Fréttir

Arnars Aspar minnst: „Þú gerðir dóttur mína svo hamingjusama“

Arnar Jónsson Aspar verður borinn til grafar í dag

Hjálmar Friðriksson
Föstudaginn 16. júní 2017 14:00

„Í dag kveð ég elsku tengdason minn. Þú gerðir dóttur mína svo hamingjusama. Það var svo yndislegt að sjá hvað þið voruð ástfangin. Þið eignuðust ykkar fyrsta barn saman, litla fallega ljósið í lífi ykkar og að sjá hvað tengslin voru sterk hjá þér og litlu stúlkunni þinni var yndislegt. Þú dáðir og elskaðir börnin þín, varst yndislegur faðir,“ skrifar Helga Sigurðardóttir í minningargrein um tengdason sinn, Arnar Jónsson Aspar, sem lést eftir líkamsárás í Mosfellsdal í síðustu viku. Útför hans fer fram í Grafarvogskirkju í dag.

Í minningargreinum sem birtast í Morgunblaðinu í dag er Arnars minnst sem ljúfum og tryggum fjölskyldumanni. „Það er ekki þægileg tilfinning fyrir nána ættingja að skilin verði með þessum hætti. Þessi ungi maður undi vel við sinn hlut og hestamennska og tamningar áttu hug hans allan, en hann var líka tryggur fjölskyldumaður,“ skrifa Jón og Katrín Hermannsdóttir.

Margir minnast þess hve lífið geti verið ósanngjarnt þegar maður á besta aldri kveður á svo voveiflegan hátt. „Lífið er svo óréttlátt, hjartað okkar er í molum. Hugur okkar er hjá Heiðdísi, Emelíu Sól og litla ljósinu sem þú færðir okkur. Við ætluðum að búa til fullt af fleiri minningum með þér á komandi tímum. Takk fyrir að hafa hugsað um systur okkar og elskað,“ skrifa Guðrún, Heiðrún, Henný og Aldís mágkonur Arnars.

Aðrir nefna hve góður faðir Arnar var. „Það var unun að fylgjast með honum og Heiðdísi saman. Arnar og Emelía áttu einstakt feðginasamband og voru hestarnir þeirra sameiginlega áhugamál. Mikil er sorgin að nýfædda dóttir Arnars og Heiðdísar fái ekki að njóta samvista við föður sinn í framtíðinni. Harmur Heiðdísar er mikill við missi Arnars en þau áttu fallegt samband og áttu saman allt lífið framundan,“ skrifa Heiða, Magnús og synir.

„Lífið getur verið óréttlátt og þú áttir allt lífið framundan. Það var svo gaman að sjá hvað pabbi minn og þú náðuð vel saman og töluðuð um allt og hlóguð mikið saman. Það er mikill missir fyrir pabba að missa besta vin sinn. Þú varst góður við allar dætur mínar og börn þeirra,“ skrifar Helga Sigurðardóttir um tengdason sinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af