fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Ítalska mafían færir út kvíarnar: Hefja starfsemi í Þýskalandi því þar eru peningarnir

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 29. júní 2017 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svo virðist vera sem mafían á Sikiley sé í auknum mæli farin að færa sig norðar á bóginn – og þá einna helst til Þýskalands – í leit að tækifærum til að græða peninga.

Ástæðan er sú að efnahagsástandið á Ítalíu er ekki upp á marga fiska og sú staðreynd að ítölsk yfirvöld hafa að undanförnu lagt á það þunga áherslu að uppræta mafíustarfsemi í landinu.

Þetta kemur fram í gögnum sem breska blaðið Guardian hefur undir höndum og fjallar um á vef sínum.

Þann 21. júní síðastliðinn voru nítján handteknir í Villingen-Shwenningen í suðvesturhluta Þýskalands vegna gruns um umfangsmikið smygl á fíkniefnum. Lögregla lagði hald á fjórar milljónir evra í peningum og öðrum verðmætum. Um var að ræða samstarfsverkefni lögreglunnar í Þýskalandi og lögregluyfirvalda í Palermo á Sikiley.

Í umfjöllun Guardian kemur fram að hópurinn, sem á rætur að rekja til Ítalíu, hafi starfað í Rottweil og Stuttgart í Baden-Württemberg sem liggur að landamærum Frakklands og Sviss. Fátækt í þessu héraði Þýskalands er með allra minnsta móti og telur lögreglu að það hafi verið með ráðum gert hjá mafíunni að hefja starfsemi á þessu svæði einmitt af þeim sökum.

Hópurinn er sagður hafa smyglað fleiri tonnum af marijúana og kókaíni frá Albaníu til Þýskalands. Mafían hafi svo stundað peningaþvætti á svæðinu, meðal annars með því að fá bareigendur til að koma fyrir spilakössum á börunum. Telur lögregla að hópurinn hafi starfað fyrir Mondino-fjölskylduna, sem er mafía í Palermo.

Það er ekki einungis Mondino-fjölskyldan sem horfir til norðurhluta Evrópu. Lögregla telur einnig að hin valdamikla Cosa Nostra-mafía hafi einnig fært út kvíarnar og hafið starfsemi í Þýskalandi þar sem efnahagsástand er með besta móti.

Í umfjöllun Guardian kemur fram að fjögur þúsund einstaklingar tengdir ítölsku mafíunni hafi verið handteknir á Sikiley frá árinu 1990.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala