Eftirför á Vesturlandsvegi: Ók alltof hratt, yfir á rauðu og virti ekki umferðarmerki

Talinn hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna

Mynd: © DV ehf / Stefán Karlsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði hendur í hári ökumanns skömmu eftir miðnætti sem grunaður er um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, akstur án réttinda og vörslu fíkniefna.

Það var um klukkan hálf eitt eftir miðnætti sem lögregla veitti ökumanninum eftirför á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg. Ökumaðurinn sinnti ekki merkjum lögreglu um að stöðva bifreið sína og ók af Vesturlandsvegi inn á Höfðabakka. Þaðan ók hann um Stekkjarbakka og í Kópavog þar sem hann stöðvaði bifreið sína eftir að hafa lent í umferðaróhappi.

Að sögn lögreglu hunsaði maðurinn öll umferðarlög. Þannig virti hann ekki umferðarmerki, ók yfir á rauðu ljósi og auk þess allt of hratt. Þannig mældist bifreið hans á 140 kílómetra hraða á svæði þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar á klukkustund. Sem fyrr segir er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, auk þess sem fíkniefni fundust í fórum hans. Þá var hann réttindalaus.

Ökumaðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu eftir sýnatöku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.