Þess vegna heitir hann Robert Downey: Var eigandi Skjás eins - Glysgjarni Sjálfstæðismaðurinn sem fékk uppreist æru

„Einn af þessum eftirtektarverðu persónuleikum, mjög sérstakur jaðrar við að vera pervers eitthvað — og á mjög sjarmerandi hátt."

Þannig lýsti pappírs Pressan sáluga, í júlí 1994, Róberti Árna Hreiðarssyni lögfræðingi sem þá var ritstýrt af Karl Th. Birgissyni þar sem fjallað var um „Öðruvísi Íslendinga – Þá sem vekja virðingu, aðdáun og forvitni.“

Róbert var á listanum
Úr Pressunni Róbert var á listanum

Virðing og aðdáun eru kannski ekki orð sem eiga við sé tekið mið af umræðum í samfélaginu, núna eftir að innanríkisráðuneytið þurrkaði út á pappírum fortíð Róberts Árna Hreiðarssonar og Hæstiréttur kvað upp þann dóm að afhenda ætti Róberti aftur lögmannsréttindi sem hann var sviptur eftir að hafa misnotað fjórar unglingsstúlkur.

Sjá einnig: Fær að starfa á ný sem lögmaður - Fékk uppreist æru

Eftir sitjum við með orðið forvitni. Og það eru Íslendingar vissulega. Hver er Róbert Árni, eða Robert Downey eins og hann kallar sig nú? Hvaðan kemur nafnið? Af hverju valdi hann nafnið Rikki þegar hann plataði unglingsstúlkur til að hitta sig? Af hverju styðja Sjálfstæðismenn Róbert? Er það vegna þess að hann var innsti koppur í búri Heimdalls?

Róbert var svokallaður stjörnulögfræðingur á árum áður og áberandi sem slíkur í samfélaginu, ekki ósvipað og Sveinn Andri Sveinsson nú svo dæmi sé tekið en án þess að þeim sé líkt á annan hátt saman. Hann var fastagestur á síðum fjölmiðla og ræddi skrautlegan og glysgjarnan klæðaburð sinn oftar enn einu sinni. Ók um á mótorhjóli, klæddur leðri. Hann var framkvæmdastjóri Helgarpóstsins sáluga og aðaleigandi Skjás eins um tíma.

En byrjum á byrjuninni.

Þess vegna heitir hann Robert Downey

Róbert Árni Hreiðarsson er fæddur þann 16. maí 1946. Kynforeldrar hans voru William Gerald Downey Jr., hæstaréttarlögmaður, bankamaður og höfuðsmaður í landgönguliði Bandaríkjahers, fæddur í New York, og Laufey Árnadóttir Downey, húsfreyja, fædd í Reykjavík. Róbert tók því ekki upp nafn bandaríska leikarans Roberts Downey Jr. en á þeim misskilningi hefur borið á samskiptamiðlum.

Foreldrar Laufeyjar Árnadóttur Downey voru: Árni Kristjánsson, vélstjóri, og Laufey Árnadóttir, húsfreyja.

Róbert var tíu ára þegar móðursystir hans, Lára Guðmundsdóttir og eiginmaður hennar Hreiðar Guðjónsson málarameistari ættleiddu hann. Á meðan faðir Róberts gegndi herþjónustu eftir seinni heimsstyrjöldina bjó fjölskyldan m.a. á Íslandi og í Austurlöndum fjær, síðan á Washington DC-svæðinu í Bandaríkjunum, en Róbert varð eftir á Íslandi hjá þeim Láru og Hreiðari þegar komið var að skólagöngu og vildi hann ekki frá hverfa. Lára og Hreiðar voru barnlaus.

