Auglýsa eftir barnapíu – 6 milljónir í árslaun - Það er þó einn hængur á þessu góða og vel launaða starfi

Ætli það sé reimt í þessu húsi?
Ætli það sé reimt í þessu húsi?

Nýverið var auglýst eftir barnapíu til að gæta tveggja barna, 5 og 7 ára, á heimili þeirra. Í starfinu felst að barnapían verður að búa á heimilinu til að sinna starfinu. Launin eru góð eða um 6 milljónir á ári, 28 daga launað sumarfrí og herbergi með sér baðherbergi. Allt lítur þetta mjög vel út en það er þó einn hængur á þessu öllu saman.

Parið á heima í Skotlandi og býr í litlum bæ nærri landamærunum að Englandi. Launin sem bjóðast eru 50.000 pund á ári sem verða líklegast að teljast góð laun fyrir barnagæslu. Parið auglýsir eftir barnapíu á vefsíðunni Childcare.co.uk. í auglýsingunni er farið yfir launin og önnur kjör en síðan kemur það sem fælir væntanlega marga frá.

„Við höfum átt heima í húsinu í tæp 10 ár. Þegar við keyptum það var okkur sagt að það væri reimt í því. Við keyptum samt húsið en höfum alltaf verið hreinskilin með þetta. Fimm barnapíur hafa hætt störfum hjá okkur undanfarið ár en allar sögðu þær að yfirskilvitlegir atburðir væru orsök uppsagnarinnar. Það voru undarleg hljóð, glös sem brotnuðu eða húsgögn sem færðust úr stað af sjálfu sér.“

Fram kemur að það hafi auðvitað verið erfitt fyrir börnin að sífellt sé verið að skipta um barnapíur. Sjálf segjast þau ekki hafa upplifað neitt yfirskilvitlegt í húsinu því allt hafi þetta gerst þegar þau voru ekki heima. Af þessum sökum segjast þau reiðubúin til að greiða meira en venja er fyrir starf sem þetta.

Auk þess að takast á við þetta yfirskilvitlega á barnapían að útbúa morgunmat, koma börnunum af stað á morgnana, aka þeim í og úr skóla, hjálpa þeim með heimanámið og koma þeim i náttfötin á kvöldin.

Foreldrarnir vinna mikið og því getur sú staða komið upp að barnapían er ein með börnin í allt að fjóra daga í viku.

BBC hefur eftir Richard Conway, eiganda Childcare.co.uk, að þar á bæ hafi fólk veirð mjög hissa þegar það sá auglýsinguna og hafi efast um hvort birta ætti hana. En eftir að hafa rætt við fólkið og fyrrum barnapíur þess sé ekki annað að sjá en að ekki sé neitt ýkt í auglýsingunni og því hafi hún verið birt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.