Ruth Reginalds Moore er mölbrotin móðir: „Ég get ekki fyrirgefið þeim sem meiða börnin mín“

Málið hefur tekið mikið á alla í fjölskyldunni
Ruth Moore, móðir Glódísar Töru Málið hefur tekið mikið á alla í fjölskyldunni

Nína Rún Bergsdóttir, Halla Ólöf Jónsdóttir, Anna Katrín Snorradóttir og Glódís Tara eru ungar konur sem hafa stígið fram opinberlega og sakað Róbert Árna Hreiðarsson, nú Robert Downey um alvarleg kynferðisbrot. Þær eiga erfiða fortíð að baki. En þær eiga það líka sameiginlegt að skila skömminni eins og þær kalla það. Robert var dæmdur í fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega á Nínu Rún, Höllu og Glódísi. Anna Katrín steig fram eftir að málið komst í hámæli og segir Robert hafa brotið á sér yfir nokkurra ára tímabil.

Hlaut uppreist æru
Róbert Árni, nú Robert Downey Hlaut uppreist æru

Sjá einnig: Þess vegna heitir hann Robert Downey

Konurnar eru ekki hættar að tjá sig. Þær ætla að hafa hátt. Því þær eru ósáttar við að Robert Downey hafi hlotið uppreist æru og lögmannsréttindi sín aftur. Sú ákvörðun hafði djúpstæð áhrif á konurnar og ættingja þeirra. Þá reis mikil óánægjualda á samfélagsmiðlum þegar greint var frá því í fjölmiðlum að Robert hefði hlotið uppreist æru og réttindi sín aftur. Ruth Reginalds Moore er móðir Glódísar Töru. Glódís greindi frá því á samfélagsmiðlum að hún hefði verið misnotuð af Roberti Downey. Hún sagði:

„Ég horfi á fréttina, deilingarnar og öll kommentin og mér líður eins og ég sé í miðri martröð. Er einmitt líka nýhætt að kenna sjálfri mér um og svo þetta.... BÚMM. Erum við virkilega svona mikils virði? Er hann merkilegri pappír en við? En ég er hætt að vera hrædd! Ég skila skömminni þangað sem hún á heima!“

Mikil áhrif á alla

Hún steig fram eftir að málið komst í hámæli
Anna Katrín Snorradóttir Hún steig fram eftir að málið komst í hámæli

Ruth Reginalds Moore segir að málið hafi haft mikil áhrif á alla fjölskylduna og kveðst hún halda í vonina að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins sem undirrituð var af Bjarna Benediktssyni og Guðna Th. Jóhannessyni verði afturkölluð. Málið hefur vakið mikla athygli og hörð viðbrögð. Í dómnum kemur fram að Robert hafi sóst eftir réttindum sínum sem lögmaður til að geta haldið áfram að starfa sem slíkur.

Lögmaður segir að fólk eigi að láta Robert í friði

Jón Steinar er lögmaður Roberts Árna. Hann hefur ítrekað tjáð sig um málið.
Jón Steinar Jón Steinar er lögmaður Roberts Árna. Hann hefur ítrekað tjáð sig um málið.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður hefur sagt að Robert Downey eigi skilið fyrirgefningu. Orðrétt sagði lögmaðurinn í viðtali við Eyjuna: „Fólk á bara að láta manninn í friði.“ Bætti hann við að þolendum myndi líða betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu. Þá sagði Jón Steinar einnig:

„Það hallar alltaf á hann. Hann er alltaf undir stöðugum árásum. Ég veit það alveg að honum finnst þetta slæmt gagnvart þeim unglingsstúlkum sem þetta voru nú, þetta voru ekki lítil börn sko, þetta voru unglingsstúlkur sem hann braut gegn [...] Hann hefur iðrast þess, en hvað er ætlast til að hann geri? Tali við þær?“