Gerðist lögfræðingur og var í Heimdalli

Róbert Árna dreymdi um að verða læknir en ákvað að innrita sig í lögfræði. Sú ákvörðun var hvorki tekin af hugsjón eða miklum áhuga. Í samtali við Stúdentablaðið árið 1967 sagði Róbert:

„Innritun minni í lagadeildina réði hvorki háleit hugsjón né ákveðin „inspiration", heldur brýn þörfin fyrir lífsbjörg. Ég sem fjölskyldufaðir varð að velja það nám, er samræmdist áhugamálum mínum og byði upp á mest frjálsræði í námstilhögun, svo að ég gæti séð mér, konu minni og barni fyrir viðurværi nú á þessum síðustu og verstu tímum [...] Á menntaskólaárum mínum hafði ég ákveðið að leggja fyrir mig annað nám, lengra og erfiðara, en lögfræði, og þar sem málefni okkar stúdenta og aðstaða til flestra hluta er í slíkum ólestri, varð ég að afskrifa það nám og velja annað er gæti samræmst rekstri heimilis svo og hugðarefnum mínum.“

Á árum sínum í Háskóla Íslands sat Róbert í ritstjórn Stúdentablaðsins. Þá var Róbert einnig í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna. Í frétt í Morgunblaðinu er fjallað um ályktun frá stjórn Heimdalls vegna Landhelgismálsins sem verður ekki rakið hér en þar sagði orðrétt í frétt Morgunblaðsins sem hægt er að lesa hér fyrir áhugasama:

„Auk annarra aðila, sem gagnrýndu drögin harðlega voru þeir Jón Magnússon, Friðrik Sophusson og Róbert Árni Hreiðarsson.“

Í júní 1973 var hann umræðustjóri hjá Heimdalli þegar ungir sjálfstæðismenn héldu opinn fund um Landhelgismálið.

Fleiri sjálfstæðismenn

Eftir að Róbert hóf störf sem lögfræðingur einbeitti hann sé helst að fasteignum, bæði í sölu og nauðungarsölum og þótti harður í horn að taka, allt að ósvífinn. Heimildarmaður DV segir að Róbert hafi þótt hörkulegur rukkari og yfirleitt óvinsæll meðal þeirr sem höfðu af honum að segja sem lögfræðingi. Heimildarmaður DV segir:

„Vinkona mín lenti í skuld við fyrirtæki sem hann rukkaði fyrir. Vegna blankheita hennar gat hún ekki borgað á réttum tíma og það hlóðst upp heilmikill kostnaður. Ég tók að mér að reyna að semja við fyrirtækið og eftir töluvert vafstur féllst það á að fella niður meirihlutann af kostnaðinum svo hún vinkona mín næði einhvern tíma að borga þetta. Þá var það aftur á móti Róbert Árni sem kom í veg fyrir samkomulagið, því hann vildi fá sínar prósentur upp í topp. Þetta fannst mér fyrirlitleg framganga.“

Róbert seldi fasteignir í félagi með Sjálfstæðismönnum, svo sem Sverri Hermannssyni og Bæring Ólafssyni sem seinna fór í forsetaframboð. Þá starfaði Jón Egilsson lögfræðingur og Jón E. Ragnarsson, sem sat í stjórn ungra Sjálfstæðismanna, einnig með Róberti um tíma hjá fasteignasölunni Miðborg og 17800F Fasteignasölunni. Þegar gamlar greinar eru skoðaðar á Tímarit.is kemur nafn Róberts fyrir í yfir hundrað skipti þar sem fjallað er um nauðungarsölur á íbúðum eða þær auglýstar til sölu.

Mikill Valsmaður

Árið 2001 skrifaði Eiríkur Jónsson í DV að margir stuðningsmenn Vals vildu að Grímur Sæmundsen færi út og að Róbert Árni Hreiðarsson og séra Vigfús Þór Árnason kæmi í hans stað. Haft var eftir einum stuðningsmanni:

„Þetta eru kraftaverkamenn sem myndu leiða liðið með sigurkrafti inn í nýja öld. Róbert og séra Vigfús eru báðir gamalreyndir knattspyrnumenn sem er minnst fyrir að hafa bæði getað hugsað með fótunum og höfðinu.“

„Celeb – hverjir voru hvar lögfræðingur“

Róbert Árni var fastagestur á síðum dagblaða.

Í Helgarpóstinum í apríl 1995 segir í mola: „Í Ingólfscafé eftir frumsýninguna og jafnframt á frumsýningunni voru Róbert Árni Hreiðarsson lögfræðingur, Kolfinna Baldvinsdóttir og Björn Jörundur Friðbjörnsson, Daníel Ágúst Haraldsson og Gabríela Friðriksdóttir ...“

Í júní, sjö árum áður er greint frá því í Helgarpóstinum að mikil átök hafi átt sér stað um fjölmiðilinn. Í Tímanum sagði að um hatramma baráttu andstæðra hluthafafylkinga. Ný stjórn tók við eftir að hafa barist um yfirráð yfir hlutafélaginu í 14 mánuði. Í nýrri stjórn Helgarpóstsins voru:

Róbert Árni Hreiðarsson formaður, Birgir S. Hermannsson varaformaður og Sigurður Ragnarsson. Degi síðar greindi Þjóðviljinn frá því að starfsmenn væru ósáttir vegna þess að launagreiðslur hefðu ekki borist. Haft var eftir Róberti að staðan væri erfið og væri verið að öngla saman fyrir launum og var starfsmönnum boðnir víxlar í stað launa.

Þetta voru ekki einu afskipti af Róberts af fjölmiðlum. Í júlí 1999 greindi DV frá því að Árni Þór Vigfússon, sonur séra Vigfúsar sem Valsmenn vildu svo ólmir fá sem framkvæmdastjóra tveimur árum síðar, hefði ásamt Kristjáni Kristjánssyni keypt Skjá 1 af Róberti sem þá var aðaleigandi ásamt Hólmgeiri Baldurssyni. Árni Þór og Kristján voru síðar dæmdir í fangelsi fyrir fjárdrátt í tengslum við rekstur á sjónvarpsstöðinni.

Róbert var eins og áður segir fastagestur á síðum blaðanna og ræddi þar meðal annars klæðaburð sinn oftar enn einu sinni. Í Helgarpóstinum 1996 var að finna fyrirsögnina: „Ég er mjög glysgjarn.“

Hófst fréttin á þessum orðum:

„Róbert Árni Hreiðarsson er áberandi öðruvísi í tauinu en margir lögfræðingar landsins, sem flestir íklæðast stífbónuðum jakkafötum frá morgni til kvölds. Vissulega er Róbert oft í lögfræðingsgallanum, en þess á milli á hann það til að venda sínu kvæði í kross og bregða sér í leðurgallann, setjast upp á myndarlegan mótorfák og þeysa af stað út í buskann ásamt eiginkonunni.“

Róbert var meðlimur í Sniglunum og síðan barst talið að því að Róbert bar mikið af skartgripum.

„Ástæðan fyrir því er sú að ég er mjög glysgjarn maður. Ég hef mjög gaman af skartgripum og á töluvert af fallegum hringjum, armböndum og hálsmenum. Þar að auki á ég afar fallegt gullúr frá Cartier, sem ég ber dagsdaglega.“

Í Tímanum 1997 er Róbert í öðru léttu viðtali og fyrirsögnin að þessu sinni: „Spáir í tískuna.“

„Eg tel að útlitið skipti máli og það skiptir máli fyrir mig og mína líðan. Það er ekki þannig að ég lifi fyrir útlitið heldur finnst mér skipta miklu máli að vera hreinn og snyrtilegur og vera í hreinum fötum. Í vinnunni vil ég helst vera í jakkafötum, skyrtu og með bindi,“ sagði Róbert og sagðist aldrei klæðast gallabuxum því hann væri að selja ímynd sína sem lögfræðingur.

„Það væri móðgun við þá að vera druslulegur, órakaður með fitugt hárið,“ sagði Róbert og bætti við að hann keypti sér merkjafatnað á útsölum. Í frétt Tímans segir enn fremur:

„Hann reynir að lífga upp á útlitið með bindum enda getur hann ekki hugsað sér að setja upp slaufu. Þær séu frekar fyrir rykfallna fræðimenn enda séu slaufumenn gagngert að ganga með slaufur til að fá á sig gáfumannastimpil. „Mér finnast bindi skemmtileg því að þau lífga upp. Það er hægt að skipta um bindi og skyrtu frá degi til dags og skipta um litasamsetningu og þá virðist maður alltaf vera í nýjum fötum - þá taka menn ekki eins eftir því að þetta eru sömu fötin," segir hann.

