fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Síðustu leifar vinstri umferðarinnar að hverfa

Bílastæði sem bera vinstri umferðinni merki munu víkja í framkvæmdum við Miklubraut

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 9. maí 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með framkvæmdum sem nú eru að hefjast á Miklubraut milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs munu einar af síðustu leifunum um vinstri umferð í borginni hverfa. Með framkvæmdunum verður bílastæðum við húsagötuna, sunnan megin við Miklubraut, breytt en þar má sjá minjar þess þegar hér var vinstri umferð. Slíkar minjar eru einnig sýnilegar á bílastæðum við Hofsvallagötu, næst Vesturbæjarlaug.

Framkvæmdirnar sem um ræðir fela í sér að gerð verður forgangsakrein fyrir strætisvagna til austurs auk aðskilinna hjóla og göngustíga norðan götunnar. Hafist verður handa norðan megin, nær Klambratúni, en síðan farið í framkvæmdir í og við húsagötuna sunnan megin. Forgangsakrein strætisvagna verður þá lögð sunnan Miklubrautar, meðfram húsagötunni, auk hljóðvarnarveggja. Þar með munu umrædd bílastæði lenda undir framkvæmdasvæðinu og með þeim minjar vinstri umferðarinnar.

Mikil vinna var lögð í að kynna breytinguna frá vinstri og yfir í hægri umferð árið 1968.
H-dagurinn Mikil vinna var lögð í að kynna breytinguna frá vinstri og yfir í hægri umferð árið 1968.

Mynd: Borgarskjalasafn

H-dagurinn 1968

Umferð á Íslandi var breytt úr vinstri umferð og yfir í hægri umferð að morgni sunnudagsins 26. maí 1968. Eins og gefur að skilja hafði uppbygging umferðarmannvirkja fram til þess tíma tekið mið af þeim reglum sem í gildi voru, það er vinstri umferð. Vissulega var ekki mjög flókið að færa umferð frá vinstri til hægri þar eð aðeins þurfti að skipta um akreinar en hins vegar þurfti að færa þúsundir götu- og vegaskilta sem voru, eins og gefur að skilja, öfugum megin miðað við umferð. Þá þurfti að breyta strætisvögnum til að hægt væri að ganga inn í þá hægra megin í stað vinstra megin og einnig þurfti að breyta, í einhverjum mæli, umferðarmannvirkjum til að koma til móts við breytinguna.

Lagt öfugt

Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd voru bílastæðin sem um ræðir við Miklubrautina hönnuð með það fyrir augum að bílar sem komu keyrandi til vesturs á syðri akreininni gætu keyrt inn í húsagötuna og lagt í skástæði meðfram Miklubraut. Því má sjá totu vestast á bílastæðunum báðum sem rímar við að leggja hefði átt bílum á ská í norðvesturátt. Hins vegar er bílum nú, sökum þess að hægri umferð er við lýði, lagt á ská í norðaustur.

Snæbjörn segir að það væri ráð að friða þær fáu minjar sem eftir eru um vinstri umferðina og koma upp minningarskjöld um H-daginn.
Vill varðveita minjar um vinstri umferð Snæbjörn segir að það væri ráð að friða þær fáu minjar sem eftir eru um vinstri umferðina og koma upp minningarskjöld um H-daginn.

Mynd: Eyjólfur Guðmundsson

Nær að friða og setja upp minnismerki

Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur og áhugamaður um samgöngu- og vegamál, vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni og spurði jafnframt í léttum tón, en þó af alvöru, hvort ekki væri rétt að fara fram á skyndifriðun. Í samtali við DV segir Snæbjörn að honum þyki miður ef ekki verður horft til samgöngusögunnar og það endi með því að allar minjar um vinstri umferðina hverfi. „Þetta eru auðvitað bráðnauðsynlegar framkvæmdir sem verið er að ráðast í á Miklubrautinni. Það er hins vegar svolítið leiðinlegt að verið sé að slaufa þessu gamla bílastæði í leiðinni, bílastæði sem er núna einn fárra minnisvarða um vinstri umferðina sem eftir eru. Einhverjum kann að þykja sérstakt að líta á þetta með þessum augum en vinstri umferðin er hluti af samgöngusögunni. Það getur varla verið mikið mál að varðveita þessar minjar, þótt lappað væri upp á þær meðfram framkvæmdunum. Það væri miklu frekar að friða þær og setja upp minningarskjöld um vinstri umferðina og H-daginn þarna við hliðina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi