Afllaus ríkisstjórn

Kemur engum stórum málum í gegn – Bjarni samt sterki maðurinn í íslenskum stjórnmálum

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé aflvana telur Eiríkur Bergmann að Bjarni Benediktsson hljóti að teljast sterki maður íslenskra stjórnmála í dag.
Bjarni er sterki maðurinn Þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé aflvana telur Eiríkur Bergmann að Bjarni Benediktsson hljóti að teljast sterki maður íslenskra stjórnmála í dag.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ríkisstjórnin hefur ekki mikið vélarafl. Við höfum ekki séð framan í nein af stóru málunum sem boðuð voru í kosningabaráttunni, skrefin eru afar lítil sem henni tekst að taka. Ríkisstjórnin nær ekki í gegn þeim málum sem stjórnarandstaðan er alfarið á móti, ef frá er skilin ríkisfjármálaáætlunin, sem þó er að sumu leyti sérstakt mál. Þessi mál sem samþykkt hafa verið eru í raun mál sem eru mörg hver stjórnarandstöðunni alveg jafn hugleikin og stjórninni, til dæmis jafnlaunavottun sem í praxís er alveg eins mikið vinstramál.“

Stjórnarandstaðan sundurtætt

Þetta segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor þegar hann er beðinn um að leggja mat á stjórnmálaveturinn sem nú er liðinn. Eiríkur segir ríkisstjórnina einungis sitja í skjóli þess að stjórnarandstaðan sé sundurtætt. „Ríkisstjórnin er alveg feikilega veik og eini styrkur hennar felst í að stjórnarandstaðan er svo gjörsamlega sundurtætt. Hún er algjörlega klofin, stjórnarandstaðan. Píratar, Samfylking og Vinstri græn geta náð saman um hitt og þetta en það er erfiðara að ná saman með Framsókn. Framsókn er síðan sjálf klofin í sundur og upptekin í innanflokkserjum. Stjórnarandstaðan er því ekkert í stakk búin til að taka við. Það er það sem tryggir að ríkisstjórnin situr áfram.“

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur ekki náð neinu máli sem ágreiningur er um í gegn, utan ríkisfjármálaáætlunar, sem fyrr segir. „Stjórnarandstaðan virðist geta stöðvað flest sem hún einsetur sér að stöðva. Ef henni tekst að fylkja sér saman þá hefur hún það afl. Þetta er sú staða sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og er í sjálfu sér ekki ósvipuð þeirri stöðu sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var í, einkum seinni hlutann þegar hún var í raun bara minnihlutastjórn. Þá var hún raunar í mun verri stöðu en ríkisstjórnin er í núna. Þetta er því ekki óþekkt. Afleiðingarnar sem þetta hefur eru þær að ríkisstjórnin kemur ekki fram með stór, pólariserandi pólitísk mál heldur garfar bara í smærri málum.“

Framsókn er dragbíturinn

Spurður hvort það sé mögulegt að stjórnarandstaðan muni slípast betur saman eftir því sem frá líður og þingmenn læra að þekkja hver annan og treysta, og verða með því alvöru afl sem getur valdið ríkisstjórninni alls konar vandræðum, segir Eiríkur að til þess þurfi eitt að gerast. „Það fer algjörlega eftir því hvernig uppgjörið í Framsóknarflokknum fer. Það er mögulegt að stjórnarandstaðan geti þjappað sér saman en til þess að það sé mögulegt þarf Framsóknarflokkurinn að klára sín mál. Það gerist í fyrsta lagi í janúar næstkomandi, á flokksþingi, og mögulega ekki einu sinni þá. Eins lengi og Framsókn er sundruð er stjórnarandstaðan veik sem því nemur.“

Flokkum blæðir í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn

Fátt hefur komið á óvart á þessum þingvetri að mati Eiríks. „Það má þó kannski segja að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins, Björt framtíð og Viðreisn, fóru fram í kosningabaráttu með stór mál sem sneru að grundvallarbreytingum í þjóðfélaginu, og í sjónvarpskappræðum lýstu báðir flokkar sér sem breytingaflokkum. Þessum breytingaflokkum hefur hins vegar ekki tekist að ná fram neinni viðamikilli breytingu. Ég er ekki að segja að það komi á óvart en það er auðvitað staða sem maður hlýtur að staldra við. Slæm staða þessara flokka tveggja í skoðanakönnunum kemur því ekkert á óvart í þessu samhengi. Það er raunar gömul saga og ný að nýjum flokkum blæðir í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það sem kemur hvað mest á óvart þegar horft er til skoðanakannana er hversu Píratar halda fylgi sínu. Ég hefði búist við að þeir færu að dala.“

Bjarni hefur tögl og hagldir

Eiríkur segir vart hægt að taka nokkurn þingmann út úr sem hafi staðið sig með þeim hætti að hann standi upp úr. „Það er þá helst Bjarni Benediktsson, það er bara þannig. Bjarni er stjórnmálamaður sem hefur verið í þeirri stöðu að vera stanslaust í fallhættu og endalaus mál hafa komið upp sem hafa orðið honum fjötur um fót. Nú er hann hins vegar í þannig stöðu að hann hefur tögl og hagldir, bæði í Sjálfstæðisflokknum og í ríkisstjórninni sjálfri. Ef maður á að nefna einhvern þá hlýtur það að vera Bjarni sem er sterki maður íslenskra stjórnmála í dag.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.