Þá sagði þar líka:

„Róbert Árni gengur alltaf í síðum dökkum frakka yfir veturinn. Hann á nokkra hatta og gengur með hatta yfir veturinn og hefur gert það gegnum tíðina enda rakar hann á sér höfuðið og þá getur verið hlýrra að vera með höfuðfat. „Mér finnst það mjög skemmtilegt og öðruvísi auk þess sem það er nauðsynlegt þegar frostið bítur á kollnum þegar maður er búinn að raka af sér hárið," segir hann. Róbert Árni kveðst vera glysgjarn og fer í skrautlegu uppáhaldsskyrturnar sínar þegar hann fer út að skemmta sér. Hann gengur líka mikið með skartgripi, armbönd, hringi og falleg úr.“

Þar ræddu nemendur um námið. Róbert er hér til hægri en tekið skal fram að hinir mennirnir tengjast umfjölluninni ekki á nokkurn hátt.
Rætt var við Róbert í Studentablaðinu Þar ræddu nemendur um námið. Róbert er hér til hægri en tekið skal fram að hinir mennirnir tengjast umfjölluninni ekki á nokkurn hátt.

Áður en Róbert var handtekinn og grunaður um að níðast og brjóta á unglingsstúlkum hélt hann áfram að birtast reglulega á síðum blaðanna. Í Helgarpóstinum 1996 er greint frá því að hann hafi tapað máli gegn Sveini Andra Sveinssyni eftir að hafa gert kröfu í innanstokksmuni konu eftir að eiginmaður hennar var úrskurðaður gjaldþrota. Hann er vinur Ástþórs Magnússonar forsetaframbjóðenda og varði hann oft. Þá voru þeir báðir í eigendahópi Kreditkorta. Hann varði Eið Örn Ingvarsson sem var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Héraðsdómi fyrir að koma ekki deyjandi konu til hjálpar sem hafði sprautað sig með fíkniefnum og þá vakti annað mál athygli árið 2004 sem fjallað var um í DV þegar hann tók að sér að gæta hagsmuna Arnars Sigfússonar sem átti að henda út úr húsnæði Samhjálpar. Hann var einn lögmanna í 10-11 ráninu 1997 og var Jórunni Önnu Sigurðardóttur innan handar eftir að mistök voru gerð við að minnka brjóst hennar. Þá varði hann eiganda Bóhem árið 2001 og undirbjó kærur á súlustúlkur eins og segir í DV. Allt voru þetta nokkuð fyrirferðamikil fréttamál á þessum tíma. Þá var Róbert lögmaður málverkaþjófa og Greenpeace.

Þá tók Róbert stundum að sér að verja fólk sem ekki hafði efni á lögfræðingum og stökk á mál sem líkleg voru til fjölmiðlaumfjöllunar. Í DV árið 2000 er greint frá því að Róbert hafi boðist til að verja án greiðslu Janet Grant og börn hennar sem átti að vísa úr landi. Var það hitamál, sjá hér. Eftir árið 2000 er Róbert mun minna á síðum blaðanna. Samkvæmt leitarniðurstöðum á Tímarit.is voru umfjallanir um Róbert með þessum hætti:

1980-1989 samtals til umfjöllunar:: 165

1990 – 1999 samtals til umfjöllunar: 95

2000 – 2009 samtals til umfjöllunar 24

Árið 2003 er Róbert svo í Fréttablaðinu og fagnar þar 57 ára afmæli sínu og kvaðst þá ekki finna mikið fyrir aldrinum.

„Það hefur dregið úr úthaldinu í ljúfa lífinu. Það er það helsta sem ég finn og er svo sem allt í lagi. Allt hefur sinn tíma og ljúfa lífið er eins og tímabil í lífi hvers manns sem allir verða að reyna en alls ekki að láta vara að eilífu,“ sagði Róbert og rifjaði upp fimmtugsafmæli sitt: „Þá sló ég upp veislu á Hótel Sögu og tók á móti 200 gestum. Þegar ég verð sextugur er konan búin að lofa mér til Las Vegas. Ég vona að það standi því ég er þegar farinn að hlakka til.

Og síðan líða fjögur ár. Þá kom sannleikurinn í ljós.

Hryllingurinn

Í DV árið 2007 er greint frá því að Róbert hefði verið dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum á aldrinum fjórtán til fimmtán ára. Brotin framdi hann á tímabilinu frá júlí 2005 til vormánaða 2006, meðal annars þegar ein stúlknanna var í helgarleyfi frá meðferðarheimili fyrir unglinga. Þá var Róbert Árni dæmdur til þess að greiða stúlkunum samtals um 2,2 milljónir króna í skaðabætur.

