Segir Robert Downey hafa farið til sálfræðings vegna barnagirndar

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Roberts, segir að málið snúist fyrst og fremst um annað tækifæri

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Róberts Árna Hreiðarssonar, eða Robert Downey líkt og hann kallar sig í dag, segir í samtali við DV að Róbert hafi farið í sálfræðimeðferð til að vinna bug á hneigð sinni. Fréttir þess efnis að Róbert Árni Hreiðarsson, nú Robert Downey hafi hlotið uppreist æru hefur vakið mikla athygli. Eins og greint hefur verið frá staðfesti Hæstiréttur í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að Róbert gæti aftur starfað sem lögmaður eftir að hafa hlotið uppreist æru í september síðastliðnum. Róbert var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum og missti hann lögmannsréttindi sín í kjölfarið.

Er ákvörðun innanríkisráðuneytis harðlega gagnrýnd víða á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þá hefur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands hlotið sinn skerf af gagnrýni en hann segir að ákvörðun um uppreist æru hafi ekki verið tekin hjá embætti forseta Íslands, heldur innanríkisráðuneytinu. Í samtali við DV sagði Guðni að ákveðin lög gildi um uppreist æru og þeir sem sækist eftir slíku geri það hjá innanríkisáðuneytinu. Þar sé hin eiginlega stjórnarathöfn tekin og hann fái svo beiðnina til undirskriftar. Konurnar sem brotið var á og fjölskyldur þeirra hafa gagnrýnt þessa ákvörðun mjög.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur einnig tjáð sig um málið og segir i samtali við RÚV að ferlið að fá uppreist æru sé í föstum skorðum og látið í því liggja að allir fái uppreist æru sem sækist eftir því en Bjarni segir:

„ ... má segja um þetta að lög á Íslandi gera alveg ótvírætt ráð fyrir því, að uppfylltum tilteknum skilyrðum að menn geti aftur fengið uppreist æru þrátt fyrir að hafa hlotið nokkuð alvarlega dóma. Í því fellst að menn geta aftur endurheimt ýmis borgaraleg réttindi.“

Það stangast á við það sem kom fram í umfjöllun Kastljós 2016 þegar fjallað var um að Atli Helgason hlaut uppreist æru eftir að hafa setið af sér dóm vegna manndráps. Í frétt Morgunblaðsins sem vitnar í kastljós segir:

„ [á] ár­un­um 1995 – 2012 hefðu 57 sótt um upp­reist æru. 31 var hafnað, einn dró um­sókn sína til baka og fimm voru felld­ar niður. Til þess að eiga mögu­leika á upp­reist æru þarf að hafa tekið út refs­ingu sína. Sé brotið al­var­legt þurfa að hafa liðið fimm ár frá lok­um afplán­un­ar og þarf að vera fyrsta brot.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fleiri stjórnmálamenn hafa tjáð sig um málið en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra í ríkisstjórn Bjarna segir á Facebook:

„Þetta ömurlega mál vekur upp spurningar sem okkur stjórnvöldum ber að svara. Hér eru augljóslega ákveðnir öryggsiventlar ekki að virka. Málið sendir röng skilaboð til þeirra sem eru að kljást við afleiðingar kynferðisofbeldis og það er óásættanlegt. Að veita manni sem brotið hefur kynferðislega gegn börnum uppreist æru og lögmannsréttindi í ofanálag á ekkert skylt við að veita manni sem hefur lokið afplánun annað tækifæri.“

DV hefur fjallað um málið frá öllum hliðum í gær og í dag og ákvað að heyra í lögmanni Róberts Árna. Það er Jón Steinar Gunnlaugsson sem hefur verið honum innan handar.

Vitum ekki hvort hann sé haldinn barnagirnd

Í dómi Hæstaréttar segir að það skipti Róbert miklu máli að geta skilið við þann kafla í lífi sínu sem leitt hafi til dómsins árið 2008. Spurður um þetta atriði segir Jón Steinar. „Hann telur sig vera kominn yfir þau vandamál sem hann hafði við að stríða á þessum tíma. Það voru atriði þá í lífi hans sem voru honum mjög erfið. Hann er búinn að vinna í því og núna er þetta bara hefndarhugur. Málið núna snerist um það að hann fengi málflutningsréttindi sín aftur. Hann notaði þau ekki til að fremja þessi afbrot,“ segir Jón Steinar.

Spurður nánar um hvort hægt sé að segja að Róbert sé ekki haldinn barnagirnd svarar Jón Steinar:

„Hann er búinn að vera hjá sálfræðingi en sjáðu til, þetta er ekki endilega þannig að hann geti fengið einhverja lækningu, ef við köllum það því nafni, á þessu í eitt skipti fyrir öll, að við gætum fengið einhvern stimpil frá einhverjum manni um það. Þetta er ekkert þannig. Það sem hann hefur gert er að hann hefur leitað hjálpar en við vitum auðvitað ekki endanlega hvort það hefur borið árangur,“ segir Jón Steinar.

Hann bendir á að Róbert hafi gengið laus um árabil. „Ef að menn eru svona áhyggjufullir yfir því að hann hafi ennþá yfir að búa svona hvötum til að fremja svona afbrot, þá breytir það að hann fái málflutningsleyfið sitt aftur engu um það,“ segir Jón Steinar.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Snýst um annað tækifæri

Jón Steinar segir að málið snúist fyrst og fremst um að gefa manninum annað tækifæri. „Þetta er maður sem braut af sér og hann er ekki að reyna að fegra brotið, þetta voru hörmuleg brot, en við erum með grundvallar atriði í okkar lögum að við gefum mönnum annað tækifæri. Út á það gengur þetta mál, að hann fái annað tækifæri. Þess vegna fær hann uppreist æru,“ segir Jón Steinar.

Hann fordæmir orð Guðni Th. Jóhannesson um að helst ætti ekki að sleppa kynferðisafbrotamönnum úr fangelsi. En Guðni sagði samtali við Vísi:

„Samúð mín er auðvitað öll hjá þeim sem þessi brotamaður braut á. Að þurfa að þola þessa upprifjun núna. Ég er bara eins og aðrir Íslendingar, held ég, að þegar kynferðisafbrot eru annars vegar þá vill maður helst að brotamaðurinn sé læstur inni og lykllinum hent. En við búum líka í réttarríki og leyfðu mér að ítreka þetta - ákvörðunin er ekki tekin hérna.“

Um þetta segir Jón Steinar:

„Við viljum gefa þeim sem hafa misstigið sig í lífinu annað tækifæri. Það eina sem er haft gegn þessu núna gagnvart honum er einhverskonar hatur á manninum fyrir þau brot sem hann var dæmdur fyrir á sínum tíma.

„Hann hlaut fangelsisdóm og missti æruna vegna þessa brota. Hann er búinn að afplána það og ef að fólk getur ekki látið sér það duga þá hlýtur það að vilja krefjast þess að hann sé bara ævilangt settur út úr samfélaginu. Hvar er menning okkar komin þegar fólk hagar sér svona?,“ spyr Jón Steinar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.