Brynjar og Hjalti fengu fjóra mánuði á skilorði fyrir að berja fyrrverandi kaptein Pírata til óbóta fyrir framan móður hans

Brynjar Kristensson, oft kallaður Kristens Brynjar, og Hjalti Guðmundsson voru á föstudaginn dæmdir í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi við Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir líkamsárás gegn Þórólfi Júlían Dagssyni. Brynjar og Hjalti eru nátengdir Sævari Hilmarssyni, sem hefur ítrekað komist í kast við lögin. Sævar var viðstaddur þegar árásin átti sér stað en tók ekki þátt í henni.

Árásin átti sér stað um hábjartan dag í Borgartúni í fyrra og var móðir Þórólfs vitni af henni. Þórólfur, sem skipaði 3. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi var kapteinn Pírata á Suðurnesjum, segir í samtali við DV að dómurinn sé lýsandi fyrir íslenskt þjóðfélag í dag. Þórólfur er jafnframt reyndur sjómaður og skipstjóri til margra ára.

Dæmigert

Þórólfur segir að málið sé raunar dæmigert fyrir Ísland í dag. „Það er alltaf verið að grafa undan trúverðugleika dómskerfisins, þú sérð hvernig barnaníðingur fær uppreist æru. Það að sé verið að ráðast á mann að tilefnislaus um hábjartan dag er nú ekkert miðað við það. Það ríkir bara algjör lögleysa hérna þegar það er bara slegið á fingur svona manna og þeir beðnir að gera þetta ekki aftur. Maður getur nú ekki verið hissa að fólk flytji héðan burt þegar ástandið er svona.

„Síðan vill lögreglan fá skotvopn til að auka öryggi en dómskerfið gerir ekki neitt. Hvað ætla þeir að gera með þessar byssur? Væri ekki ágætt að sleppa þeim og halda frekar mönnum á beinu brautinni með því að vera með refsingar sem eru marktækar? Það er ekki hægt að halda mönnum á beinu brautinni ef þeir safna kærum og ekkert gerist fyrr en alvarlegri brot eiga sér stað,“ segir Þórólfur. Hann bætir við að það sé furðulegt að hann frétti af dómnum frá blaðamanni.

Lá í götunni í Borgartúni

Málsatvik eru þau að Þórólfur var farþegi í bíl móður sinnar þar sem þau voru að aka niður Borgartún í talsverðri umferð. Þá hafi Brynjar reynt að freista þess að aka þvert fyrir þau og inn á næsta bílaplan. Brynjar hafi flautað á þau og hreytt í þau ónotum en hann vildi komast inn á planið. Móðir Þórólfs hafi svo ekið áfram þegar umferðin fór að mjakast áfram. Þá hafi Þórólfur heyrt högg eins og einhverju hafi verið kastað í bílinn.

Þá steig hann út og spurði: „Afhverju í fjandanum voruð þið að henda í bílinn?“. Hann segist hafa séð fernu utan af próteindrykk liggja við bílinn taldi að Brynjar og Hjalti hafi kastað henni. Að sögn Þórólfs steig Brynjar þá úr bílnum og spurði hann hvort hann væri nagli og sagt „djöfull ertu harður að stíga út úr bílnum“.

Því næst segir Þórólfur að Brynjar hafi slegið til hans og kom höggið í andlitið. Honum brá mikið við þetta og flúði yfir götuna. Þá hafi þeir rölt á eftir honum. Þórólfur segir að Hjalti hafi sparkað í vinstri fótinn á honum og strax á eftir hafi Brynjar slegið hann einu höggi í andlitið.

Hann telur að við þetta hafi hann fallið í jörðina en hann man lítið fyrr en hann lá í götunni og blóð komið upp úr honum. Þórólfur viðurkennir fúslega að honum hafi fyrst verið heitt í hamsi en hafi á engum tímapunkti snert hvorki Brynjar né Hjalta.

Lögregla sagði þá hafa viðurkennt sök

Í dómnum kemur fram að fjögur vitni hafi verið að árásinni, móðir Þórólfs og þrír vegfarendur. Í dómnum kemur jafnframt fram að þegar lögregla handtók þá báða hafi Brynjar sagst hafa kýlt Þórólf „því hann átti það skilið“ og Hjalti hafi viðurkennt að hafa sparkað í Þórólf. Síðar þegar þeir voru yfirheyrðir vegna málsins að viðstöddum verjanda neituðu þeir að tjá sig við lögreglu.

Við aðalmeðferð sagði Brynjar að Þórólfur hafi verið ógandi og þeir í kjölfarið lent í orðaskiptum og smá ryskingum. Hann sagðist aldrei hafa snert Þórólf við bifreiðina en hafi hins vegar ýtt í efri hluta búks hans hinum megin við götuna. Hann sagði jafnframt að lögregla hafi haft rangt eftir honum þegar hann var handtekinn og hann hefði aldrei viðurkennt neitt.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hjalti sagði við aðalmeðferð að þeir Brynjar hafi orðið hálfsmeykir við Þórólf þegar hann steig út úr bílnum í Borgartúni. Hjalti sagðist ekki muna eftir því hver ýtti hverjum. Hann sagðist ekki hafa séð Brynjar kýla Þórólf og mundi ekki hvort hann hafi sjálfur gert Þórólfi nokkuð.

Þrjú vitni komu fyrir dóm en ekkert þeirra sá almennilega ryskingarnar við bílinn. Öll sögðust þó hafa séð mann kýla Þórólf hinum megin götunnar. Brynjar var því sýknaður af því að hafa kýlt Þórólf fyrst við bílinn. Í dómi segir að framburður Þórólfs hafi verið trúverðugur og frá upphafi á sama veg meðan framburður Brynjar og Hjalta hafi verið ótrúverðugur.

Þurfa hjálp

DV ræddi við Þórólf síðastliðinn nóvember og sagði hann þá að hann hafi hlotið talsverðan skaða af árásinni. Hann var frá vinnu í margar vikur vegna bakmeiðsla og tók móðir hans árásina mjög nærri sér. Þá sagði hann, líkt og nú, að það væri ólíðandi að ekki væri hægt að stöðva menn sem séu til vandræða í samfélaginu. Þá taldi hann að þetta væru menn sem þurfi á hjálp að halda.

„Ég er ekki búinn að jafna mig andlega á árásinni. Ég hef ekki haft tíma til þess að fara í gegnum þessa ferla, og sálfræðimeðferðir eru ekki greiddar niður eins og tímar hjá geðlæknum og því hefur verið erfitt um vik að sækja áfallahjálpina sem nauðsynleg er fyrir mig og móður mína,“ sagði Þórólfur í nóvember.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.