Viðtalið við Jón Steinar varð umdeild og víða fjallað um það í fjölmiðlum. Karl Ágúst skrifaði opið bréf til Jóns Steinars sem birt var á Kvennablaðinu. Þar bað hann Jón Steinar að setja sig í spor foreldra þolenda í kynferðisbrotamálum. Vakti bréfið gríðarlega athygli. Jón Steinar svaraði á sama vettvangi og sagði:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Mér dettur ekki í hug, Karl Ágúst, að spyrja þig hvað þú myndir gera ef einhver þér nákominn, sem þér þætti vænt um, gerðist sekur um svona brot eins og þú talar um, afplánaði dóm sinn og leitaði síðan eftir tækifæri til að komast á réttan kjöl í lífinu; hvort þú myndir þá vilja synja honum um tækifæri til þess? Þú þarft því ekkert að svara þessu. Svar þitt myndi heldur ekki skipta neinu máli fyrir málefnið. Maðurinn ætti að fá þetta tækifæri, jafnvel þótt þú værir svo „harður af þér“ að vilja neita honum um það og sjá hann veslast upp í einsemd og volæði án samskipta við annað fólk.“

Þá skoraði hann á fólk að lesa viðtal DV við Hafstein Gunnar Hafsteinsson sáttamiðlara frá árinu 2016 sem fyrirgaf morðingja systur sinnar.

Ruth þakkaði Karli Ágústi fyrir greinina. Kvaðst hún vera stödd í martröð, sorgmædd, reið og hjartað fullt af vonbrigðum. Sagði hún að grein Karls hefði hjálpað henni að gráta.

„Ég held ég geti talað fyrir foreldra allra stúlknanna og sagt að þetta sé sorgarferli mikið og vanmáttar tilfinning sem ekkert foreldri vil nokkurn tíma þurfa að upplifa. Ég er svo reið og meidd í sálinni núna og enn meira eftir að lesa hvað Jón Steinar hafði að segja eftir allan þann hörmung sem dóttir mín þurfti að þola vegna Róberts Árna sem kannast ekki einu sinni við hversu margt fólk hann hefur meitt í öll þessi ár.“

Mölbrotin móðir

„Ég hef fyrirgefið mörgum um ævina en ég er brotin og mölbrotin eftir fregnina um æruþvottinn og að Róbert Árni fái að starfa sem lögmaður á ný.“ Þetta segir Ruth Reginalds. Hún segir að það hafi tekið tíma að sætta sig við dóminn sem Robert fékk á sínum tíma. Segir Ruth að Robert hafi sloppið vel og að hennar mati hefði Robert átt að sitja mun lengur inni.

„Hvað get ég gert til að hugga dóttur mína sem er meiri hetja en ég get orðum bundist og reynir að bera höfuðið hátt og hugga ömmu sína sem og mig þegar ég spyr hana hvernig henni líði. Ég er full af vanmáttartilfinningu. Einnig af reiði sem ég vil ekki lifa með en hef enga stjórn á í augnablikinu.“

Þá finnst Ruth að Robert hafi ekki sýnt auðmýkt eða gengist við brotum sínum eða viðurkennt þau. Nauðsynlegt sé að gangast við brotum sínum áður en óskað sé eftir syndaaflausn.

„Ég get ekki fyrirgefið þeim sem meiða börnin mín og alls ekki þeim sem síðan gefa svona röng skilaboð til fórnarlamba hans og allra sem orðið hafa fyrir misnotkun.“

Áður hafði Ruth tjáð sig á Facebook, fyrst eftir að málið rataði í fjölmiðla. Þar sagðist hún vera stolt af dóttur sinni að stíga fram:

„Ekkert af þessu var ykkur að kenna, þið voruð börn í ofanálag. Þessi maður er skrímslið í martröðum foreldra og barna og á það aldrei að gleymast! Ég óska þess að þessi ákvörðun forseta verði afturkölluð og stúlkurnar beðnar afsökunar á þessari hræðilegu ákvörðun og endurupplifun. Ég græt með dóttur minni og öllum hans fórnarlömbum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.