Þeim verður hent úr landi klukkan 17 á mánudag: Börnin sofa illa af ótta við að lögreglan sparki upp hurðinni á hverri stundu

Pólitískur flóttamaður þarf að afplána 14 ára fangelsisdóm í Makedóníu

Þetta fólk verður sent nauðugt til Makedóníu á morgun þar sem faðirinn mun fara í fangelsi
Þetta fólk verður sent nauðugt til Makedóníu á morgun þar sem faðirinn mun fara í fangelsi
Mynd: DV ehf/Brynja

Á morgun mun lögregla fylgja Nafi Abdioski, eiginkonu hans og þremur ungum börnum, út á Keflavíkurflugvöll um borð flugvél sem flytur fólkið til Makedóníu. Þá á Nafi að afplána 14 ára fangelsisdóm fyrir meint ólögleg pólitísk mótmæli. Nafi og fjölskylda hafa dvalist í flóttamannabúðunum á Ásbrú undanfarna átta mánuði. Að Nafis og túlks hans, Aldo, sem er hælisleitandi frá Albaníu, er hann ekki eftirlýstur af Interpol þrátt fyrir að hafa flúið föðurland sitt eftir að kveðinn var upp yfir honum fangelsisdómur, vegna þess að afbrot hans telst ekki til afbrota í flestum öðrum Evrópuríkjum. Lýsa þeir miklum pólitískum ofsóknum sem Nafi hafi orðið að þola í heimalandinu, meðal annars mikilli eignaupptöku af hálfu lögreglunnar.

Hinar meintu ofsóknir áttu sér stað á valdatíma fráfarandi forsætisráðherra Makedóníu, Nikola Gruevski. Abdioski er pólitískur baráttumaður og studdi flokk er var í stjórnarandstöðu á valdatíma Gruevskis, sem reyndar hefur núna látið af völdum.

DV hefur ýmis gögn undir höndum frá Nafi, meðal annars bréf frá makedónskum lögmanni sem staðhæfir að Nafi sé þekktur pólitískur baráttumaður í Makedóníu og hafi tekið þátt í fjölmörgum mótmælum stjórnarandstöðunnar gegn stjórn Gruevskis og sé hægt að færa sönnur á það bæði með ljósmyndum og vitnisburði. Hafi hann af þessum sökum verið handtekinn og dæmdur til fangelsisvistar. Hann hafi verið undir smásjá spilltra stjórnvalda og hafi neyðst til að flýja land vegna ofsókna stjórnvalda.

Í öðrum gögnum eru tíunduð brot Nafis á nokkrum makedónskum lagagreinum en þar er ekki hægt að sjá með óhyggjandi hætti hver þessi afbrot eru. Ekkert í þeim gögnum sem DV hefur undir höndum bendir þó til þess að Nafi hafi gerst sekur um annað en það sem hann staðhæfir: pólitískt andóf.

Lögreglan gerði upptæka 15 vörubíla og önnur verðmæti

Meðal gagnanna er frásögn vefmiðils í Makedóníu af málum Nafis. Þar segir að hann sé einn fjölmargra andófsmanna sem ofsóttir hafi verið af hálfu stjórnvalda í tíð Guevskis. Hann hafi átt velgengni að fagna í viðskiptum, átt 15 vörubíla og timburvörufyrirtæki. Lögreglan krafðist að hann borgaði 200.000 evrur í mútur, léti af stuðningi sínum við stjórnarandstöðuflokkinn og tryggði stjórnarflokknum 100 atkvæði. Nafi neitaði þessu afarkostum.
Þessar ofsóknir áttu sér stað árið 2012. Hann fékk eigur sínar ekki afhentar aftur og neitaði lögreglan að hafa tekið þær.

Abdioski fjölskyldan hefur því miður fá tilefni til að brosa þessa dagana
Abdioski fjölskyldan hefur því miður fá tilefni til að brosa þessa dagana
Mynd: DV ehf/Brynja

Börnin hrædd og svefnlaus

„Litla dóttir mín varð fyrir miklu áfalli vegna stöðugs ágangs lögreglunnar, sem um tíma kom að heimili okkar á hverju kvöldi,“ segir eiginkona Nafis, Nebehate, en nokkurn ótta má greina í augum stúlkunnar sem er aðeins þriggja og hálfs árs. Nafi og kona hans eiga auk stúlkunnar tvo drengi, annan á öðru ári og hinn á fimmta ári.

„Börnin eru hrædd og hafa átt erfitt með svefn, vegna þess að þau hafa mátt búa við það að lögreglan sparki upp dyrunum hvenær sem er.“ bætir Nafi við.

Abdioski-fjölskyldan hefur dvalist hér á landi í flóttamannabúðum í Ásbrú í Reykjanesbæ undanfarna átta mánuði. Makedónsk yfirvöld hafa óskað eftir framsali hans þar sem Nafi sé dæmdur sakamaður í Makedóníu. Við þeirri ósk hafa nú íslensk yfirvöld orðið.

Fjölskyldan talar ekki íslensku og litla ensku. Vinur þeirra, Aldo, fylgdi þeim á ritstjórn DV þar sem fólkið ræddi stuttlega við blaðamann og afhenti honum gögn. Sá Aldo um að túlka skilaboðin frá fólkinu auk þess að leggja til upplýsingar sjálfur. Aldo segir að þó að fjölskyldan hafi ekki búið við sömu ógnina og óöryggið hér á landi séu aðstæður í flóttamannabúðunum á Ásbrú ekki mannúðlegar.

„Það er mjög þröngt um fólkið, maturinn er slæmur og þau fá ekki nema 2.700 krónur í styrk á viku. Þá eru þrír kílómetrar í næstu matvöruverslun og engar almenningssamgöngur á svæðinu,“ segir Aldo, sem telur illa búið að hælisleitendum á Íslandi.

Vill bara fá vegabréfið sitt aftur – en það er ekki hægt

Rauði krossinn útvegaði Nafi lögmann. Sýndi Nafi blaðamanni DV skilaboð sem fóru á milli hans og lögmannsins þar sem honum er tjáð að því niður sé sá tími liðinn að hann geti yfirgefið landið sjálfviljugur, hann verði að fara í fylgd lögreglu.

Nafi biður núna bara um að hann og fjölskyldan fái vegabréfin sín afhent svo þau geti flúið til einhvers annars lands, enda séu afbrotin sem hann var dæmdur fyrir í Makedóníu ekki talin afbrot í siðmenntuðum ríkjum. Þess vegna sé hann ekki eftirlýstur af Interpol heldur bara af yfirvöldum í Makedóníu. En Nafi er tjáð að það sé ekki hægt. Lögregla muni fylgja honum og fjölskyldunni út í flugvél á morgun sem flytur þau til Makedóníu þar sem Nafi bíður margra ára fangelsisvist.

Ekki tókst að ná sambandi við lögmann Nafi við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.