fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Alvöru verndarenglar: Hjónin ættleiddu 88 börn með sérþarfir

Mike og Camille áttu einn draum: Að hjálpa börnum sem þurftu á hjálp að halda

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 27. júní 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1973 kynntust Mike og Camille Gerardi þegar þau unnu bæði á barnaspítalanum í Miami á Flórída. Mike var barnalæknir en Camille var hjúkrunarfræðingur. Þeim varð fljótt vel til vina, urðu ástfangin og gengu síðar í hjónaband. Þau deildu líka sama áhugamáli: Að hjálpa börnum sem þurftu á aðstoð að halda.

Verndarenglar

Nú, rúmum 40 árum síðar, er óhætt að segja að Mike og Camille hafi gert eins mikið og þau gátu til að sinna þessu áhugamáli sínu. Frá því á áttunda áratug liðinnar aldar hafa þau ættleitt 88 börn með sérþarfir í þeim eina tilgangi að gefa þeim betra líf en það sem höfðu þekkt. Þegar þau kynntust hafði Camille þegar tekið að sér þrjú börn og tveimur árum síðar, þegar þau höfðu gengið í hjónaband, sagðist Mike vilja hjálpa fleiri börnum. Þá fór boltinn að rúlla.

„Börnin sem við tókum að okkur voru börn sem margir töldu að myndu ekki lifa lengi.“

Deildu sama draumi

„Þegar Mike bað mín þá sagði ég honum að draumur minn væri að reka heimili fyrir börn með sérþarfir,“ sagði Camille í samtali við CNN og bætir við að Mike hafi svarað að bragði og sagt að það væri einnig draumur hans. Það skal tekið fram að Mike lést á síðasta ári eftir baráttu við krabbamein en eftir stendur minning um mann sem var tilbúinn að fórna ýmsu fyrir aðra.

Í gegnum árin hafa hjónin tekið í sína umsjá 88 börn með sérþarfir.
Flottur hópur Í gegnum árin hafa hjónin tekið í sína umsjá 88 börn með sérþarfir.

„Börnin sem við tókum að okkur voru börn sem margir töldu að myndu ekki lifa lengi,“ segir Camille. Sum þeirra barna sem hjónin tóku að sér fæddust fötluð, sum höfðu lent í alvarlegum slysum og eins og gengur og gerist börðust sum þeirra við ólæknandi sjúkdóma. Markmið hjónanna var að veita þessum börnum eins gott líf og möguleiki var á.

Þurft að horfa á eftir 32 börnum

Á þessum rúmu fjórum áratugum þurftu hjónin að horfa á eftir 32 börnum sem létust, nánum vinum sínum, á meðan önnur hafa náð sér vel á strik í lífinu og lifa hamingjuríku lífi í dag.

Líf hjónanna var ekki alltaf dans á rósum því auk þess að horfa á eftir mörgum börnum í gröfina misstu þau heimili sitt árið 1992 af völdum fellibyls. Þá neyddust þau til að flytja árið 2011 eftir að eldingu laust niður í hús þeirra í Norður-Karólínu með þeim afleiðingum að eldur kviknaði. Og á síðasta ári lést Mike af völdum krabbameins sem dró hann til dauða á stuttum tíma.

Heldur áfram

Hjónin stofnuðu fyrir margt löngu góðgerðarsjóð, The Possible Dream Foundation, sem hefur það hlutverk að aðstoða börn með sérþarfir og fjölskyldur þeirra við að kosta menntun og finna starfsþjálfun við hæfi. Sjóðurinn hefur komið mörgum fjölskyldum og börnum að gagni og til að mynda gert hjónunum kleift að ráða starfsmenn sem aðstoða við umsjá barnanna. Í umfjöllun CNN kemur fram að Camille hafi enn tuttugu börn í umsjá sinni á heimili sínu í Georgíuríki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu