom svo alltaf vælandi til baka og kenndi erfiðri æsku um hegðun sína og þá vorkenndi ég honum alltaf. Þannig var þetta þangað til hann lamdi mig í fyrsta skiptið. Við höfðum verið úti það kvöld og yngri systir mín var að passa krakkana, þau voru sofandi inní herbergi þegar við komum heim,“ segir Diljá.

Hún segir að systir sín hafi sennilega bjargað lífi sínu þetta kvöld. „Ég er ekkert endilega viss um að ég væri á lífi ef systir mín hefði ekki vaknað við öskrin í mér. Hún kom fram og sá hann kýla mig síðustu höggunum, gangurinn var allur í blóði og andlitið á mér afmyndað af bólgum og sárum. Hann meira segja reif upp á mér höfuðleðrið. Systir mín hringdi á lögguna og löggan var komin innan skamms. Lögreglan vísaði honum í burtu af heimilinu og keyrði mig uppá sjúkrahús því það þurfti að sauma á mér höfuðið og bara almennt skoða á mér höfuðið þar sem ég var mikið bólgin og marin,“ segir Diljá.

Lofaði að fara í meðferð

Hún segist þrátt fyrir þetta hafa ekki farið frá Birni. „Daginn eftir hafði hann samband og sagðist sjá svo rosalega eftir þessu, hann gat ekki horft framan í mig án þess að fara næstum því að gráta þar sem ég var öll blá og bólgin. Hann lofaði að gera þetta aldrei aftur og ég trúði því. Daginn eftir bauð hann mér á hótel og trítaði mig eins og prinsessu, ræddi mikið hvað hann sæi eftir þessu og taldi mér trú um að hann gæti aldrei lifað án mín og meðferð væri strax á dagskrá,“ segir Diljá.

Hún segir að eftir þetta hafi ofbeldið þó ekki hætt. „Eftir þetta var ofbeldið öðruvísi, hann hélt áfram að stinga af á djammið en kom svo alltaf vælandi til baka og sagði að ég væri það besta sem hefði komið fyrir hann og hann vildi bara eiga eðlilegt heilbrigt líf með mér. Ég vorkenndi honum alltaf svo að ég tók við honum aftur. Það var samt alltaf eitthvað í gangi. Hann sparkaði oft í síðuna á mér. Kýldi eða reif í hárið á mér, passaði samt að það sæist ekkert á andlitinu á mér,“ segir Diljá.

Hélt að nektarmynd væri af sér

Í febrúar í fyrra gerðist atvikið sem Björn fékk fjögra ára fangelsisdóm fyrir. Diljá segir að rekja megi upphaf þess til ranghugmynda hans. „Hann hafði stolið bílnum mínum og farið á djammið. Síðar það kvöld fann hann mynd á netinu af lítið klæddri konu, sem hann bara ákvað að væri ég. Hann var þarna kominn með mjög miklar ranghugmyndir út af neyslu og mikilli vöku. Hann var sendandi mér á Facebook, að þetta væri ég á þessari mynd og sama hvað ég reyndi að benda honum á að þetta væri alls ekki ég, þá vildi hann ekki trúa því,“ lýsir Diljá.

Hún segir að þegar hann hafi loks komið heim hafi hann verið sæmilega rólegur. „Hann kom síðan heim mjög seint um kvöldið og þá ræddum við þetta eitthvað aðeins og það virtist allt vera þannig lagað í lagi. Ég sagði að ég þyrfti að fara að sofa því ég væri að fara með son minn til læknis mjög snemma morguninn eftir. Ég sofnaði aðeins en hann ekki. Hann sat frammi að drykkju þegar ég kom fram aftur. Ég fór með strákinn til læknis og þegar ég kom heim ásakaði hann mig aftur og aftur um að ljúga,“ segir Diljá.