Ákæran gegn Róberti Árna var í níu liðum, sex þeirra snérust um brot gegn stúlkunum. Hann var sakfelldur í öllum liðum ákærunnar nema einum, sem laut að því að hafa sent einni stúlknanna á tölvupósti fjórar ljósmyndir af nöktum karlmanni að fróa sér.

Róbert Árni var meðal annars sakfelldur fyrir að hafa haft beint og óbeint samræði við eina stúlkuna 15 sinnum gegn um það bil 20 þúsund króna greiðslu fyrir hvert skipti. Þá voru gerðar upptækar myndbandsspólur og tölvur sem innihéldu barnaklám. Þar var ekki sakfellt að fullu.

Við húsleit á heimili Róberts Árna fundust meðal annars tveir GSMsímar. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að símarnir höfðu báðir verið í notkun með fjórum símanúmerum, sem öll voru óskráð nema eitt sem skráð var á fjárfestingarfélag í eigu hans. Símana notaði Róbert Árni til að hafa samskipti við stúlkurnar undir ólíkum nöfnum, meðal annars sem Árni og Robbi. Þá þótti sannað að Róbert Árni hefði haft tölvupóstfangið bestur2000@hotmail.com, en hann tældi stúlkurnar á MSN-spjallforritinu undir fölsku nafni sem sautján ára strákur að nafni Rikki.

Í dómsorði sagði:

„Rikki þóttist vera sautján ára gamall piltur. Stúlkan var þá talsvert ölvuð í samkvæmi og vantaði þær vinkonur bílfar. Rikki tjáði þeim að hann vissi um mann sem vildi skutla henni gegn munnmökum. Féllst stúlkan á þetta tilboð og sótti Róbert þær klukkan fjögur að nóttu. Hún hafði við hann munnmök á bílastæði BSÍ og hitti hann margsinnis upp frá þessu og fékk greitt 10.000 til 20.000 krónur fyrir hvert skipti. Á tímabili hittust þau daglega.“

Sjá einnig: Lögfræðingur kærður aftur fyrir kynferðisbrot

Stúlkan var vinafá, stóð höllum fæti félagslega og neytti á þessum tíma fíkniefna. Þess má geta að sonur Róbert Árna hét Ríkharður og var alltaf kallaður Rikki. Hann lést þann 19. febrúar árið 2010.

Í fórum Árna fannst minnisbók sem innihélt 335 kvenmannsnöfn með bæði símanúmerum og póstföngum. Við nöfnin höfðu verið skráðar tölur sem líklegt er að hafi vísað til aldurs stúlknanna. Árið 2010 var Róbert kærður aftur út af máli frá 2002 en því var vísað frá.

Róbert Árni áfrýjaði dómnum en á því græddi hann ekkert. Niðurstaðan var sú sama. Hann hafði krafist þess að refsingin yrði lækkuð og kröfu um atvinnuréttindi yrði vísað frá dómi. Þá fór hann fram á að dómur yrði ekki birtur á netinu og til vara að nöfn yrðu afmáð, gælunöfn, fyrirtækjaheiti og heimilisföng. Róbert Árni var á hinn bóginn sýknaður fyrir vörslu á barnaklámi, sjá frétt Morgunblaðsins.

Róbert hélt áfram brotum sínum eftir að honum var kunnugt um að hann væri grunaður um kynferðisbrot gagnvart einu fórnarlambinu. Þá hélt Róbert réttindum sínum sem lögmaður í þau tvö ár sem málið var rannsakað og kom t.d. oft í Barnahús vegna mála sem voru í rannsókn.

Uppreist æru

Það vakti mikla athygli í síðustu viku þegar greint var frá því að Róbert hefði hlotið uppreist frá innanríkisráðuneytinu sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands kvittaði undir í september í fyrra. Hæstiréttur staðfesti að svipting réttinda hans til að starfa lögmaður væri felld niður. Það þýðir að hann má á ný starfa sem lögmaður. Samkvæmt pappírum er Róbert því með óflekkað mannorð.

