Leigubílstjóri segist ranglega sakaður um nauðgun í Kópavogi – Þurfti að dúsa á lögreglustöð í fjóra tíma

Leigubílstjórinn gagnrýnir viðbrögð lögreglu

Mynd: DV

Íslenskur leigubílstjóri á fimmtugsaldri segist hafa fyrir viku síðan verið ranglega sakaður um nauðgun af drukknum farþega sem neitaði að greiða fargjald sitt. Hann var í kjölfarið handtekinn og þurfti að dúsa á lögreglustöðinni í Kópavogi í um fjóra tíma þar til að lögreglumenn leyfðu honum að fara eftir að konan viðurkenndi að málið væri uppspuni frá rótum.

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Kópavogi, segist í samtali við DV ekkert geta tjáð sig um málið. Hann geti raunar hvorki staðfest né neitað að slíkt mál hafi komið upp á stöðinni.

Leigubílstjórinn gagnrýnir í samtali við DV viðbrögð lögreglu, bæði þegar hann var handtekinn sem og í kjölfar málsins, en hann kveðst ekkert hafa heyrt í lögreglu síðan þá, þrátt fyrir loforð um annað. Hann er jafnframt hugsi yfir stöðu leigubílstjóra í málum sem þessum. „Hver sem er að því er virðist geta búið til sögur sem hlustað er á. Alveg sama hversu ruglaður og ölvaður viðkomandi er,” segir maðurinn.

Keyrði fram og til baka

Forsaga málsins, að sögn mannsins, er sú að aðfaranótt síðasta mánudags tók leigubílstjórinn konu í bíl sinn sem hugðist fara í Árbæinn. Með konunni á brottfararstað var maður sem greiddi þrjú þúsund krónur, sem var það verð sem bílstjórinn gaf upp fyrir ferð í Árbæ, og setti bílstjórinn því ekki gjaldmæli af stað. Maðurinn fór ekki með í leigubílinn. Að sögn bílstjórans var konan talsvert ölvuð og ekki í jafnvægi.

Hann segir að þegar komið var upp í Árbæ hafi konan ekki vitað nákvæmlega hvert hún væri að fara og þurfti hann því að keyra fram og til baka um hverfið. Hann segir að eftir drjúga stund hafi þau samið um að setja gjaldmælinn í gang. Þá hafi konan beðið bílstjórann um að aka í Krókamýri í Garðabæ.

Í alvarlegum málum

Þegar þangað var komið var gjaldmælirinn kominn í tíu þúsund krónur og tjáði bílstjórinn henni það. „Konan varð öskureið og hótaði að kæra mig fyrir nauðgun ef ég héldi því til streitu að hún þyrfti að borga bílinn. Ég sagði henni að ef hún ekki gerði upp bílinn þá mundi ég aka með hana rakleiðis á næstu lögreglustöð,“ segir leigubílstjórinn

Hann ók því á lögreglustöðina á Dalvegi í Kópavogi en á leiðinni þangað segir hann konuna hafa hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt að verið væri að nauðga henni í leigubíl. Leigubílstjórinn hringdi jafnframt í Neyðarlínuna og sagðist hafa farþega við Dalveg sem neitaði að greiða.

Tveir lögreglumenn koma á vettvang og sagði bílstjórinn þeim sína sögu. Að sögn bílstjórans ræddu þeir svo við konuna og strax í kjölfarið handtóku þeir leigubílstjórann og sögðu hann vera í alvarlegum málum. Hann segist hafa þurft að dúsa á stöðinni í um fjóra tíma þar til að honum var sleppt eftir að konan hafi viðurkennt að meint nauðgun væri uppspuni.

„Erfitt að eiga við þetta“

Leigubílstjórinn segist ósátt urvið að lögregla hafi ekki haft samband við sig eftir atvikið. Hann segist ekki vita hvað hann muni gera næst. „Það er erfitt að eiga við þetta. Rannsóknarlögreglumaðurinn hefur ekkert samband við mig og ég er búinn að reyna að ná í hann en hann svarar ekkert. Þannig að ég verð að fara einhverjar aðrar leiðir,“ segir hann.

Líkt og fyrr segir er hann hugsi yfir stöðu leigubílstjóra þegar þeir eru sakaðir um glæpi. „Það þyrftu fleiri að hafa myndavélar í bílunum. Ég er ekki með þannig. Þetta er ekki skylda hér en þetta er mikið öryggisatriði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.