Hélt á syni sínum þegar fyrsta höggið kom

Ég hvet allar konur sem eru í svona sambandi að leita sér hjálpar

Hún segist hafa neitað því staðfest og þá hafi fokið í Björn. „Ég hélt áfram að segja að ég vissi ekkert um þetta mál sem hann væri að tala um og þá veitist hann að mér og kýlir mig í andlitið. Þarna hélt ég á rúmlega 2 ára syni mínum og við þetta högg brotnaði jaxl í munninum á mér. Ég lagði strákinn frá mér, sem var hágrátandi, og reyndi að koma barninu í skilning um að setjast í sófann til að verja það frá ofbeldinu,“ lýsir Diljá.

Hann hafi skipað Diljá að setjast á stól „Hann sagðist ætla að telja upp á þrjá og ég settist strax. Um leið og ég reyni að setjast þá sparkar hann stólnum undan mér svo ég lendi illa á gólfinu. Til að þið skiljið hversu fast hann sparkaði, þá beygluðust járnlappirnar á stólnum. Ég reyni að hlaupa út, en hann nær mér inn í forstofu og rífur í hárið á mér og kýlir mig í andlitið. Hann segir mér að hætta að grenja annars muni hann stúta mér,“ lýsir Diljá.

Lét undan pressunni til að martröðin myndi enda

Að hennar sögn hafi hann því næst krafist þess að skoða kynfæri hennar til að bera þau saman við fyrrnefnda ljósmynd.

„Hann segir mér að fara inn í herbergi og sýna sér að þetta væri ekki ég. Ég segi honum að ég ætli ekki að gera það en hann hættir ekki fyrr en ég læt undan af hræðslu við hann. Hann var með símann minn, kveikir á vasaljósinu og tekur mynd, því hann vill sjá vel og vandlega að ég væri ekki með einhvern blett á rassinum sem var á myndinni. Ég var að reyna að segja honum að stelpan á myndinni væri með sítt hár, ólíkt mér, og tattooin væru öðruvísi. Ég sagði honum að við værum í raun ekkert líkar. Síðan vill hann skoða kynfærin á mér betur, sem hann gerir og skoðar mig þannig að mér er farið að líða virkilega illa. Þá brotna ég niður og þá er eins og hann hafi aðeins áttað sig,“ segir Diljá.

Atlögu hans var þó ekki lokið því eftir stutta stunda hélt hann áfram að brjóta á henni.

Lögreglan vísaði honum í burtu af heimilinu og keyrði mig uppá sjúkrahús

„Síðan byrjar hann að afklæða sig og vill fá munnmök. Hann ýtir mér niður og ég segi við hann að mér sé svo illt í hálsinum og munninum eftir að hann braut í mér jaxlinn og tók mig hálstaki. Hann segir við mig „æj common bara smá“ og ýtir við mér aftur. Ég þorði ekki öðru en að hlýða, því ég var svo hrædd um að hann myndi bara halda áfram að berja mig ef ég myndi ekki hlýða. Ég barðist við að gráta ekki, ég stoppa og bið hann um að klára venjulega. Hann segir “smá meira” og þá bað ég hann aftur um að klára venjulega. Hann biður mig þá um að fá að klára í endaþarm og ég læt undan pressu svo þessi martröð muni einhvern tímann klárast,“ segir Diljá.

Enn að vinna úr ofbeldinu

Hún segist enn í dag vera vinna úr ofbeldinu og er sérstaklega þakklát fyrir alla þá hjálp sem hún hefur fengið frá fagaðilum. Diljá segir þeim að þakka að hún hafi endanlega lokið sambandinu en hún átti í samskiptum við Björn í nokkurn tíma eftir árásina.

„Ég hefði aldrei áttað mig ef ég hefði ekki ákveðið að taka við hjálpinni frá Virk. Þá byrjaði ég í sálfræðiviðtölum og þá lauk ég sambandinu strax. Það var rosalega erfitt og ég er enn þá í dag að vinna úr þessu öllu en með hóp af góðu fólki í kringum mig sem hjálpar mér. Ég hvet allar konur sem eru í svona sambandi að leita sér hjálpar, ég veit að það er ógeðslega erfitt að taka þetta stóra skref en það er svo þess virði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.