Sjá einnig: Vonar að Róbert starfi ekki sem lögmaður

Þegar málið rataði í fréttir varð stormur á samskiptamiðlum. ]Tvö fórnarlamba hans stigu fram, þær Glódís Tara og Nína Rún Bergsdóttir og greindu frá hversu miklum sársauka og skaða það hefði valdið þeim. Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar stúlkunnar sagði málið enn í dag hafa áhrif og sárnaði mjög og reiddist að Róbert hefði hlotið uppreist æru. Alls staðar mátti sjá fólk gagnrýna þessa ákvörðun og fannst fólki helst að Róbert hefði átt að sína fórnarlömbum sínum þá virðingu að sækja ekki um óflekkað mannorð. Það hefði í raun gerst að sjálfu sér ef hann hefði beðið með slíkt í nokkur ár.

Sjá einnig: Segir Robert Downey hafa farið til sálfræðings vegna barnagirndar

Á meðan Þorgerður Katrín Gunnlaugsdóttir ráðherra Viðreisnar gagnrýndi fyrirkomulagið þá voru aðrir embættismenn sem vörðu Róbert. Þar fóru fremstir í flokki Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður hans, Brynjar Níelsson, félagi úr Val og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og svo Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sem var starfandi dómsmálaráðherra þegar fortíð Róberts var löguð til en Bjarni sver að hann hafi hvergi komið nálægt. Á Facebook mátti sjá það nefnt að þeir sem komu gamla sjálfstæðismanninum, manninum sem hafði látið að sér kveða í Heimdalli, helst til varnar voru aðrir Sjálfstæðismenn. Bjarni sagði í samtali við RÚV:

„Þetta er allt annað sem við erum að ræða hér. Ég myndi frekar hallast að því að í okkar samfélagi viljum við gefa fólki tækifæri aftur í lífinu, sem hefur tekið út sína refsingu. Við getum ekki látið tilfinningar kannski ráða of miklu í þeim efnum. Með þessu er ég ekki að gera neinn mun á einstökum brotum eða einstaklingum. Við viljum einfaldlega búa í samfélagi sem gerir ekki upp á milli fólks á grundvelli slíkra hluta þegar um borgaraleg réttindi er að ræða.“

Sigríður Andersen ráðherra Sjálfstæðisflokksins sagðist vilja skoða hvernig væri staðið að því að veita mönnum uppreist æru og þá hvort allir ættu að eiga rétt á slíku.

Lokaði Facebook

Róbert Árni er í dag rúmlega sjötugur og býr erlendis. Eftir að fjölmiðlar greindu frá málinu lokaði hann Facebook-síðu sinni. Áður en það gerðist mátti sjá að Róbert stundar enn að leika sér á mótorhjólum. Þegar hann tjáir sig eru það helst hælisleitendur sem vekja áhuga hans. Þá hefur hann hrifist af málflutningi Gústafs Adólfs Níelssonar. Þegar Gústaf var gagnrýndur vegna skoðana um fjölmenningu skrifaði Róbert:

„Aftaka og útför fréttamanna. Beinskeyttur og rökréttur málflutningur Gústafs. Tók auma fréttamenn og spyrjendur í karphúsið.“

Þann 1. september 2015 skrifaði hann við mynd af yfirfullum bát af fólki.

Sjá einnig: Tveir „valinkunnir einstaklingar“ gáfu Róbert Árna Hreiðarssyni vottorð um góða hegðun.

Glódís Tara og Nína Rún
Þær stigu fram Glódís Tara og Nína Rún

„Halda stjórnmálamenn og fylgjendur þessarar hælisleitendastefnu að þessari flóðbylgju linni, þegar búið ere að koma þessum hópi hælisleitenda fyrir í löndum Evrópu? Þvert á móti verður það hvatning til annarra íbúa í þessum löndum hælislenda að komast inn í velferðarkerfi vesturlanda á kostnað skattborgarana. Flóðbylgjurnar koma til með að verða stærri, tíðari, og skaðvænlegri þegar fram í sækir þar til tekið verður á þessum málum á fullri alvöru og á raunhæfan hátt og fólkinu gert kleyft að lifa á sínum heimaslóðum á mannsæmandi hátt.

Og enn sem komið er, fáum við ekki að vita hver mælti með því að Róbert hlyti uppreisn æru.

Eftir að málið komst í hámæli hefur ekkert heyrst frá Róberti. Hann lokaði eins og áður segir Facebook-síðu sinni. Þá reyndi DV að komast í samband við Róbert í gegnum lögmann hans sem neitaði að verða að liði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.