Rauði jeppinn stefndi á þau og sekúndubrot skildi á milli lífs og dauða

Sigríður er þakklát fyrir að vera á lífi og biðlar til ökumanna um að láta snjallsímana eiga sig við akstur

Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Sigríður Elín Ásmundsdóttir

„Ég vildi bara koma þessum skilaboðum áfram til að minna fólk á að fara varlega í umferðinni – og alls ekki vera með símann uppi við. Það hafa örugglega orðið mörg ljót slys vegna þess að bílstjórar eru með hugann við símann en ekki aksturinn,“ segir Sigríður Elín Ásmundsdóttir, ritstjóri tímaritsins vinsæla Hús&híbýli en hún varð ásamt fjölskyldu sinni fyrir óhugnanlegri reynslu í umferðinni í föstudag þar sem sekúndubrot skildi að milli lífs og dauða.

Sigríður var á ferð með eiginmanni sínum og börnum í bíl á leiðinni til Stykkishólms er rauður jeppi stefndi á þau á röngum vegarhelmingi. Snör viðbrögð eiginmanns Sigríðar, sem var undir stýri, komu í veg fyrir að hryllilegt umferðarslys yrði. Sigríður skrifar áhrifamikinn pistil um atburðinn á Facebook-síðu sína:

Eitt augnablik getur öllu breytt, það mátti engu muna í gær að allt væri breytt í dag. Þegar ég loka augunum núna sé ég bara grill á rauðum jeppa koma á ógnarhraða á móti okkur og ég fæ bara tár í augun. Það getur verið svo stutt á milli hamingju og hryllings! Ég vaknaði með hjartað fullt af þakklæti í morgun, þakklæti fyrir að vera á lífi. Við Ísleifur og krakkarnir vorum á leiðinni í Stykkishólm í gær. Krakkarnir voru að springa úr spenningi aftur í, Bubbi að syngja ,,Það er gott að elska" í græjunum og ég var að skoða veðurspána í Hólminum fyrir næstu daga í símanum þegar allt í einu á tæplega 100 km hraða ...Ísleifur bremsar niður, fer eins langt út í kant og hann kemst og leggst á flautuna! Ég lít upp og sé bara grill á rauðum jeppa sem var kominn nánast alveg yfir á okkar vegarhelming, nálgast mjög hratt! Allt lauslegt í bílnum kastaðist til, gleraugun flugu af mér og börnin öskruðu. Þarna mátti ENGU muna, ENGU! Það munaði hársbreidd að jeppinn rauði lenti framan á okkar bíl, það munaði hársbreidd að eitthvert okkar væri núna á gjörgæslu eða hreinlega í líkhúsi. Ég veit ekki hvað bílstjóri rauða bílsins var að gera en hann var ekki horfa fram fyrir sig. Kannski var hann að sofna, eða að senda sms eða bara rétt að kíkja á facebook! Hvað sem hann var að gera þá var hann næstum því búin að breyta lífi okkar fjölskyldunnar til frambúðar. Og kannski hefði hann í leiðinni endað sitt líf eða einhvers sem var með honum í bílnum. Við fjölskyldan hefðum aldrei sloppið heil ef rauði jeppinn hefði endað framan á okkar bíl á næstum því 100 km hraða.Aldrei! En ég er ekki reið, ég er þakklát og ég ætla ekki að reyna að finna bílstjórann á rauða jeppanum. Ég er viss um að hann er líka í sjokki og örugglega líka þakklátur fyrir að bíllinn sem hann mætti var með athyglina í lagi og beygði og bremsaði. Ég vil bara biðja alla um að hafa athyglina við aksturinn og PLÍS ekki vera í símanum þegar þið eruð að keyra. Það vill enginn eyðileggja líf heillar fjölskyldu á einu augabragði ❤️Lífið er dýrmætt og brothætt, við megum ekki vera kærulaus það er of mikið í húfi. ÁST og friður.❤❤️

„Þegar maður er með börnin sín í bílnum er maður með það dýrmætasta sem maður á í lífinu,“ segir Sigríður í samtali við DV.

Hún minnir á að umferðin sé ekki tölvuleikur heldur raunheimur þar sem fólk lifnar ekki við aftur. Hún segir að hún og fjölskyldan séu þakklát að vera á lífi og ómeidd eftir þetta skelfilega atvik og ítrekar beiðni sína til ökumanna um að hafa óskerta athygli við aksturinn og láta snjallsímana vera.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.