Skýrsla um flugslysið á Akureyri komin fram: Rakið til mannlegra mistaka

Skýrsla rannsóknarnefndar um flugslysið á Akureyri árið 2013 komin út

Mynd: Völundur Jónsson / Akureyri Vikublað

Rannsóknarnefnd samgönguslysa gaf í morgun út lokaskýrslu vegna flugslyssins sem var við Hlíðarfjallsveg á Akureyri þann 5. ágúst árið 2013. Í skýrslunni, sem er 62 blaðsíður, kemur fram að rekja megi slysið til mannlegra mistaka þegar vélin var sett í stöðu sem hún réði ekki við.

Hér má kynna sér efni skýrslunnar.

Vélin, TF-MYX, sem var í eigu Mýflugs, var á leið úr sjúkraflugi þegar slysin átti sér stað. Þegar hún brotlenti fór fram götuspyrnukeppni á vegum Bílaklúbbs Akureyar á kvartmílubrautinni og var talsverður fjöldi fólks að fylgjast með keppninni.

Þrír voru um borð í vélinni; flugstjóri, flugmaður og sjúkraflutningamaður og létust flugstjórinn og sjúkraflutningamaðurinn í slysinu. Í skýrslunni kemur fram að flugstjóra vélarinnar hafi verið kunnugt að keppni færi fram á kvartmílubrautinni. Vélin hafi tekið skarpa beygju í tiltölulega lítilli hæð í átt að akstursíþróttasvæðinu og ekki náð að rétta sig af í tæka tíð. Telur rannsóknarnefndin að mannleg mistök hafi átt stóran þátt í slysinu.

Mýflug sendi í morgun frá sér tilkynningu vegna skýrslu rannsóknarnefndar. Þar segir meðal annars að mikill léttir sé að rannsókn sé lokið og færir félagið nefndinni þakkir fyrir þá vinnu sem lögð var í rannsóknina. „Mýflug hefur frá upphafi lagt kapp á að vinna með RNSA og hefur félagið veitt alla þá aðstoð sem talið hefur verið að gæti gagnast. Tilgangurinn með flugslysarannsóknum er að koma í veg fyrir að slys endurtaki sig. Við vonum að skýrslan reynist mikilvægur þáttur í að sjá til þess að aldrei verði annar viðlíka atburður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.