Gekk um öskrandi, ber að ofan og ógnaði vegfarendum í miðborginni

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann á sjötta tímanum í morgun. Að sögn lögreglu var maðurinn í talsvert annarlegu ástandi, en hann hafði gengið um öskrandi, ber að ofan og verið ógnandi í garð vegfarenda.

Maðurinn var með öllu óviðræðuhæfur sökum ástands og var hann því handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til víman rennur af honum.

Náðu sér í sólstóla

Þá var tilkynnt um nokkra einstaklinga í Háaleitis- og Bústaðahverfi en þeir höfðu farið inn fyrir girðingu við verslun í hverfinu og tekið þaðan sólstóla. Þegar lögreglu bar að garði sátu þeir í stólunum skammt frá vettvangi. Fólkið skilaði stólunum og var frjálst ferða sinna eftir upplýsingatöku.

Sofnaði undir stýri

Rétt fyrir klukkan sjö í morgun var tilkynnt um umferðarslys á gatnamótum Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar. Þar hafði fólksbifreið verið ekið aftan á hópferðabifreið. Að sögn lögreglu leikur grunur á að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi sofnað undir stýri með fyrrgreindum afleiðingum. Kenndi ökumanninum til eymsla í bringu eftir atvikið og var hann fluttur á slysadeild til skoðunar og aðhlynningar.

Kom að manni inni í húsinu

Á níunda tímanum í morgun var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots inn á heimili í Grafarvogi. Að sögn lögreglu hafði íbúi komið að karlmanni inni í húsinu og náði íbúinn að reka manninn út úr húsinu áður en lögreglan kom á vettvang. Flúði maðurinn svo af vettvangi. Þegar þetta er skráð var ekki búið að finna viðkomandi, þrátt fyrir mikla leit lögreglu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.