Ósk rýfur þögnina og hræðilegur sannleikur opinberaður: „Ég stend því upp og segi stopp“

Dómsmál framundan – hefur þurft að búa í vernduðu umhverfi

„Erfið opinberun, en nú er þögnin um alvarlegt heimilisofbeldi á enda. Ótrúlegt hve lengi maður getur þraukað og leikið líf sitt fagurt og hamingjuríkt þegar raunin er algjör andstæða. Eftir fleiri tuga heimsókna á slysó. Alltof oft lokuð inni svo enginn sjái áverkana.“

Þetta skrifar Ósk Matthíasdóttir í áhrifamikilli stöðufærslu á FB-síðu sinni. Hún segist hafa orðið að búa undir vernd í þrjá mánuði vegna þess að yfirvöld töldu lífi hennar ógnað:

„Nýtt upphaf er í nánd, loks fann ég íbúð með miklu öryggiskerfi sem mun auka öryggi mitt næstu mánuði eða þangað til réttarhöldum lýkur. Íbúð sem verður að fallegu og rólegu heimili fyrir mig og börnin mín yndislegu.“

Mikilvægt að rjúfa þögnina um heimilisofbeldi

Í frétt DV fyrir skömmu kom fram að fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á reynslu kvenna á Íslandi af ofbeldi í þeirra garð. Það tóku 3.000 konur þátt í rannsókninni á aldrinum 18 til 80 ára. Rúmlega 22% kvennanna höfðu verið beittar líkamlegu, kynferðislegu, andlegu eða fjárhagslegu ofbeldi í nánu sambandi einhvern tímann á lífsleiðinni frá 16 ára aldri. Þetta gefur til kynna að 23 til 27 þúsund íslenskar konur hafi verið beittar ofbeldi af hendi maka á einhverjum tímapunkti um ævina. Ljóst er að vandamálið er útbreitt.

Heimilisofbeldi hefur ekki aðeins gríðarleg áhrif á þolendur sem í langflestum tilvikum eru konur, heldur geta börn sem verða vitni að heimilisofbeldi orðið fyrir miklu sálrænu áfalli.

Samtök um kvennaathvarf skilgreina heimilisofbeldi á þennan veg:

„Heimilisofbeldi er þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar”. Skilgreiningin á ofbeldi gegn konum er samkvæmt Sameinuðu þjóðunum:

„Ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.”

Að minnsta kosti ein af hverjum þremur konum í heiminum hefur einhvern tíma verið lamin, neydd til kynlífs eða misþyrmt á einhvern annan hátt yfirleitt af einhverjum sem hún þekkir, eiginmanni eða af öðrum fjölskyldumeðlimum.

Ósk vill hjálpa

Ósk kvaðst ekki tilbúin í viðtal vegna málsins en gaf leyfi fyrir birtingu stöðufærslu og ljósmynda af sér vegna forvarnargildis efnisins. Í stöðufærslunni segir hún enn fremur:

„Að fela hörmulegt heimilisofbeldi sem aldrei á rétt á sér er eins og að fela sjálfan sig, eins og að vera sinn eigin draugur.“

Ósk staðfesti hins vegar við DV að fram undan séu réttarhöld vegna ofbeldisins sem hún hefur orðið fyrir. Ósk hefur ein afar mikilvæg skilaboð fram að færa að lokum:

„Ég stend því upp og segi stopp og hvet aðrar konur að gera hið sama.“

Þolendur heimilisofbeldis geta leitað sér aðstoðar hjá eftirtöldum aðilum:

Á höfuðborgarsvæðinu:

Kvennaathvarfið – sími: 561-3720 Neyðarnúmer allan sólarhringinn: 561-1205 Netfang: Kvennaathvarf@kvennaathvarf.is Stígamót – sími: 562-6868 / 800-6868 Netfang: stigamot@stigamot.is

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis Landspítalanum 543 1000 - Aðalskiptiborð LSH 543 2000 - Afgreiðsla bráðamóttöku LSH 543 2094 - Neyðarmóttaka á dagvinnutíma 543 2085 - Áfallamiðstöð LSH Kristínarhús - Sími: 546 3000 Netfang: steinunn@stigamot.is Kvennaráðgjöfin – Sími: 552-1500 Karlar til ábyrgðar - Sími : 555-3020 Drekaslóð - Símanúmer: 551 - 5511 / 860-3358

Landsbyggðin:

Aflið, systursamtök Stígamóta á Akureyri - Símanúmer: 461 5959 / 857 5959 Sólstafir, systursamtök Stígamóta á Ísafirði - Sími: 846-7484

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.