Ekið á stúlku í Laugardal: Ökumaðurinn ók síðan burt

Tilkynnt var um umferðarslys við Laugardalshöll á þriðja tímanum í nótt, en þar hafði verið ekið á stúlku. Að sögn lögreglu ók ökumaðurinn af vettvangi áður en lögregla kom á staðinn.

Stúlkan kenndi eymsla í mjöðm en vildi ekki fara á slysadeild að svo stöddu. Að sögn lögreglu er skráningarnúmer ökutækisins vitað og verður málið rannsakað.

Tónlistarhátíðin Secret Solstice stendur nú yfir í Laugardal og komu nokkur mál upp á því svæði í gærkvöldi og í nótt. Rétt fyrir klukkan 23 í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í Laugardal þar sem ráðist var á mann og reynt að ræna hann. Árásarmaðurinn hljóp á brott og var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Ekki er vitað um meiðsl árásarþola.

Þá handtók lögregla ungan ofurölvi mann við tjaldsvæðið í Laugardal á þriðja tímanum í nótt. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands. Þá hafði lögregla afskipti af einum manni í Laugardal í gærkvöldi vegna vörslu fíkniefna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.